Furðuleg vinnubrögð Arion banka

Það er stórfurðulegt, að Arion banki skuli veita Baugsfeðgum forkaupsrétt á stórum hluta Haga eftir allt, sem á undan er gengið. Þegar bankastjóri Arion segir, að Jón Ásgeir Jóhannesson komi þar hvergi nærri, heldur aðeins Jóhannes Jónsson, faðir hans, hlýtur hann að tala um hug sér. Allir vita, að Jón Ásgeir stjórnar öllu, sem hann vill innan Baugsveldisins. Jóhannes gegnir hlutverki jólasveinsins og úthlutar glottandi úr pokasjóðum, sem Baugur sér aðeins um að innheimta í, en leggur ekkert í sjálfur.

Við skulum ekki gleyma því, að Jón Ásgeir Jóhannesson er sá Íslendingur, sem ber allra einstaklinga mesta ábyrgð á bankahruninu. Hann ýmist átti íslensku bankana eða hafði óeðlileg áhrif á þá, enda skuldaði hann þar þúsund milljarða, er yfir lauk. Þó er Jón Ásgeir dæmdur brotamaður, sem má þess vegna ekki sitja í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Á maðurinn, sem þurrjós bankana, að fá aðstoð þeirra til að halda áfram? Halda áfram við hvað? Að þurrausa bankana?

Síðustu vikurnar hafa komið í ljós ýmsir gerningar Jóns Ásgeirs, sem eru ofar ímyndunarafli venjulegs fólks. Til dæmis hefur eitt leynifélag hans, sem ber það frumlega nafn Sólin skín, safnað átta milljarða króna skuldum við Glitni (sem hann átti talsverðan hlut í). Jón Ásgeir lét líka moka hátt í þrjátíu milljörðum króna úr Glitni í viðskiptafélaga sinn, Pálma í Fons, í aðdraganda og upphafi bankahrunsins, en Pálmi lagði einn milljarð króna inn á reikning Jóns Ásgeirs á sama tíma!

crop_500x_958739.jpgHvað varð um allt féð, sem Jóni Ásgeiri tókst að svæla út úr íslenskum bönkunum, af sparireikningum grandlausra roskinna kvenna og annarra saklausra fórnarlamba sinna? Ekki hefur það allt farið í lystisnekkju hans, einkaþotu og skrauthýsi erlendis, sem Baugsmiðlarnir minnast nánast aldrei á. Sennilega hefur þorri þess runnið í hinar glannalegu fjárfestingar hans, þegar allt var keypt, sem auga á festi, og sjaldnast spurt um verð.

bilde-1.jpgAuvirðilegast er þó, hvernig Jón Ásgeir sigar enn fjölmiðlum sínum af fullri hörku á þá fáu menn, sem þora að gagnrýna hann. Baugspennar eins og Jón Kaldal (sem Hallgrímur Helgason kallar raunar Jón Ásgeir Kaldal) skrifa enn níðgreinar um Davíð Oddsson, fullar af ósannindum, eins og sést á leiðara Fréttablaðsins í gær.

Björn Bjarnason bendir réttilega á það á bloggsíðu sinni í gær, að Arion banki hefur ekki haft þrek til að standa þessa óbilgjörnu fyrrverandi auðjöfra af sér. Auðvitað átti að gera hið sama og Landsbankinn í dæmi Árvakurs: Taka Haga að fullu og öllu úr höndum þessara manna og selja á frjálsum markaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband