Ráðherrarnir víki frá málinu

Bretar og Hollendingar setja það skilyrði fyrir nýjum samningum um Icesave, að Íslendingar komi sameinaðir fram út á við. Þetta er auðvitað eðlilegt sjónarmið.

En stjórnarandstaðan íslenska getur ekki fylkt sér þegjandi og hljóðalaust að baki núverandi ríkisstjórn. Þeir þrír ráðherrar, sem farið hafa með Icesave-málið, hafa allir reynst óhæfir. Þeir hafa misst traust.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er mállaus mannafæla. Hún treystir sér til dæmis ekki til að koma fram á blaðamannafundum erlendis. Hið skyndilega og furðulega leyfi hennar erlendis veitir enn eina vísbendinguna um, að hún valdi ekki starfi sínu.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hlýtur að sæta opinberri rannsókn vegna sölu á stofnfjárhlut sínum í Spron skömmu fyrir verðfall hans, en Össur var sem kunnugt er í góðum tengslum við ráðamenn Spron. Aðstoðarmaður hans er flæktur í alþjóðlegt hneykslismál, þótt hann neiti að svara blaðamönnum um það.

Steingrímur J. Sigfússon hefur stjórnað Icesave-málinu af dæmafáum hroka, en einnig vanþekkingu og fljótfærni, eins og Björn Bjarnason hefur rakið á bloggsíðu sinni. Steingrímur fól óreyndum og duglitlum mönnum að annast samningana við Breta og Hollendinga og hafði að engu ýmislegt, sem styrkti málstað Íslands.

Er ekki eðlilegast, að Ögmundur Jónasson, sem var þó sjálfum sér samkvæmur allan tímann, taki aftur sæti í ríkisstjórninni og fari með Icesave-málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar? Hlýtur stjórnarandstaðan ekki að krefjast þess, að þeir ráðherrar, sem óhæfir reyndust til að fara með málið, víki fyrir heiðarlegum manni eins og honum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband