6.9.2025 | 01:38
Hvað gerir lögreglustjórinn í Reykjavík?
Silja Bára Ómarsdóttir háskólarektor sagði í viðtali við Ríkisútvarpið 1. september 2025, að hinn 6. ágúst hefði rekist á rétturinn til að mótmæla og rétturinn til að halda fundi. Þá ruddust nokkrir starfsmenn Háskólans með Ingólf Gíslason aðjúnkt í fararbroddi inn á fund um gervigreind og lífeyrismál og gerðu hróp að fundarstjóra og fyrirlesara, svo að ekkert heyrðist í þeim, og eftir nokkrar árangurslausar tilraunir þeirra til að tala varð eftir tuttugu mínútur að slíta fundi.
Rektor hefur bersýnilega rangt fyrir sér. Þessir óeirðaseggir voru ekki að mótmæla, eins og þeir hafa fullan rétt á. Þeir voru að koma í veg fyrir, að fólk fengi að halda sinn fund í friði og tala þar. Þessir ruddar brutu siðareglur Háskólans, eins og ég benti á í Morgunblaðinu 20. ágúst. En þeir brutu líka landslög, eins og prófessor Davíð Þór Björgvinsson hefur bent á. Í 73. grein stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um tjáningarfrelsi og í 74. grein um fundafrelsi. Í mannréttindasáttmála Evrópu, 10. og 11. grein, er einnig kveðið á um málfrelsi og fundafrelsi.
Óeirðaseggirnir brutu enn fremur 122. grein almennra hegningarlaga, en þar segir, að hver sá, sem hindrar, að löglegur mannfundur sé haldinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári, en séu sakir miklar, til dæmis vegna ógnana, fangelsi allt að tveimur árum. Enn fremur segir í þessari grein, að hver sá, sem raski fundafriði á lögboðnum samkomum um opinber málefni, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.
Það er hlutverk lögreglustjórans í Reykjavík að rannsaka og eftir atvikum ákæra í þessu máli. Hann hlýtur að hefja rannsókn málsins hið bráðasta.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. september 2025.)
6.9.2025 | 01:31
Fyrir 86 árum í Moskvu og Reykjavík
Í dag, 23. ágúst, er evrópskur minningardagur um fórnarlömb alræðisstefnunnar, nasisma og kommúnisma. Þennan dag árið 1939 gerðu Hitler og Stalín griðasáttmála í Moskvu og skiptu mið- og austurhluta Evrópu á milli sín. Stalín hlaut Finnland, Eystrasaltsríkin þrjú, austurhluta Póllands og hluta Rúmeníu, en Hitler vesturhluta Póllands. Hitler réðst á Pólland að vestan 1. september, og þá sögðu Bretar og Frakkar Nasista-Þýskalandi stríð á hendur. Þessi ríki sögðu hins vegar ekki Ráðstjórnarríkjunum stríð á hendur, þegar Stalín réðst á Pólland að austan 17. september. Herir alræðisríkjanna tveggja mættust í Brest-Lítovsk og héldu saman hersýningu 22. september, en upptökur eru til af henni á Youtube.
Griðasáttmálinn olli uppnámi á Íslandi. Kommúnistinn Þórbergur Þórðarson hitti dr. Guðmund Finnbogason landsbókavörð á Hótel Borg 13. september og sagði: Ef Rússar fara í stríð með nasistum, þá hengi ég mig. Þetta gerði Stalín þó fjórum dögum síðar. Þórbergur reyndi að afsaka sig með því, að Hitler og Stalín væru ekki saman í stríði, þótt þeir hefðu í sameiningu lagt undir sig Pólland. En þegar Hitler sá, hversu grátt her Stalíns var leikinn í Vetrarstríðinu við Finna 19391940, ákvað hann að ráðast við fyrsta tækifæri á Ráðstjórnarríkin, leggja þau undir sig í leiftursókn og neyða með því Breta til friðarsamninga. Honum tókst það ekki, en enginn hefur tölu á því, hversu mörg fórnarlömb alræðisstefnu Hitlers og Stalíns voru á tuttugustu öld. Og nú ógnar öfgaíslam Vesturlöndum á sama hátt og nasismi og kommúnismi áður.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. ágúst 2025.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:12 | Slóð | Facebook
6.9.2025 | 01:29
Gyðingaandúð og gyðingahatur
Ísraelskur fræðimaður á sviði gervigreindar og lífeyrisskuldbindinga átti að flytja erindi í Háskóla Íslands 6. ágúst 2025 um hið forvitnilega fræðasvið sitt. En nokkrir starfsmenn Háskólans undir forystu Ingólfs Gíslasonar aðjúnkts, sem bar aðgöngukort sitt að Háskólanum utan á sér, ruddust inn í fyrirlestrarsalinn í Þjóðminjasafni og öskruðu fyrirlesarann og fundarstjórann niður, svo að þeir gátu ekki talað, og gekk á því í tuttugu mínútur, uns fundi varð að slíta. Þessir óboðnu gestir voru ekki að mótmæla stríðinu á Gasa-svæðinu, eins og þeir hafa fullan rétt á að gera, heldur að svipta fyrirlesarann málfrelsi og takmarka rannsóknafrelsi í Háskólanum.
Þetta gefur hins vegar tilefni til að gera greinarmun á gyðingaandúð og gyðingahatri, sem eru hvort tveggja þýðingar á enska orðinu anti-semitism. Gyðingaandúð er, þegar lagður er annar mælikvarði á gyðinga en aðra. Ef tíu óbreyttir borgarar falla í stríði í Súdan og enginn segir neitt, en ef tíu óbreyttir borgarar falla í stríði í Ísrael og því er ákaft mótmælt, þá eru mótmælendurnir sekir um gyðingaandúð, valkvæða vandlætingu. Þeim er sama um voðaverk í Súdan (eða Tíbet), en nota tækifærið til að gagnrýna gyðinga í Ísrael.
Gyðingahatur er hins vegar, þegar menn vilja beinlínis útrýma Ísraelsríki. Þeir taka þá ekkert tillit til þess, að Ísrael var hið forna heimkynni gyðinga og að árin fyrir 1945 skiptust ríki heims í þau, sem vildu losna við gyðinga, og hin, sem vildu ekki taka við þeim. Gyðingar áttu því ekki annars kost en stofna eigið ríki. Það var ekki aðeins gyðingaandúð, heldur líka gyðingahatur, sem rak leiðtoga óeirðaseggjanna áfram, því að Ingólfur Gíslason skrifar á Facebook síðu sinni, að Ísrael eigi að fara til helvítis.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. ágúst 2025.)
6.9.2025 | 01:24
Uppgjör Norðmanna við hernámið
Eftir að þýskir nasistar hernámu Noreg 9. apríl 1940, gengu þeir hart fram með aðstoð norskra nasista og meðreiðarsveina þeirra. Í stríðslok var gert upp við þetta fólk, sem talið var hafa svikið föðurlandið. Norðmenn reyndu þó eftir megni að halda sig innan laganna. Til dæmis áttu sér ekki stað neinar fjöldaaftökur án dóms og laga eins og í Frakklandi.
Margt má þó gagnrýna frá lagalegu sjónarmiði í uppgjöri Norðmanna. Til dæmis var það gert refsivert í tilskipun frá norsku útlagastjórninni í miðju stríði að vera flokksbundinn í norska Nasistaflokknum, sem hafði þó verið löglegur stjórnmálaflokkur fyrir stríð. Þetta stríddi gegn skýlausu banni í norsku stjórnarskránni gegn afturvirkum lögum. Fjórir af þrettán hæstaréttardómurum töldu því ekki rétt að beita þessu ákvæði, en aðeins einn virtur lögfræðingur, prófessor emeritus Jon Skeie, andmælti því líka. Allir aðrir lögspekingar þögðu eða samþykktu notkun ákvæðisins með semingi.
Einnig var kveðið á um það í tilskipun frá útlagastjórninni, að félagar í norska Nasistaflokknum væru sameiginlega ábyrgir fyrir öllu því tjóni, sem hernámið hefði valdið Noregi. Þetta stríddi gegn ákvæði í norsku stjórnarskránni um, að ekki mætti svipta menn jörðum eða heimilum, en var auk þess lagalega hæpið, því að engin tengsl voru venjulega milli aðgerða einstaklinga og hugsanlegs tjóns af völdum hernámsins. Þetta ákvæði var þó smám saman mildað.
Í þriðja lagi var dauðarefsing tekin upp aftur á friðartímum, en hún hafði aðeins verið leyfileg á stríðstímum samkvæmt norskum lögum. Sjálfum finnst mér það ekki eins alvarlegt brot á reglum réttarríkisins og hin tvö atriðin, en þetta bar þess þó merki, að aðalatriðið var sefa reiði almennings. Norska uppgjörið, klætt í skikkju laganna, var sú virðing, sem reiðin sýndi lögunum, svo að vikið sé við orðum Wildes.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. ágúst 2025.)