Hvað verður um Haga?

jon-asgeir-johannesson-415x275_952524.jpgEf einhver einn innlendur aðili ber sérstaka ábyrgð á bankahruninu, þá er það Jón Ásgeir Jóhannesson. Sjálfur skuldaði hann um eitt þúsund milljarða (ekki milljónir, heldur milljarða), þegar upp var staðið, en menn honum tengdir (Pálmi í Fons og aðrir fastagestir í veislum hans í Monaco) áreiðanlega annað eins. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virtist Jón Ásgeir hafa ótakmarkaðan aðgang að sjóðum Landsbankans, um leið og hann hafði mikil áhrif á stjórnendur tveggja hinna bankanna, enda átti hann hlut í öðrum þeirra, Glitni. (Hann hefur endurgoldið þá greiðvikni rösklega með því að siga fjölmiðlum sínum á Björgólfsfeðga og aðra gamla viðskiptafélaga sína, til dæmis Hannes Smárason, en í þessum fjölmiðlum er ekki minnst á Jón Ásgeir sjálfan, að heitið geti.)

Sem áhrifamikill og afskiptasamur eigandi margra fjölmiðla skapaði Jón Ásgeir öðrum fremur hið einkennilega andrúmsloft hér frá 2004 til 2008, þegar viðvaranir Davíðs Oddssonar voru taldar úrtölur og ómálað verk eftir Hallgrím Helgason seldist á 21 milljón á uppboði. Þá töldu dómstólar „venjuleg viðskipti“, þegar stjórnarmenn í almenningshlutafélaginu Baugi, Jón Ásgeir og félagar hans, fengu leppa til að kaupa fyrir sig fyrirtæki og seldu það síðan almenningshlutafélaginu með mörg hundruð milljón króna hagnaði. Því má ekki heldur gleyma, að þrátt fyrir linkind dómstóla í Baugsmálinu hlaut Jón Ásgeir skilorðsbundinn fangelsisdóm og má sjálfur ekki sitja í stjórnum íslenskra fyrirtækja.

Jón Ásgeir er þess vegna sennilega síst til þess fallinn allra Íslendinga að njóta sérstakrar fyrirgreiðslu stjórnvalda (eða banka í ríkiseigu) í endurreisninni eftir hrunið. Þegar Björgólfsfeðgar buðust sumarið 2009 til að greiða helming skulda sinna gegn því, að afgangurinn yrði afskrifaður, ætlaði allt um koll að keyra. Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Magnússon hneyksluðust óspart á því opinberlega. Þegar fyrst komu fram hugmyndir um, að Jón Ásgeir fengi þorra skulda sinna í Högum (en þær nema um 48 milljörðum) afskrifaðar gegn því að leggja sjö milljarða inn í félagið, hneykslaðist almenningur, en þeir Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Magnússon þögðu. Það veit ekki á gott.

Í skoðanakönnunum hafa 96% landsmanna látið þá skoðun í ljós, að Jón Ásgeir eigi ekki að eignast Haga aftur á þennan hátt. Að sjálfsögðu á að taka fyrirtækið af fyrri eigendum og selja á opnum markaði, eins og Íslandsbanki gerði við Árvakur og nú síðast Sjóvá.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband