5.1.2010 | 13:53
Hættan af hryðjuverkum
Mörgum Íslendingum fer nú eins og séra Ólafi Ólafssyni fríkirkjupresti daginn fyrir þingkosningar á Íslandi 1911, þegar hann sagði: Allur hinn menntaði heimur stendur á öndinni! Þeir halda, að það, sem gerist á Íslandi, skipti eitt máli. Tvær ískyggilegar fréttir berast hins vegar utan úr heimi, sem við ættum að láta okkur varða, en ég hef séð lítið sem ekkert bloggað um.
Í fyrsta lagi reyndi ungur, nígerískur öfga-múslimi á jóladag að sprengja í loft upp farþegaþotu frá Delta, skömmu áður en hún átti að lenda í Detroit. Þessi maður hafði keypt sér farseðil aðra leiðina með reiðufé. Faðir hans hafði varað bandaríska sendiráðið í Nígeríu við því, að hann væri orðinn öfga-múslimi. Óskiljanlegt er, hvernig maðurinn komst um borð, og ólíklegt, að hann hafi verið einn að verki. Hér skall hurð nærri hælum.
Því miður munu bandarísk stjórnvöld eftir þetta herða eftirlit með öllum flugfarþegum og auka þannig enn á óþægindi venjulegra borgara af því að fljúga. Hvers vegna geta þeir ekki einbeitt sér að körlum á aldrinum 1830 ára, sem fæddir eru í múslimaríkjum og að öðru leyti grunsamlegir? Nú er stranglega bannað að beina öryggisgæslu að einstökum hópum (profiling), svo að gamlar, góðlegar konur á leið til barnabarnanna sæta sömu leit og menn úr þessum hópi.
Í öðru lagi reyndi ungur öfga-múslimi frá Sómalíu að kvöldi nýársdags að drepa Kurt Westergaard teiknara, sem hefur dregið upp skopmyndir af Múhameð spámanni, en þær hafa reitt öfga-múslima til reiði. Særðist tilræðismaðurinn í átökum við lögreglu.
Það er auðvitað óþolandi, að gestir í Evrópu, sem koma þangað í leit að betri kjörum og fleiri tækifærum, reyni að neyða ófrelsi sínu og öfgaskoðunum upp á gestgjafa sína, eins og sumir múslimar gera. Slíkt fólk er best komið heima hjá sér, þótt auðvitað sé allt gott fólk velkomið til Evrópu óháð hörundslit eða trú. Eftir landssið skulu lifa þegnar, segir í íslenskum málshætti. Um þetta eru jafnólík bókmenntaverk og Leigjandinn eftir Svövu Jakobsdóttur og Biedermann og brennuvargarnir eftir Max Frisch.
Vestrænar þjóðir hljóta að standa saman gegn öfga-múslimum, en láta Bandaríkjamenn ekki eina halda uppi öryggiseftirliti og Dani gæta tjáningarfrelsis. Hér á við gamla vígorðið úr Skyttunum: Allir fyrir einn og einn fyrir alla!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook