10.2.2010 | 21:25
Þrjár spurningar um Baugsfeðga
Allir eru sammála um það í orði kveðnu, að reglur eigi að vera gagnsæjar og mönnum skuli ekki mismunað að tilefnislausu. Mig langar þess vegna til að bera upp þrjár spurningar um Baugsfeðga annars vegar og Björgólfsfeðga hins vegar:
Baugsfeðgar þurftu ekki að ganga í persónulegar ábyrgðir fyrir lánum sínum úr íslensku bönkunum, eins og Jón Ásgeir Jóhannesson hreykir sér af opinberlega. Björgólfsfeðgar þurftu hins vegar að ganga í persónulegar ábyrgðir fyrir lánum sínum, og hefur Björgólfur eldri þess vegna misst allar eigur sínar. Hvers vegna gerðist þetta?
Bankar tóku fjölmiðla í eigu Björgólfsfeðga af þeim og seldu í opnu og gagnsæju útboði. Bankar leyfðu hins vegar Baugsfeðgum að halda fjölmiðlum sínum og flytja skuldir þeirra í önnur fyrirtæki. Baugsfeðgar stjórna enn fjölmiðlum sínum og nota þá miskunnarlaust gegn þeim, sem ekki sitja og standa eins og þeir vilja. Hvers vegna fengu þeir þetta?
Bankar hafa stefnt Björgólfi yngra og krafið hann um greiðslu ýmissa skulda þeirra feðga. Á sama tíma veita bankar Baugsfeðgum forkaupsrétt að fyrirtækjum sínum (Högum), en virðast ekki gera neinar ráðstafanir til að fá endurgreitt frá þeim, til dæmis með því að hafa upp á því fé, sem notað var í lystisnekkjur, einkaþotur og skrauthýsi. Hvers vegna var þetta látið eftir þeim?
Hvers vegna fá Baugsfeðgar miklu vægari meðferð en Björgólfsfeðgar? Nú hafði Jón Ásgeir við orð á sínum tíma, sem frægt er, þegar honum fannst forsætisráðherra þeirrar tíðar vera sér erfiður, að enginn maður stæðist 300 milljón króna mútur greiddar inn á erlendan bankareikning. Eiga orð hans enn við?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook