15.1.2010 | 11:14
Fréttaskýring í Spiegel
Rætt er við mig í fréttaskýringu þýska blaðsins Spiegel, sem hér má sjá á ensku, en hún er mörgum Íslendingum tamari en þýska (þótt það hljóti að breytast, ef við göngum í Evrópusambandið). Þar segi ég sem satt er, að árið 2004 tók Ísland flestum öðrum löndum fram. Ísland var eitt af fimm ríkustu löndum heims og eitt af tíu frjálsustu löndum heims í atvinnumálum, og í mælingum kváðust Íslendingar vera einna hamingjusamastir þjóða.
Ég er ekki í neinum vafa um, að ein ástæðan til þess, hversu vel við vorum sett árið 2004, var undangengið framfara- og umbótaskeið, sem hófst 1991, þegar svigrúm einstaklinga var aukið, dautt fjármagn lifnaði við, skattar lækkuðu og hagkerfið opnaðist. Tekjuskiptingin þetta ár var svipuð og annars staðar á Norðurlöndum og síst ójafnari. Fátækt var hverfandi. Atvinnuleysi var óverulegt og miklu minna en annars staðar í Evrópu. En ég skýri út fyrir Spiegel, að þetta ár fór eitthvað úrskeiðis.
Hvað gerðist árið 2004? Það var, að jafnvægið í þjóðlífinu raskaðist. Golíat vann Davíð. Auðjöfrarnir sigruðu í baráttunni um fjölmiðlafrumvarpið, og eftir það var eins og bóndinn á Bessastöðum, starfsmenn auðjöfranna á fjölmiðlum, stjórnmálamenn, aðallega Borgarnesræðufólkið í Samfylkingunni (en því miður líka nokkrir í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum), og jafnvel sumir dómarar breyttust í klapplið auðjöfranna (eins og niðurstaðan í Baugsmálinu sýndi). Auðjöfrarnir fengu enga gagnrýni, ekkert aðhald, og jafnvel þótt sumir þeirra væru gáfaðir menn og duglegir, fylltust þeir ofmetnaði.
Ég tók í Spiegel líkinguna úr grísku goðsögunni af Íkarosi, sem ætlaði sér um of, skeytti ekki viðvörunum Daídalosar og flaug of nálægt sólinni. Vængir hins íslenska Íkarosar bráðnuðu, svo að hann féll til jarðar, en vængir annarra (sem ofmetnuðust vissulega líka) sviðnuðu aðeins, svo að þeir gátu lent.
Jafnframt gagnrýni ég í Spiegel Evrópuþjóðir harðlega fyrir að hafa ekki komið Íslandi til aðstoðar, þegar lánsfjárkreppan skall á okkur, heldur frekar reynt að ríða okkur þungan skuldabagga eftir hana með Icesave-samningnum. Eins og ég bendi Spiegel á, er þessi skuldabaggi jafnþungur hlutfallslega og Þjóðverjar urðu að bera eftir Versalasamningana.
Ég minni hins vegar líka á, að auðvelt er að mikla áfallið fyrir sér. Enginn hefur látist vegna þess. Skip okkar, virkjanir, verksmiðjur, vegir og brýr standa óskemmd (ólíkt því sem var í ýmsum löndum eftir heimsstríðin tvö á tuttugustu öld). Pappírsgróði auðjöfranna hefur hins vegar horfið. Við eigum góð tækifæri á að koma okkur út úr ógöngunum, ef við lærum af reynslunni og látum Breta og Hollendinga ekki kúga okkur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.1.2010 kl. 10:04 | Facebook