Falleg kveðja

522571.jpgStefán Snævarr heimspekingur minntist nýlátins föður síns, Ármanns Snævarrs, fallega á bloggsíðu sinni. Sagðist hann ekki ætla að skrifa um hann væmna grein, heldur ganga til vinnu sinnar. Þannig yrði föður síns best minnst, því að hann hefði verið með afbrigðum vinnusamur maður.

Við andlátsfrétt Ármanns rifjaðist upp fyrir mér, að hann var einn þeirra 150 Íslendinga, sem ég gerði ásamt öðrum um viðtalsþætti fyrir Sjónvarpið undir hinu gamla og góða heiti „Maður er nefndur“. Þessir þættir voru nokkuð gagnrýndir á sínum tíma, meðal annars af tveimur sagnfræðingum í Háskóla Íslands, en mig grunar, að það hafi frekar verið vegna þess, hver átti hugmyndina að þeim en hvernig þeir voru.

Þátturinn um Ármann er ómetanleg heimild um mann, sem kenndi tveimur kynslóðum lögfræðinga og var um langt skeið rektor Háskóla Íslands. Þessi þáttur er til, þótt Ármann sé genginn.

Í rauninni hefði þurft að gera miklu fleiri slíka þætti. Ég skal hér til dæmis nefna þrjá menn, sem höfðu frá mörgu að segja, en gerðu það af einhverjum ástæðum aldrei í sjónvarpi, svo að heitið gæti:

gunnarthoroddsen.jpgGunnar Thoroddsen reið sumarið 1930 í fylgd Jóns Þorlákssonar um landið og hélt fundi fyrir landskjörið. Gaman hefði verið að heyra hann lýsa því og mörgu öðru merkilegu, til dæmis þegar hann settist kornungur á þing 1934.

_orarinn_orarinsson.jpgÞórarinn Þórarinsson ritstjóri var nákominn Jónasi Jónssyni frá Hriflu og öðrum svipmiklum forystumönnum Framsóknarflokksins um árabil og gjörþekkti innviði íslenskra stjórnmála. Hann fylgdist alla tíð vel með og var hafsjór af fróðleik.

Magnús Magnússon (Stormur) var lögfræðingur, blaðamaður og lífslistarmaður í Reykjavík á fjórða áratug og skrifaði skemmtilega palladóma um alþingismenn. Hann hafði yndi af því að segja sögur, en eflaust hafa margar þeirra farið með honum í gröfina.

Þættir um þessa þrjá menn og marga fleiri voru því miður aldrei gerðir. Hugsum okkur líka, hversu stórkostlegt hefði verið að eiga til á hljóðbandi eina eða tvær mínútur af upplestri Jónasar Hallgrímssonar, Jóhanns Sigurjónssonar, Einars Benediktssonar eða Hannesar Hafsteins! Eða jafnvel nokkrar sekúndar af þessum mönnum í lifandi mynd.

Í þáttum þeim, sem ég gerði fyrir Sjónvarpið um tuttugustu öldina, setti ég þá tvo stuttu búta, sem til eru af Hannesi Hafstein í mynd, annars vegar í þingmannaförinni 1906, hins vegar í konungskomunni 1907. Í þeim heimildarmyndum reyndust gömlu þættirnir „Maður er nefndur“ ekki síður en nýju þættirnir, sem ég sá um, afar notadrjúgir.

(Ljósmynd Mbl. Golli.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband