22.1.2010 | 11:22
Dr. Pachauri og Mr. Burgess
Nokkrir Íslendingar eru flæktir í eitthvert mesta furðumál síðustu missera, spána um bráðnun jökla í Himalaja-fjöllum.
Forsaga málsins er í fæstum orðum, að Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC, birti fjórðu áfangaskýrslu sína árið 2007. Þar sagði, að væntanlega myndu jöklar í Himalaja-fjöllum vera horfnir fyrir 2035 vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum.
Þegar grafist var nýlega fyrir um heimildina, reyndist hún aðeins vera símaviðtal í New Scientist 1999 við Indverjann dr. Syed Hasnain, en hann starfaði þá við Jawaharlal Nehru-háskólann í Nýju Delí. Spáin studdist ekki við neinar vísindalegar rannsóknir, og dr. Hasnain hefur síðar sagt, að um getgátur sínar væri að ræða (speculative).
Þetta var ekki vitað árið 2007. Þá vakti spáin um bráðnun jökla í Himalaja-fjöllum í skýrslu IPCC mikla athygli, þótt ýmsir jöklafræðingar lýstu yfir efasemdum um hana. Hasnain fékk starf í stofnun, sem dr. Rajenda Pachauri, formaður IPCC, veitti forstöðu. Hún heitir The Energy and Resources Institute, TERI. Þetta var fyrir skömmu haft eftir dr. Pachauri:
Scientific data assimilated by IPCC is very robust and it is universally acknowledged that glaciers are melting because of climate change. The Energy & Resources Institute (TERI) in its endeavor to facilitate the development of an effective policy framework and their strategic implementation for the adaptation and mitigation of climate change impacts on the local population is happy to collaborate with the University of Iceland, Ohio State University and the Carnegie Corporation of New York.
Takið eftir, hvaða háskólar eru nefndir: Háskóli Íslands og Ohio State University. Með aðstoð forsetaembættisins mun Kristján Guy Burgess, sem nú er aðstoðarmaður utanríkisráðherra, en þá rak fyrirtækið Global Center, hafa útvegað 500 þúsund Bandaríkjadala styrk (60 milljónir króna á núverandi gengi) frá Carnegie-stofnuninni til rannsókna á bráðnun jökla á Himalajasvæðinu.
Í ræðu í Ohio State University í desember 2009 kvaðst Ólafur Ragnar Grímsson vera viss um, að jöklar í Himalaja-fjöllum myndu bráðna innan 2030 ára vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum.
Nokkrar spurningar vakna:
- Hver er hlutur Háskóla Íslands að þessu furðumáli?
- Hvað varð um 60 milljónirnar, sem setja átti í rannsóknir á þessu fyrirbæri?
- Hvað segja Kristján Guy Burgess og Ólafur Ragnar Grímsson um hinar nýju upplýsingar?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Facebook