21.1.2010 | 11:02
Aðstoðarmaður utanríkisráðherra flæktur í furðumál
Breska stórblaðið Sunday Times greindi frá því 17. janúar, að fréttir um öra bráðnun jökla á Himalaja-svæðinu styddust við hæpnari rök en áður hefur verið talið. Í skýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, fyrir tveimur árum sagði, að jöklar þar bráðnuðu svo hratt, að þeir yrðu sennilega horfnir árið 2035. Nú hefur þessi fullyrðing verið rakin til greinar í New Scientist 1999, átta árum áður en skýrslan var birt.
Einnig er komið í ljós, að greinin í New Scientist var sótt í stutt símaviðtal, sem ástralskur blaðamaður átti við lítt kunnan indverskan vísindamann að nafni Syed Hasnain, sem þá starfaði í Jawaharlal Nehru-háskólanum í Nýju Delí. Haisnan hefur síðan viðurkennt, að um fullkomnar getgátur var að ræða, en ekki niðurstöður neinnar vísindalegrar rannsóknar. Í ritgerðum, sem hann hefur sjálfur birt síðan, er ekki minnst á þessa hrakspá.
Prófessor Murari Lal, sem ritstýrði kaflanum um jökla í skýrslu IPCC, segist ætla að leggja til, að þessi spá verði felld út úr næstu útgáfu, reynist enginn fótur fyrir henni. Sjálfur er hann ekki jöklafræðingur. Sá, sem komst að því, að þessi fullyrðing í skýrslu IPCC styddist ekki við neinar vísindalegar rannsóknir, var kanadíski landfræðingurinn Graham Cogley. Hann kveður jökla vissulega vera að bráðna, og það sé áhyggjuefni, en hafa verði það, sem sannara reynist.
Einn þeirra, sem lagt hafa trúnað á spá Hasnains, er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem sagðist í ræðu í Ohio State-háskóla í desember 2009 vera viss um, að jöklar í Himalaja-fjöllum yrðu að mestu bráðnaðir eftir 2030 ár.
Vefurinn amx.is greinir einnig frá því, að aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Kristján Guy Burgess, hafi rekið fyrirtækið Global Center, sem hafi fengið háa styrki frá alþjóðastofnunum eins og Carnegie Foundation með skírskotun til þessarar yfirvofandi bráðnunar jökla í Himalajafjöllum. Fróðlegt væri að heyra viðbrögð Kristjáns við þessari frétt Sunday Times. En sennilega telur Ríkisstjórnarútvarpið ekki í sínum verkahring að spyrja hann um málið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:09 | Facebook