Höfðu þingmenn ónógar upplýsingar?

bilde_955746.jpgÞað er miður, að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu skuli hafa tafist, þótt ég viti það sem gamalreyndur bókarhöfundur, að til þess geta verið skiljanlegar ástæður: Stundum reynist verkefnið, sem menn taka að sér, miklu viðameira og þá um leið tímafrekara en gert hafði verið ráð fyrir.

Það er einmitt mikilvægt, að skýrsluhöfundar vinni starf sitt samviskusamlega, en ekki í neinu óðagoti. Þeir eru að skrifa fyrir söguna, ekki fjölmiðla morgundagsins. Þeir þurfa líka að gæta í senn hagsmuna almennings og réttinda einstaklinga.

Þótt mælt hafi verið fyrir um það í lögum, að rannsóknarnefndin skilaði skýrslu sinni 1. desember síðastliðinn, telst vart lagabrot, að nefndin hafi frestað því að ljúka henni. Sú dagsetning hlýtur að hafa verið viðmiðun, enda hefur nefndin í tvígang frestað skilunum. Henni er vitaskuld ekki skylt umfram getu.

Hitt er annað mál, að ákvæði stjórnarskrárinnar íslensku um það, hvað gera skuli, synji forseti lagafrumvarpi staðfestingar, eru skýr. Eftir það skal „svo fljótt sem auðið er“ bera synjunina undir þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu.

Forseti synjaði frumvarpi um Icesave-samningana staðfestingar. Nú segir Steingrímur J. Sigfússon, að fresta verði þjóðaratkvæðagreiðslunni, þangað til skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hefur verið kynnt, en ekki er von á henni fyrr en í marsbyrjun, um sama leyti og þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram.

Þetta er sami maðurinn og taldi lífsnauðsynlegt að keyra Icesave-samningana í gegnum þingið. Hvers vegna þurfti að flýta sér þá, en nú liggur skyndilega ekkert á? Og það, sem meira er: Er Steingrímur að segja, að þingmenn hafi haft ónógar upplýsingar, þegar þeir afgreiddu frumvarpið?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband