Tilgáta um Ólaf Ragnar

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um helgina er sett fram merkileg tilgáta um það, hvers vegna Ólafur Ragnar Grímsson synjaði lagafrumvarpinu um Icesave-ríkisábyrgðina staðfestingar. Hún er, að hann hafi í upphafi ætlað sér að skrifa undir lögin, en hætt við það á nýársdag, þegar honum varð tvennt ljóst, að hann var orðinn að viðundri með þjóðinni og að almenn andstaða var við Icesave-skuldabaggann.

ee3080fc2bd3a4a.jpgHið fyrra sá Ólafur Ragnar best í áramótaskaupi Sjónvarpsins. Eftir margra ára daður og flaður forsetans við útrásarvíkingana bar enginn lengur virðingu fyrir honum. Ólafur Ragnar var líka flæktur í eigin orð. Hann hafði staðfest fyrri útgáfu Icesave-laganna með skírskotun til fyrirvara Alþingis, sem að kröfu Breta og Hollendinga voru felldir út úr seinni útgáfunni. Í sögunni hefði því litið hjákátlega út að staðfesta seinni útgáfuna, og Ólafur Ragnar hefur miklu meiri áhuga á sögunni en gömlum vinum og samherjum, sem hann fórnaði án þess að depla auga. Nú geta þeir ekki lengur sagt (eins og þeir gerðu iðulega): „He is a son of a bitch. But he is our son of a bitch.“

Hið seinna sá Ólafur Ragnar á undirskriftasöfnun In Defence-hópsins, þótt reynt væri að gera hana tortryggilega, ekki síst með falsundirskriftum úr Ríkisútvarpinu og forsætisráðuneytinu. Íslendingar telja ekki, að þeir beri ábyrgð á viðskiptum einkaaðila erlendis umfram það, sem lög og alþjóðasamningar kveða á um, þótt vissulega vilji þeir halda frið við grannþjóðir. Þeir segja með Staðarhóls-Páli: Ég lýt hátigninni, en stend á réttinum.

Þótt misjafnar hvatir hafi þannig eflaust ráðið ákvörðun forsetans, ekki síst hégómagirnd, steig hann með henni heillaspor. Icesave-samningurinn komst aftur á dagskrá í Evrópu. Fólk erlendis tók allt í einu eftir því, að verið var að kúga litla þjóð á norðurhjara veraldar til að greiða skuld, sem hún hafði ekki stofnað til og bar enga ábyrgð á að lögum, auk þess sem þetta kynni að leiða til gjaldþrots hennar. Ég vona, að grein mín í Wall Street Journal á dögunum hafi haft þar eitthvað að segja, en það má Ólafur Ragnar eiga, að hann talaði eftir hina sögulegu synjun vel og skörulega máli Íslands í erlendum fjölmiðlum.

Mikill munur var í því efni á Ólafi Ragnari og ráðherrum vinstristjórnarinnar. Jóhanna hniprar sig saman hrædd og þögul niðri í stjórnarráði, og Steingrímur notar mælsku sína til að flytja Íslendingum boðskap Breta og Hollendinga, ekki til að skýra fyrir öðrum sjónarmið Íslendinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband