19.1.2010 | 11:58
Sigur hægrimanna í Chile
Forsetakjörið í Chile í gær, sunnudaginn 17. janúar, var sögulegt. Hægrimaður sigraði í fyrsta skipti í tuttugu ár, frá því að einræðisherrann Augusto Pinochet herforingi fór frá 1990. Hinn nýi forseti er Sebastián Piñera, sem er líka einn ríkasti maður landsins, einn af eigendum flugfélagsins LAN, sjónvarpsstöðva, knattspyrnufélags og annarra fyrirtækja. Piñera var afburða námsmaður í skóla og lauk doktorsprófi í hagfræði frá Harvard-háskóla, en efnaðist á því að reka greiðslukortafyrirtæki á níunda áratug.
Ég hef þrisvar komið til Chile og kannast þar við marga hagfræðinga, þar á meðal bróður hins nýkjörna forseta, José Piñera. Hann átti frumkvæðið að því, að almenningi var í valdatíð Pinochets leyft að stofna lífeyrissjóði í séreign, og hafa þeir gefist vel. Chicago-drengirnir svokölluðu en þeir voru hagfræðingar, sem orðið höfðu fyrir miklum áhrifum af nokkrum kunnum hagfræðikennurum í Chicago, þar á meðal Milton Friedman og Arnold Harberger tóku að sér með góðum árangri að endurskipuleggja hagkerfi Chile á áttunda og níunda áratug, og er atvinnulíf í Chile nú eitt hið blómlegasta í Vesturheimi sunnanverðum. Hafa vinstrimenn ekki hróflað við þeim umbótum, sem Chicago-drengirnir beittu sér fyrir á dögum Pinochets.
Ýmsar gerðir Pinochets, sem stjórnaði með harðri hendi 19731990, eru auðvitað óafsakanlegar. Um þrjú þúsund manns munu hafa horfið í valdatíð hans. En fróðlegt er að bera hann saman við annan einræðisherra í Rómönsku Ameríku, Fidel Castro, sem sumir íslenskir háskólakennarar hafa skorið upp sykur fyrir í sjálfboðaliðsvinnu og þau Margrét Frímannsdóttir og Svavar Gestsson reyndu árangurslaust að ná tali af í Kúbuferð sinni haustið 1998, þegar Alþýðubandalagið var í andarslitrunum. Um þrjátíu þúsund manns tíu sinnum fleiri en í Chile munu hafa fallið af völdum Castros, auk þess sem tugþúsundir manna voru geymdar í vinnubúðum við þröngan kost. (Segir meðal annars frá þessu í Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi á íslensku og kom út síðastliðið haust.) Pinochet lét af völdum, eftir að hann tapaði í kosningum 1989, en Castro hélt dauðahaldi í völdin, á meðan hann hafði heilsu til, og leyfði aldrei frjálsar kosningar. Atvinnulíf í Chile var öflugt, þegar Pinochet fór frá, en Castro tókst að gera Kúbu, sem var forðum eitt ríkasta land Mið-Ameríku, að næstfátækasta landi þess heimshluta, næst á eftir landi hörmunganna, Haiti.
Forsetakjörið í Chile sýnir, að þjóðin er loksins stigin út úr skugga Pinochets.
Myndin er af Piñera og keppinaut hans, Eduardo Frei (til hægri). AFP
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook