Vefarinn litli frá Kasmír

Nú er hátt í öld frá því, að Halldór Kiljan Laxness gaf út fyrstu stóru skáldsögu sína, Vefarann mikla frá Kasmír. Fyrri hluta nafnsins sótti hann í leikrit eftir danska skáldið Ludvig Holberg, Den politiske kandestøber, sem þýtt hafði verið á íslensku sem Vefarinn með tólfkóngavitið. Leikrit Holbergs var um mann, sem lagði fyrir sig stjórnmál, en átti þangað ekkert erindi. Seinni hluta nafnsins á skáldsögu sinni sótti Laxness til Himalajafjalla, þar sem Kasmír er, en hugir margra í Unuhúsi, þar sem Laxness hafðist oft við, voru mjög bundnir við Himalajafjöll á þeirri tíð.

kristjan-guy2_954061.jpgStundum líkir veruleikinn eftir listinni. Nú eru komnir til sögunnar menn, sem leggja fyrir sig stjórnmál án þess að kunna það, og vilja helst hafast við í Himalajafjöllum. Einn þeirra er Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra og náinn samstarfsmaður Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa. Áður en hann gekk inn í utanríkisráðuneytið með Össuri Skarphéðinssyni, var hann um skeið fréttastjóri DV, en rak síðan 2005–2008 svokallað Alþjóðaver, sem hét á ensku Global Center. Það önglaði saman verulegu fé fyrir ýmis verkefni, sem ekki hafa verið skilgreind nákvæmlega, frá þeim stofnunum, sem Samfylkingin hafði yfir að ráða, svo sem ráðuneytum iðnaðar og utanríkismála. Kristján Guy var einnig tengiliður íslenskra auðjöfra við forsetaembættið, eins og fram kemur í bók Guðjóns Friðrikssonar um forsetann, og hefur eflaust ekki veitt þá þjónustu ókeypis. 

Mest fé fékk þetta fyrirtæki Kristjáns Guys þó að sögn fyrir rannsóknarverkefni vegna bráðnunar jökla á Himalajasvæðinu, 500 þúsund Bandaríkjadali frá Carnegie-stofnuninni í New York. Naut Kristján Guy til þess aðstoðar forsetaembættisins íslenska og indverska verkfræðingsins dr. Rajendra Pachauri, sem er hvorki meira né minna en formaður Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC, en þaðan er sótt sú niðurstaða, að heimurinn sé ekki aðeins að hlýna stórkostlega af mannavöldum, heldur að sú hlýnun muni valda mannkyni verulegum búsifjum, svo að vinna verði gegn henni. Hefur dr. Pachauri oft komið hingað til lands og átt samstarf við forseta Íslands.

Í fjórðu áfangaskýrslu Vísindanefndarinnar, sem kom út 2007, segir: „Glaciers in the Himalaya are receding faster than in any other part of the world and, if the present rate continues, the likelihood of them disappearing by the year 2035 and perhaps sooner is very high if the Earth keeps warming at the current rate.“ Þegar efast hefur verið um þessa spá, hefur dr. Pachauri brugðist hinn versti við og talað um „vúdú-vísindi“ og „afneitunarsinna“.

Nýlega kom hins vegar í ljós, að þessi spá í skýrslu IPCC var ekki á neinum vísindalegum rökum reist. Hún var rakin til greinar í hinu alþýðlega vísindablaði New Scientist árið 1999, og þar var hún sótt í stutt símaviðtal við lítt kunnan indverskan vísindamann, sem kastaði henni fram sem fullkominni getgátu, eins og hann hefur síðan viðurkennt. Hins vegar er talið, að dr. Pachauri og aðstoðarmenn hans hafi fyrir vikið fengið stórfé til stofnana sinna, hugsanlega meðal annars það, sem Kristján Guy Burgess útvegaði. Eru nöfn Háskóla Íslands og Ohio State University (þar sem Ólafur Ragnar Grímsson er heiðursdoktor og fullyrti í ræðu, að jöklar í Himalaja-fjöllum yrðu horfnir innan 20–30 ára) einnig nefnd í þessu sambandi.

Dr. Pachauri hefur valið sama kost og dr. Phil Jones, forstöðumaður loftslagsstofnunar Austur-Anglíuháskóla, eftir að upp komst í tölvupósti um hæpin vinnubrögð hans og annarra sérfræðinga þar, að neita að ræða málið opinberlega. Aðrir vísindamenn krefjast þess, að þessi spá um bráðnun jökla á Himalaja-svæðinu fyrir 2035 verði tekin út úr skýrslu Vísindanefndarinnar (þótt enginn efist um, að sums staðar hafa jöklar hopað talsvert vegna hlýnunar).

En mun Kristján Guy Burgess gera hreint fyrir sínum dyrum opinberlega? Eða er sannleikurinn sá eins og í öðru dönsku skáldverki, að vefararnir séu þrjótar og keisarinn ekki í neinum fötum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband