Tvær fróðlegar greinar

danielsson.jpgTvær fróðlegar greinar voru í Morgunblaðinu í gær, 15. janúar 2010. Önnur er eftir dr. Jón Daníelsson, hagfræðikennara í Lundúnum, sem er sérfræðingur í fjármálum og áhættugreiningu. Í stuttu máli heldur hann því fram, að mikil óvissa sé um, hverjar skuldbindingar Íslendinga samkvæmt Icesave-samningnum séu. Tvær ástæður séu til þess: Óvíst sé, hversu miklar eignir Landsbankans reynist að lokum (en þær ganga upp í skuldbindingarnar) og hver gengisþróun muni verða.

Jón telur, að óþarfi hafi verið fyrir Íslendinga að taka á sig gengisáhættu. Þeir hefðu getað samið um, að skuldbindingar þeirra samkvæmt samningnum og kröfur á móti (eignir Landsbankans) væru í sama gjaldmiðli. Hann bendir einnig á, að mestur hluti skuldbindinganna séu vaxtakostnaður. Vextir á lánum Breta og Hollendinga (sem þeir kalla svo, en voru útgreiðslur þeirra að eigin frumkvæði, sem þeir reyna síðan að fá Íslendinga til að endurgreiða sér) séu hærri en til dæmis á lánum, sem ríkissjóðir þessara landa veita tryggingarsjóðum innstæðna í þessum löndum. Jón hefur reiknað út, að vaxtagreiðslur okkar samkvæmt samningnum myndu minnka úr 507 milljörðum í 151 milljarða, nytum við hinna alþjóðlegu LIBOR-lánskjara.

484703.jpgHin greinin er eftir þá Sigurð Líndal lagaprófessor, Stefán Má Stefánsson lagaprófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmann. Þeir halda því fram, að Icesave-samningurinn, sem Alþingi samþykkti, en forseti synjaði staðfestingar á, brjóti líklega í bág við stjórnarskrána. Ein ástæðan til þess sé sú, að óvíst sé, hversu miklar skuldbindingar ríkissjóðs séu samkvæmt samningnum. Til dæmis sé hugsanlegt, að svonefnd neyðarlög, sem samþykkt voru í upphafi bankahrunsins, standist ekki. Þá munu skuldbindingarnar samkvæmt samningnum stóraukast.

Lögfræðingarnir þrír segja ekki annað verða lesið út úr evrópskum lögum og reglugerðum um innstæðutryggingar en að hinir sérstöku tryggingarsjóðir innstæðueigenda og fjárfesta í hverju landi séu ábyrgir fyrir bankainnstæðum. Ríkissjóður hvers lands sé það ekki, nema ríkið hafi gerst sekt um stórfellda vanrækslu í því að setja upp og reka slíkan tryggingarsjóð. Íslendingar séu því með Icesave-samningnum að taka á sig skuldbindingar, sem ekki hvíli á þeim að lögum.

Margt annað fróðlegt er í greinum hagfræðingsins og lögfræðinganna þriggja. Þær styðja í raun hvor aðra. Ég hef ekki alltaf verið sammála þessum fjórum mönnum í opinberum umræðum. En eitt er víst: Þeir eru ekki að reyna að leggja neinu innlendu stjórnmálaafli lið og ganga ekki erinda neins erlends aðila. Þeir eiga ekki annarlegra hagsmuna að gæta, heldur reyna að greina málið eftir bestu samvisku.

Er ekki ráð að hlusta frekar á þá en hina keyptu þjóna vinstristjórnarinnar eða Evrópusambandsins?

 

Myndin af Sigurði Líndal er eftir Kristin á Mbl., en um höfund hinnar veit ég ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband