20.1.2010 | 11:59
Missögn Steingríms J. Sigfússonar
Steingrímur J. Sigfússon andmælir því, að hann hafi í viðtali við Sænska dagblaðið sagt Icesave-málið of flókið til að vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Blaðamaðurinn heldur fast við þann skilning sinn á orðum hans. Þetta er vandræðalegt fyrir Steingrím, því að á Alþingi 2003 kallaði hann það ömurlegan málflutning að telja sum mál svo flókin, að þau hentuðu ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég veit ekki, hvort sænski blaðamaðurinn getur lagt fram hljóðupptöku af viðtalinu til að sanna mál sitt eins og ástralski blaðamaðurinn, sem ræddi við Gylfa Magnússon fyrir nokkru. Eftir það viðtal neitaði Gylfi að hafa notað þau orð, sem blaðamaðurinn hafði eftir honum, en hljóðupptakan tók af öll tvímæli um það, að þar fór Gylfi ekki með rétt mál. Af einhverjum ástæðum hefur Ríkisstjórnarútvarpið ekki bent á þetta, svo að neinn hafi tekið eftir.
En hér ætla ég að andmæla öðru, sem haft er eftir Steingrími í viðtalinu í Sænska dagblaðinu. Hann segir: Jafnvel í þeim löndum, þar sem sterk hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, er ekki kosið um skatta. Þetta er ekki rétt. Sterk hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum í Sviss, og þar er iðulega kosið um skatta. Til dæmis fékk alríkisstjórnin svissneska síðast umboð til að leggja á tekjuskatt og virðisaukaskatt í kosningu 2004, og næst þarf hún að endurnýja umboð sitt til þess 2020, og þá verður jafnt meirihluti kjósenda og einstakra kantóna að samþykkja það. Kafli er um skattlagningarvald og skattheimtu í Sviss í hinni væntanlegu bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, enda getum við lært margt af Svisslendingum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:01 | Facebook