Greining Kristrúnar Heimisdóttur

Ólíkt hafast þeir að, núverandi og fyrrverandi aðstoðarmenn utanríkisráðherra.

kristjanguyburgess.jpgKristján Guy Burgess, núverandi aðstoðarmaður ráðherrans (Össurar Skarphéðinssonar), er í felum. Hann vill þrátt fyrir fögur orð ríkisstjórnarinnar um gagnsæi í vinnubrögðum ekkert segja um hið alþjóðlega hneyksli, þegar honum tókst með aðstoð forseta Íslands að véla röskar 60 milljónir króna út úr Carnegie-stofnuninni í New York til að rannsaka bráðnun jökla á Himalajafjöllum. Í ljós kom, að spár þær, sem hann hafði notað, voru getgátur einar, og hefur Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem gerði þær að sínum í nýjustu áfangaskýrslu sinni 2007, orðið að ógilda þær og biðjast afsökunar.

kristrun-heimisdottir.jpgKristrún Heimisdóttir lögfræðingur, fyrrverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra (Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur), skrifar hins vegar skorinorða grein í Fréttablaðið í gær, þar sem hún viðurkennir, að samningamenn Íslands í Icesave-deilunni hafi gert stórkostleg mistök. Hún vitnar til dæmis í orð annars aðalsamningamannsins, Indriða H. Þorlákssonar, sem sagði, að Ísland hefði í raun „tekið lán í október 2008“. Þá ákváðu ríkisstjórnir Bretlands og Hollands einhliða að greiða eigendum Icesave-reikninga í þessum löndum innstæður þeirra upp að tilteknu hámarki. Síðan hafa þessar ríkisstjórnir reynt að neyða íslenska skattgreiðendur til að greiða reikninginn fyrir þessar gjörðir.

Ísland tók ekkert lán hjá Bretum og Hollendingum í október 2008. Eins og okkar færustu lögfræðingar hafa bent á, er hvergi neinn bókstafur fyrir því í lögum eða alþjóðasamningum, að ríkissjóður Íslands þurfi að hlaupa undir bagga, ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (sem stofnaður var og rekinn samkvæmt reglum EES) getur ekki fullnægt skuldbindingum sínum.

Kristrún kemst að þeirri rökréttu niðurstöðu í grein sinni, að þjóðin verði að fella Icesave-samningana í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sem fyrirhuguð er í marsbyrjun. Eftir það megi hefja nýjar samningaviðræður við Breta og Hollendinga. Hún minnir á það, sem sumir virðast hafa gleymt, að Ísland er fullvalda ríki, sem getur ekki látið bjóða sér hvað sem er. En þótt grein hennar sé áfellisdómur yfir Steingrími J. Sigfússyni, hittir hún ekki síður fyrir flokkssystkini hennar í Samfylkingunni, sem bera sömu ábyrgð á þessum samningum og Vinstri grænir. Munurinn var sá, að á þingi stóð Samfylkingin einhuga að samningunum, en Vinstri grænir klofnuðu.

Kjarni málsins er samt þessi: Því afdráttarlausari sem niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verður, því skýrara verður umboð nýrra samningamanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband