16.2.2010 | 10:23
Rannsóknarnefnd Alþingis

Búast má við, að andmæli sumra verði rækileg, enda er mikið í húfi fyrir þá, sem athugasemdum sæta.
Karl segir: Er að undra þótt að manni læðist sá grunur, að nefndin sé þegar komin að sinni grátlegu niðurstöðu og hyggist lítið eða ekkert mark taka á því sem hinir tólf nafngreindu sakborningar hafa fram að færa? Einmitt af því að hún verður að standa við stóru orðin og framleiða hinar verstu fréttir?
Því er við orð Karls að bæta, að sjálf veitti nefndin sér tvisvar aukinn frest, þótt kveðið væri á um það í lögum, að hún skyldi skila skýrslu sinni 1. desember 2009: Fyrsti fresturinn var til 1. febrúar, annar fresturinn fram í mars. Ég fæ því ekki séð annað en nefndin hljóti að veita því fólki, sem fær að gera athugasemdir, frekari fresti, reynist þess þörf.
Miklu varðar í návíginu hér á Íslandi, að vandað sé til þessa verks. Það er til dæmis ekki heppilegt, að einn nefndarmaðurinn, Sigríður Benediktsdóttir, skyldi fyrir rannsóknina láta í ljós skoðanir á bankahruninu, sem voru nægilega sterkar og umdeilanlegar til þess, að samnefndarmenn hennar vildu láta hana víkja, þótt þeir hættu við það. Því síður er heppilegt, að tengdadóttir annars nefndarmannsins, Tryggva Gunnarssonar, skuli hafa verið einn helsti ráðamaður Fjármálaeftirlitsins.
Bankahrunið átti sér margar og flóknar skýringar. Ég hef áður bent á hinar mikilvægustu þeirra:
- Kerfisgalli í regluverki EES, þar sem leyfilegt starfssvæði banka var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra. (Á þetta sama atriði hafa sífellt fleiri erlendir fræðimenn og álitsgjafar bent síðustu vikur.)
- Fautaskapur Breta með beitingu hryðjuverkalaganna, sem gerði að engu möguleika íslenskra stjórnvalda til að bjarga einhverju af hinum erlenda hluta bankakerfisins.
- Glannaskapur íslensku bankamannanna. Hvernig gat til dæmis ein fjölskylda, Baugsfjölskyldan, safnað þúsund milljarða króna skuldum í íslensku bönkunum? Hitt er annað mál, að stundum er lítill munur á dirfsku og fífldirfsku. Hvaða lög brutu til dæmis Landsbankamenn með því að stofna Icesave-reikningana?
- Andvaraleysi íslenskra stjórnvalda, sérstaklega Fjármálaeftirlitsins og stjórnmálamanna, sem sinntu ekki þrálátum viðvörunum Seðlabankans, en þær gátu eðli málsins fæstar komið fram opinberlega, heldur aðallega í einkasamtölum. En andvaraleysi er ekki refsivert að lögum, nema það sé vítavert og stórfellt gáleysi.
Nefndarmennirnir eru allir virtir sérfræðingar. Þeir mega ekki vera hræddir við að kveða upp úr það, ef þeir telja sig einhvers staðar finna sök, en þeir verða líka að gæta þess að halla ekki á neinn, svo að skýrsla þeirra fái staðið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook