13.1.2010 | 09:53
Væntanleg bók eftir mig
Á næstunni kemur í búðir bók eftir mig undir heitinu Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, og gefur Bókafélagið hana út. Þótt hún séu vissulega skrifuð í tilefni af hinni miklu stefnubreytingu á Íslandi við valdatöku vinstristjórnarinnar, er hún ekki beinlínis um áhrif einstakra skattahækkana stjórnarinnar, heldur frekar um almenn áhrif skattahækkana til langs tíma litið.
Ég byrja á því að reifa umræður fræðimanna um fátækt og spyr, í hvers konar hagkerfi menn geti helst brotist úr fátækt, enda er aðalatriðið ekki að auðvelda mönnum að halda áfram að vera fátækir (til dæmis með styrkjum), heldur að greiða þeim leiðina út úr fátækt.
Síðan ræði ég ýmis ágreiningsefni síðustu ára, þar á meðal þá fullyrðingu Stefáns Ólafssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar, að árin 19912004 hafi Ísland vikið af hinni norrænu leið. Eitt dæmi þess hafi verið, að tekjuskipting hafi orðið ójafnari hér en annars staðar á Norðurlöndum, ekki síst vegna skattbreytinga.
Þá reyni ég að gefa nokkra mynd af áhrifum skattalækkananna frá 1991, sem eru afar athyglisverð. Skatttekjur ríkisins hækkuðu á ýmsum sviðum, þótt dregið væri úr skattheimtu, vegna þess að skattstofninn stækkaði. Eitt skýrasta dæmið eru tekjur af húsaleigu, en ég greini líka önnur dæmi.
Enn spyr ég, hvort auðlinda- og umhverfisskattar séu eins hagkvæmir og núverandi ríkisstjórn og nokkrir fræðimenn (þar á meðal Þorvaldur Gylfason og Jón Steinsson) vilja vera láta.
Loks reyni ég að meta í ljósi reynslunnar hin almennu áhrif skattahækkana vinstristjórnarinnar íslensku og set fram spá um þau.
Ég kynni bókina betur hér, þegar hún verður komin í bókabúðir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:55 | Facebook