30.1.2010 | 11:57
Hverjir eru bankaræningjarnir?
Eins og allir vita, harðnaði hin alþjóðlega lánsfjárkreppa um allan helming eftir þrot Lehman Brothers um miðjan september 2008. Bankar um allan heim sögðu upp lánalínum. Í lok mánaðarins sneri Glitnir, sem var að miklu leyti í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sér til Seðlabankans og bað um stórt lán, þar sem hann gæti ella ekki staðið við skuldbindingar sínar erlendis. Þess í stað var ákveðið að setja mikið fé inn í bankann, svo að ríkið yrði þar aðaleigandi, en um leið yrði hlutur annarra eigenda skrifaður verulega niður.
Jón Ásgeir Jóhannesson fór hamförum. Hann kallaði viðskiptaráðherrann, Björgvin G. Sigurðsson, á sinn fund nóttina eftir þennan gjörning og lét þá að sögn öllum illum látum. (Furðulegt er, að viðskiptaráðherrann skyldi láta kalla sig á slíkan fund, en það er önnur saga.) Jón Ásgeir sagði síðan í viðtali við Fréttablaðið 30. september: Þetta er stærsta bankarán Íslandssögunnar.
Um þær mundir var Jón Ásgeir stærsti skuldunautur íslensku bankanna. Alls skuldaði hann þeim um eitt þúsund milljarða! Ef spurt er, hvert innlagnir á Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi hafi runnið, þá er eitt svarið áreiðanlega: Til Jóns Ásgeirs, ekki aðeins í lystisnekkju hans, einkaþotu og skrauthýsi eða dýrlegar veislur, heldur líka ýmsar glannalegar fjárfestingar. En ólíkt sumum öðrum auðjöfrum var Jón Ásgeir ekki í neinum persónulegum ábyrgðum að eigin sögn!
Nú er einnig komið í ljós, að sömu dagana og Seðlabankinn reyndi að bjarga Glitni frá falli, mokaði Jón Ásgeir fé úr þessum sama banka í viðskiptafélaga sinn, Pálma Haraldsson í Fons, væntanlega tugum milljarða króna. Jafnframt lagði Pálmi einn milljarð króna inn á einkareikning Jóns Ásgeirs. Skiptastjórar þrotabúa Glitnis og Fons reyna nú að endurheimta eitthvað af þessu fé.
Er nema von, að venjulegt fólk klóri sér í kollinum og spyrji, hverjir hinir raunverulegu bankaræningjar séu? Enn fremur hljóta fleiri en ég að furða sig á því, að Jón Ásgeir skuli halda fjölmiðlum sínum (með dyggilegri aðstoð bankanna) og að Arion banki skuli velta því fyrir sér í alvöru að afhenda honum Haga og afskrifa tugmilljarða skuldir hans.
(Myndirnar eru af lystisnekkju Jóns Ásgeirs og einkaþotu, sem báðar eru kirfilega merktar 101, og úr skrauthýsi hans í New York.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:59 | Facebook