12.1.2010 | 08:38
Fellum samninginn
Auðvitað væri æskilegast að semja á ný um lausn Icesave-deilunnar og komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef hins vegar enga trú á því, að þrautreyndir samningamenn Breta og Hollendinga með fullt umboð frá ríkisstjórnum þeirra og Evrópusambandið að baki sér geri samning hagstæðari Íslendingum, nema þeir sannfærist um það, að Íslendingar vilji alls ekki þann samning, sem forsetinn synjaði staðfestingar á. Þangað til greidd verða um hann atkvæði, munu þeir auðvitað hafa í hótunum í því skyni að hafa áhrif á niðurstöðuna.
Þess vegna er mikilvægt fyrir aðstöðu okkar í nýjum samningaviðræðum, að þjóðin felli Icesave-samninginn með sem mestum mun. Almenningsálitið í Evrópu er að snúast okkur í vil (að því marki, sem nokkur maður hefur áhuga á Íslandi), og laga- og stjórnmálarök okkar eru skýr: Ábyrgðin á innstæðum hvíldi á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, ekki ríkissjóði; reglur Evrópusambandsins, hvernig sem þær eru skýrðar, voru aðeins settar til að afstýra hruni einstakra banka, ekki almennu bankahruni; ósanngjarnt er að neyða litla þjóð í fyrirsjáanlegt gjaldþrot vegna tjóns, sem hún olli ekki.
Hannes Hafstein sagði í viðtali við Lögréttu 20. mars 1915: Þegar ég er kominn út fyrir landsteinana, er ég aldrei lengur flokksmaður. Þá er ég aðeins Íslendingur. Þetta verður vinstristjórnin að skilja. Hún á að einbeita sér að því að tala máli Íslands erlendis, ekki að tala máli Breta og Hollendinga hérlendis, enda eru þeir fullfærir um það sjálfir með aðstoð starfsmanna sinna og Evrópusambandsins, núverandi og fyrrverandi.
Auðvitað eiga Íslendingar að semja. Auðvitað eiga Íslendingar að standa við allar alþjóðlegar skuldbindingar sínar, að minnsta kosti eftir getu. En til þess að ná fram hagstæðari samningi verður í þjóðaratkvæðagreiðslunni að senda viðsemjendum okkar skýr skilaboð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook