Enn eitt vísindahneykslið

Allir skynsamir menn eru hlynntir umhverfisvernd. Þeir eru andvígir mengun, útrýmingu sjaldgæfra dýrategunda, sóun náttúruauðlinda og umhverfisspjöllum í óbyggðum. Þetta er hins vegar ekki hið sama og að trúa hverri einustu hrakspá, sem fram er sett í nafni umhverfisverndar.

Tvö dæmi um slíkar spár eru úr frægum bókum, sem báðar hafa komið út á íslensku, Raddir vorsins þagna frá 1962 eftir Rachel Carson og Endimörk vaxtarins frá 1972 eftir ýmsa höfunda. Fyrir orð Carsons var skordýraeitrið DDT víða bannað með þeim afleiðingum, að mýrarkalda (malaría) komst aftur á kreik og olli dauða fjölda fólks. Rannsóknir leiddu hins vegar í ljós, að DDT var nær hættulaust mönnum og alls ekki eins skaðlegt fuglum og Carson hafði haldið fram. Höfundar Endimarka vaxtarins fullyrtu, að um og eftir aldamótin 2000 yrði hörgull á mörgum efnum, til dæmis jarðolíu, kopar og áli. Nóg er enn til af þessum efnum.

Miklu nýrra dæmi var, þegar Boris nokkur Worm spáði í tímaritinu Science haustið 2006, að fiskistofnar heims hryndu innan fjörutíu ára. Þegar Jóhann Sigurjónsson, forstöðumaður Hafrannsóknastofnunar, taldi þetta orðum aukið, sætti hann ákúrum í íslenskum blöðum. En fyrir slysni sendi Boris Worm fréttamanni tölvuskeyti, þar sem sást, að þessi spá var auglýsingabrella.

Ég vakti fyrir skömmu athygli á öðru dæmi. Í skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, frá 2007 sagði, að jöklar í Himalajafjöllum kynnu að vera horfnir fyrir árið 2035 vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum. Nú er komið fram, að þessi spá studdist ekki við neinar vísindalegar rannsóknir, heldur var aðeins getgáta, sem birtist í New Science átta árum áður, 1999.

Mánudaginn 25. janúar 2010 var í Wall Street Journal frétt um enn eina brelluna í nafni umhverfisverndar. Í áðurnefndri skýrslu Loftslagsnefndarinnar frá 2007 segir, að vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum muni margvíslegar náttúruhamfarir, svo sem fellibylir og steypiregn, færast í aukana. Vitnað var til rannsóknar „Muir-Wood et. al, 2006“.

Þegar skýrsla Loftslagsnefndarinnar kom út, var ritgerð þessi óbirt og hafði ekki einu sinni verið ritrýnd. Og þegar sjálf ritgerðin kom loks á prent árið 2008 í bókinni Climate Extremes and Society, kváðust höfundar ekki hafa nægileg gögn í höndunum til að geta sagt með neinni vissu, að skýr tengsl væru á milli hlýnunar jarðar og náttúruhamfara eins og fellibylja og steypiregns. 

Engu að síður hefur formaður Loftslagsnefndarinnar, dr. Rajendra Pachauri, margoft vitnað til þessarar spár. Er fleira í skýrslu nefndarinnar jafnhæpið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband