6.1.2010 | 11:21
Lítt skýrður málstaður Íslendinga
Ég reyndist ekki sannspár um það, að Ólafur Ragnar Grímsson myndi staðfesta lögin um Icesave-samningana, þótt ef til vill hefðu eggjunarorð mín og nokkurra annarra áhrif á það, að hann synjaði þeim staðfestingar. Auðvitað hefði Ólafur Ragnar orðið sjálfum sér ósamkvæmur með því að skrifa undir lögin, þar eð gjáin milli þings og þjóðar er miklu breiðari nú en sumarið 2004, auk þess sem hann staðfesti fyrri útgáfu laganna með sérstakri skírskotun til fyrirvara Alþingis, sem síðan voru felldir út að kröfu Breta og Hollendinga. Sennilega hefur metnaður forsetans ráðið mestu um ákvörðun hans. Hann vill ekki, að sín sé minnst fyrir það eitt að hafa verið klappstýra útrásarinnar. Hann nýtur þess líka að vera í sviðsljósinu.
Því ber þó að fagna, að lögin um Icesave-samningana voru í reynd stöðvuð (þótt þau taki gildi, mun fjármálaráðherra áreiðanlega ekki nota þá heimild, sem honum var veitt samkvæmt þeim). Þetta voru nauðungarsamningar, þar sem ekkert tillit var tekið til sjónarmiða og hagsmuna Íslendinga. Það er fráleitt, að íslenskir skattgreiðendur beri tjón af viðskiptum einkaaðila erlendis, umfram það, sem kveðið er skýrt á um í lögum og alþjóðasamningum. Icesave-reikningarnir voru aðeins með þeirri ríkisábyrgð, sem allir slíkir reikningar nutu á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt lögum og reglum: Að baki þeim stóð Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta. Hvers vegna mátti ekki reyna á þetta atriði fyrir dómstólum? Auk þess áttu Bretar með fautaskap sínum drjúgan þátt í hruni íslensku bankanna. Mikill munur var á framkomu þeirra við Bandaríkjamenn vegna bandaríska fyrirtækisins Lehman Brothers og við okkur vegna íslenskra banka.
Viðbrögð erlendis við synjun forsetans sýna þó, að íslenska vinstristjórnin hefur vanrækt stórkostlega að kynna málstað Íslands. Fáir útlendingar átta sig á eðli málsins. Þetta er ekki að furða, þegar forsætisráðherrann er mannafæla, sem kann ekki erlend mál og forðast að hitta erlenda frammámenn. (Þeir virða hana raunar ekki heldur viðlits, eins og undirtektir Breta og Hollendinga undir bréf hennar sýna.) Vinstristjórnin á að hætta að flytja sjónarmið Breta og Hollendinga hérlendis og kynna þess í stað sjónarmið Íslendinga erlendis.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook