19.2.2010 | 14:45
Hlustum á Norðmanninn
Ég man eftir því í aðdraganda hrunsins og eftir það, hversu hart Davíð Oddsson gekk fram í því, að íslenska ríkið ætti ekki að taka á sig neins konar ábyrgð á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sem hér hafði verið stofnaður eftir lögum og reglum EES. Í samtölum við mig lét hann í ljós þungar áhyggjur af því, að einstakir ráðherrar í fyrrverandi ríkisstjórn kynnu að ljá máls á einhverri slíkri ábyrgð, en sumir þeirra voru nátengdir bönkunum (til dæmis var Björgvin G. Sigurðsson svili Sigurðar G. Guðjónssonar í Glitni).
Þegar í febrúar 2008 sagði Davíð við bankastjóra Landsbankans á fundi í Seðlabankanum: Þið getið út af fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn og eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja íslensku þjóðina á hausinn. Davíð skrifaði einnig Geir H. Haarde forsætisráðherra bréf 22. október 2008, þar sem hann sagði: Þetta eru ekki skuldbindingar íslenska ríkisins, þetta eru ekki skuldbindingar íslenskra borgara, þetta eru skuldir Landsbankans.
Hvers vegna tóku ráðherrar fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar ekki sömu einarðlegu afstöðu og Davíð í Icesave-málinu? Þess í stað varð það eitt aðalbaráttumál núverandi ríkisstjórnar fyrstu vikurnar að hrekja Davíð úr stöðu sinni!
Ég hef áður reifað hér sjónarmið lögfræðinga, sem benda á, að hvergi sé stafkrókur um það í lögum eða reglum eða alþjóðasamningum, að full ríkisábyrgð hefði verið á Tryggingarsjóðnum. Ég hef einnig rifjað upp ummæli Jean-Claude Trichets, seðlabankastjóra Evrópu, og Woulters Bous, fjármálaráðherra Hollands, um, að innstæðutryggingakerfi EES væri ekki ætlað að verjast bankahruni, heldur aðeins erfiðleikum einstakra banka. Ég hef enn fremur bent á, að ekkert fullvalda ríki getur látið voldugar grannþjóðir neyða sig að ófyrirsynju til stórkostlegra útgjalda og jafnvel gjaldþrots á hæpnum forsendum.
Nú hefur Pressan dregið fram í dagsljósið afar athyglisvert sjónarmið. Arne Hyttnes, forstöðumaður hins norska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem stofnaður var samkvæmt sömu lögum og reglum og hinn íslenski, segir, að auðvitað sé ekki ríkisábyrgð á norska sjóðnum. Það er ekkert sem segir í reglugerð ESB samningsins að það eigi að vera ríkisábyrgð, segir Hyttnes. Vel geti verið, að Íslendingar hafi látið neyða sig til að veita ríkisábyrgð á sínum sjóði, en það hljóti að hafa stuðst við stjórnmálarök, ekki lög. Það getur ekki verið að EES samningurinn kveði á um að nokkurt ríki veiti ríkisábyrgð.
Hér mælir sá, sem gerst þekkir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook