15.2.2010 | 11:38
Grein Lipietz
Ég get eins og Egill Helgason ekki annað en vitnað í hina ágætu grein Alains Lipietz í Morgunblaðinu í gær, þar sem fram kemur sú skoðun höfundar, að Íslendingar skuldi ekkert vegna Icesave-samninganna. Lipietz reifar skýrt aðalatriði málsins:
- Íslendingar fóru að fullu eftir reglum EES um innstæðutryggingar og stofnuðu tryggingarsjóð. Hann er ábyrgur fyrir innstæðum, ekki ríkissjóður.
- Bretar og Hollendingar ákváðu einhliða að greiða eigendum innstæðna á Icesave-reikningum út kröfur þeirra upp að tilteknu hámarki. Þeir eiga engan lagalegan rétt á því, að Íslendingar endurgreiði þeim þetta.
- Bretar og Hollendingar geta ekki ætlast til þess, að íslenska þjóðin greiði skuldir, sem einkaaðilar stofnuðu til, ekki síst þegar þær skuldir myndu hugsanlega valda þjóðargjaldþroti.
Lipietz rekur ákvæði í tilskipunum Evrópusambandsins um þetta mál:
Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum.
Kerfi gistiríkisins hefur rétt til þess að láta útibúin greiða framlag vegna bótagreiðslna og skal í því sambandi miðað við þá tryggingu sem kerfi heimaríkisins veitir. Til að auðvelda innheimtu slíks framlags hefur kerfi gistiríkisins rétt til að líta svo á að trygging þess takmarkist ætíð við þá tryggingu sem það veitir umfram trygginguna sem heimaríkið veitir, óháð því hvort heimaríkið greiði í reynd viðbótarbætur fyrir innlánið sem er ótiltækt á yfirráðasvæði gistiríkisins.
Í rauninni segir Lipietz ekki annað um Icesave-málið en Davíð Oddsson hefur lengi haldið fram, en grein hans er ekki verri fyrir það: An expert is somebody from out of town.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook