Viðtal á X-inu

Ég var í viðtali í þættinum „Harmageddon“ á X-inu þriðjudaginn 12. janúar 2010, og má hlusta á hann (allan) hér. Aðallega var rætt um það, hvað gera ætti, eftir að forsetinn synjaði um staðfestingu á Icesave-lögunum. Ég kvað jafnan skynsamlegast fyrir smáþjóð að setjast að samningaborði, enda gæti hún ekki beitt hervaldi til að skera úr deilum eins og hinar stærri. Hins vegar væru litlar líkur á því, að Bretar og Hollendingar vildu semja við okkur á ný án þjóðaratkvæðagreiðslu, sem tæki af öll tvímæli um, að íslenska þjóðin væri ófús til að greiða skuldir, sem hún hefði ekki stofnað til.

Hafa yrði í huga, að íslenska þjóðin hefði enga lagalega skuldbindingu til að endurgreiða Bretum og Hollendingum það fé, sem þeir snöruðu út til innstæðueigenda í útibúum Landsbankans í lánsfjárkreppuni; sú skuldbinding hvíldi á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og næði ekki lengra en fé þess sjóðs hrykki til. (Að þessu hafa Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður leitt mjög sterk rök.) Evrópska innstæðutryggingarkerfinu hefði ekki heldur verið ætlað að afstýra bankahruni í einu landi, heldur aðeins þroti eins banka eða nokkurra af mörgum, eins og Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, og Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, hafa báðir viðurkennt opinberlega. Í þriðja lagi væri ósanngjarnt að knýja smáþjóð í gjaldþrot, hvað sem alþjóðlegum skuldbindingum liði, og hafa margir fjölmiðlamenn tekið undir það sjónarmið síðustu dagana.

Ég minnti á þrjá mikilvæg atriði í viðbót í útvarpsþættinum:

  • Okkur liggur ekkert á. Óþol er ekki gott í samningum. Því lengri tími sem líður, því betri getur niðurstaðan orðið fyrir Íslendinga. Þæfumst fyrir Bretum og Hollendingum. Þeir gefast ef til vill ekki upp fyrir okkur, en þeir gætu gefist upp fyrir aðstæðum.
  • Setjum svo, að Icesave-lögin verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá segja sumir, að miklu meiri skuldir myndu falla á Íslendinga en samkvæmt samningunum við Breta og Hollendinga. Þetta er fráleitt. Hver á að ákveða það? Ísland er fullvalda ríki, en ekki hlýðinn húskarl í Evrópu. Ísland greiðir ekki aðrar skuldir en þær, sem það hefur sjálft samþykkt og viðurkennt.
  • Enn segja sumir, að lánstraust Íslendinga á alþjóðamörkuðum myndi minnka, ef við greiðum ekki Icesave-skuldirnar. En þetta voru ekki skuldir okkar. Við áttum ekki að greiða þær. Almenna reglan er raunar, að lánstraust fer eftir greiðsluhæfi, og greiðsluhæfi okkar verður auðvitað meira, ef á okkur hvíla ekki Icesave-skuldirnar til viðbótar við allt annað. Því er sönnu nær, að lánstraust okkar mun aukast, ef okkur tekst með lagni að smeygja þessum skuldum af okkur eða minnka þær.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband