22.9.2025 | 03:26
Samtímamaður okkar, Snorri Sturluson
Á morgun er dánardægur Snorra Sturlusonar, en hann var veginn 23. september árið 1241. Þennan dag kemur út ritið Stjórnspeki Snorra Sturlusonar eins og hún birtist í Heimskringlu eftir prófessor Sigurð Líndal, og er útgefandi þess Hið íslenska bókmenntafélag, en Sigurður var lengi forseti þess. Birtist þetta verk fyrst í Úlfljótiárið 2007, en er í raun heil bók, 134 blaðsíður í endurprentuninni, sem er einnig prýdd mörgum litmyndum. Davíð Oddsson skrifar formála, og fer vel á því: Hann var forsætisráðherra í þrettán og hálft ár, en Snorri lögsögumaður í tólf ár. Í tilefni útkomunnar efna Miðaldastofa, Lagastofnun Háskóla Íslands, Hið íslenska bókmenntafélag og RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, til málstofu í fundarsal Eddu, húss íslenskra fræða, kl. 16.30 þriðjudaginn 23. september, þar sem tveir góðir gestir tala um Snorra og Sigurð, þeir Ditlev Tamm, prófessor emeritus í réttarsögu við Kaupmannahafnarháskóla, og dr. Tom G. Palmer, alþjóðafulltrúi Atlas Network, sambands nær sex hundruð hugveitna um allan heim. Garðar Gíslason, fyrrverandi hæstaréttardómari, er fundarstjóri. Forn handrit að þremur verkum Snorra eru einmitt geymd í húsinu. Þau eru Edda, merkasta heimildin um átrúnað fornmanna, Heimskringla, sagan af átökum Noregskonunga við þegna sína, og Egils saga, um fyrsta einstaklinginn eins og Sigurður Nordal kallaði Egil Skallagrímsson.
Lögin: Sammæli eða fyrirmæli?
Í riti sínu ber Sigurður Líndal saman tvær lagahugmyndir. Önnur er hin forna germanska hugmynd um lögin sem sameiginlega arfleifð, sem myndaðist á svipaðan hátt og málið, væri eins konar sammæli kynslóðanna. Þau voru rétt á þingum, skýrð og útfærð. (Þaðan er íslenska nafnið lögrétta.) Samkvæmt þessari hugmynd náðu lögin til konunga eins og allra annarra. Þegar þeir brutu lögin freklega, fóru fram með ofsa og lögleysum, gat almenningur að bestu manna yfirsýn gripið til mótstöðuréttarins, og það var iðulega gert á Norðurlöndum. Kjarninn í þessari hugmynd var, að menn væru aðeins bundnir af því, sem þeir hefðu samþykkt. Hin hugmyndin var nýrri og barst til Norðurlanda frá Suður-Evrópu. Hún var, að konungar settu lög, en þeim væri selt sjálfdæmi um, hvort þeir færu eftir þeim eða ekki. Þeir hefðu ekki valist til ríkis á þingum, venjulega gegn fyrirheiti um að halda hin gömlu góðu lög, eins og að fornu, heldur væru þeir konungar af Guðs náð. Lögin væru fyrirmæli þeirra. Sigurður bendir þó á, að í reynd voru lög á síðmiðöldum hvort tveggja, sammæli kynslóðanna og fyrirmæli konunga. Eftir því sem skipulagið varð flóknara og ríkisvald náði víðar, var þess meiri þörf að setja ný lög, en þótt konungar hefðu frumkvæði að slíkri löggjöf, þurftu þeir að taka tillit til venjunnar og fara ekki gegn vilja almennings, eins og hann kom fram á þingum og öðrum samkomum.
Sigurður Líndal leggur áherslu á, að Snorri Sturluson hafði ríka samúð með hinum fornu germönsku hugmyndum um vald háð samþykki (government by consent) og mótstöðuréttinn (right of rebellion). Í Heimskringlu gætir mjög tortryggni gagnvart konungsvaldi. Skírskotað var til þessara hugmynda jafnt á Norðurlöndum sem á Englandi, þegar konungar voru neyddir til að staðfesta réttindaskrár eins og hina ensku Magna Carta árið 1215 og skilmálaskrá Eiríks Danakonungs árið 1282. (Gamli sáttmáli okkar við Noregskonung árið 1262 var svipaðs eðlis.) Þótt þessar hugmyndir létu um skeið undan síga, efldust þær aftur, þegar konungi Englands var steypt af stóli í byltingunni dýrlegu árið 1688, eftir að hann hafði reynt að taka sér alræðisvald. Þá batt heimspekingurinn John Locke þessar hugmyndir tvær í kerfi til réttlætingar byltingunni. Bandaríska byltingin 1776 var háð undir sömu formerkjum. Vígorð byltingarmannanna var: Enga skatta án samþykkis (No taxation without representation). Frjálshyggja nútímans er iðulega rakin til Lockes og annarra engilsaxneskra hugsuða, en Snorri hafði áður lýst valdi háðu samþykki og mótstöðurétti, þótt ekki væri það á kerfisbundinn hátt. Sigurður Líndal kveður upp úr um þetta í riti sínu: Í stórum dráttum ber Heimskringla vitni um fornan hugmyndaheim germanskra þjóða um lög og rétt og er til marks um sjálfræði og einstaklingshyggju. Í þessum germönsku hugmyndum frekar en hinum grísku og rómversku liggja einmitt rætur nútímalýðræðis: Valdið er hjá þjóðinni (popular sovereignty), og lýðræði er umfram allt friðsamleg aðferð til að skipta um valdhafa, sé þjóðin ósátt við þá. Því er ekki ofsagt, að Snorri Sturluson sé samtímamaður okkar.
Íslendingar: Vinir eða þegnar?
Ýmislegt fleira í Heimskringlu sýnir, að fornmenn vissu af mörgu, sem iðkað hafði verið frá örófi alda og síðar var útskýrt fræðilega. Til dæmis færði Adam Smith rök fyrir því í Auðlegð þjóðanna árið 1776, að verðmæti sköpuðust við verkaskiptingu, en þau krefðust frjálsra viðskipta. Þetta þurfti ekki að segja Snorra Sturlusyni. Hann lagði Rögnvaldi jarli Úlfssyni í munn ræðu yfir Svíakonungi, sem hafði herjað á Noreg. Taldi hann upp hvert vandræði Vestur-Gautum var að því að missa þeirra hluta allra af Noregi er þeim var árbót í. (Ólafs saga helga, 80. k.) Vestur-Gautar og Norðmenn versluðu með þá hluti, sem þeim var árbót í. Þetta er kjarni málsins: Menn stunda viðskipti, af því að þeim er árbót í því. Annað dæmi er, að Tómas Malthus taldi í Ritgerð um lögmál sem stýra mannfjölda árið 1798, að fólksfjöldi takmarkaðist af framleiðslugetu hagkerfisins. Þetta þurfti ekki heldur að segja Snorra Sturlusyni, sem lýsti því, er Svíar drápu í hallæri einu Ólaf konung trételgju Ingjaldsson, en bætti við: Þeir er vitrari voru af Svíum fundu þá að það olli hallærinu að mannfólkið var meira en landið mætti bera en konungur hafði engu um valdið. (Ynglinga saga, 43. k.)
Þriðja dæmið er merkilegast. Karl R. Popper hélt því fram með glöggum rökum í Opnu skipulagi og óvinum þess árið 1945, að brýnasta verkefni stjórnmálanna væri að setja reglur til að takmarka svigrúm misjafnra valdhafa. Á sama hátt og skip væru smíðuð fyrir storminn, ekki lognið, yrði stjórnskipulagið að gera ráð fyrir illum valdhöfum ekki síður en góðum. Þetta þurfti ekki að segja Snorra Sturlusyni, sem lagði Einari Þveræingi í munn, þegar Ólafur digri Noregskonungur seildist hingað til áhrifa árið 1024: En þótt konungur sjá sé góður maður, sem eg trúi vel að sé, þá mun það fara héðan frá sem hingað til þá er konungaskipti verður að þeir eru ójafnir, sumir góðir en sumir illir. En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu því er þeir hafa haft síðan er land þetta byggðist þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á. Einar var hér bersýnilega að lýsa skoðun Snorra sjálfs, sem þurfti að taka afstöðu til þess á þrettándu öld, að Hákon gamli Noregskonungur vildi leggja landið undir sig. Þeir Einar og Snorri voru sammála um, að Íslendingar skyldu vera vinir erlendra valdsmanna, en ekki þegnar. Þeir skyldu halda sérstöðu sinni. Úr því að konungar væru ójafnir, væri best að hafa engan konung, en næstbest að takmarka eins og auðið væri vald hans.
Utanríkisstefnan: Þveræingar eða Nefjólfssynir?
Þórarinn Nefjólfsson, hirðmaður Ólafs digra, flutti boðskap hans á Alþingi, þegar Einar Þveræingur varð fyrir svörum. Allar götur síðan hafa Íslendingar skipst í tvo flokka í utanríkismálum. Þveræingar vilja, að við séum sjálfstæð þjóð og leggjum rækt við menningararfleifð okkar, sögu og tungu. Við séum vinir annarra þjóða, en ekki þegnar. Nefjólfssynir eiga hins vegar þá ósk heitasta, að Ísland verði hluti af stærri heild, Noregi árið 1024 og Evrópusambandinu á okkar dögum, jafnvel þótt það kosti, að Íslendingar verði þegnar erlends valds. En nú hefur því verið haldið fram, að Snorri Sturluson hafi sjálfur frekar verið Nefjólfssonur en Þveræingur, því að hann hafi í utanferð sinni 12181220 gefið Noregskonungi fyrirheit um að koma landinu undir hann. Þetta er misskilningur, ættaður frá bróðursyni Snorra, Sturlu Þórðarsyni, sem hallaði oft á frænda sinn, sennilega fyrir öfundar sakir eða frændarígs. Átök höfðu orðið milli íslenskra höfðingja og norskra kaupmanna og mannvíg á báða bóga, svo að engin skip komu frá Noregi sumarið 1219. Reiddust þeir Hákon Noregskonungur og Skúli jarl Bárðarson, sem mestu réð í æsku Hákonar, mjög og vildu senda her til Íslands. Snorri taldi þá af því með því að lofa að tryggja kaupmönnum frið, og efndi hann það. Hann var að afstýra árás á landið, ekki að reyna að koma því undir Noregskonung.
Snorri reyndi á hinn bóginn að halda vináttu við konung, og hefur hann áreiðanlega samið og flutt við hirðina söguna frægu um landvættirnar fjórar, sem hann skráði síðar í Heimskringlu. Var hún óbein viðvörun til Hákons konungs og Skúla jarls um, að herför til Íslands gæti reynst erfið. Snorri valdi eins og háttvísu hirðskáldi sæmdi að segja söguna eins og hún væri um Harald Danakonung blátönn, sem hefði reiðst Íslendingum og gert fjölkunnugan mann í hvalslíki út til landsins. Sá rakst á dreka, gamm, griðung og bergrisa og fjölda annarra vætta. Eftir það fór hann austur með endilöngu landi. Var þá ekki nema sandar og öræfi og brim mikið fyrir utan en haf svo mikið millum landanna, sagði hann konungi, að ekki er þar fært langskipum. (Ólafs saga Tryggvasonar, 33. k.) Nýtti Snorri sér hér sögur úr hinni helgu bók og lagaði í hendi sér eftir þörfum, breytti til dæmis ljóni í dreka. En Hákon gamli sá, að Snorri var þess ófús að koma landinu undir hann, svo að árið 1235 sendi hann út þægari þjón, bróðurson Snorra, Sturlu Sighvatsson, sem hrakti Snorra aftur til Noregs. Sturla féll hins vegar ásamt föður sínum í Örlygsstaðabardaga 1238. Vildi Snorri þá snúa heim, en Hákon konungur bannaði honum utanför, eflaust af því að hann hefur talið, að Snorri myndi standa í vegi fyrir þeirri ætlun hans að leggja undir sig landið. Snorri mælti þá hin frægu orð: Út vil ek. En önnur ástæða var og til þess, að hinum háttvísa hirðmanni lá svo á. Vinur hans, Skúli jarl (sem nú var orðinn hertogi), hlýtur að hafa trúað honum fyrir því, að hann ætlaði sér að gera uppreisn gegn Hákoni. Snorri var maður friðsamur og vildi forða sér til Íslands, áður en af átökum yrði.
Best að hafa enga höfðingja
Líklega hefur Snorri tekið saman Eddu, áður en hann fór utan í hið fyrra skipti, enda ætlaði hann að flytja skáldskap sér til frægðar Noregskonungi. Hann hefur samið Ólafs sögu helga skömmu eftir utanförina, en þar er greinilegur endurómur af ásælni Noregskonungs á tíð hans sjálfs, og eftir það hefur hann prjónað aðrar sögur af Noregskonungum framan og aftan við, og þannig hefur Heimskringla orðið til. Snorri hefur eflaust samið Egils sögu, eftir að hann kom út í seinna skiptið, en þar er afstaðan til konungsvalds enn fjandsamlegri en í Heimskringlu. En hann fékk ekki þeirri stefnu sinni framgengt, að Íslendingar yrðu vinir konungs og ekki þegnar. Hákon konungur vildi sem eðlilegt var losna við hann af landinu og sendi Gissuri Þorvaldssyni orð um að senda hann utan eða drepa ella. Gissur gaf Snorra hins vegar ekki kost á utanför, heldur fór að honum og lét drepa í Reykholti 23. september 1241. Var þá hugsanlegur keppinautur hans um völd á Íslandi úr sögunni. Líklega hefur það ekki verið að vilja konungs, enda var Gissur í ónáð hans næstu árin. En eflaust hefur Heimskringla gengið um landið í handritum næstu áratugi. Ræða Einars Þveræings bergmálaði í svörum tveggja bænda, þeirra Brodda Þorleifssonar á Hofi í Skagafirði og Þorvarðar Þórðarsonar í Saurbæ í Eyjafirði, þegar höfðingjar kölluðu til ríkis árið 1255. Sögðu þeir bændur báðir, að best væri að hafa enga höfðingja.
Nú má spyrja, hvort stefna Snorra Sturlusonar í utanríkismálum hafi verið dæmd til að mistakast. Sex árum eftir víg Snorra kom Vilhjálmur kardínáli af Sabína til Noregs og átti að krýna Hákon konung. Þegar honum var sagt frá Íslandi, kvað hann að sögn Sturlu Þórðarsonar ósannlegt, að land það þjónaði ekki undir einhvern konung sem öll önnur lönd í veröldinni. Sturla var ólíkt Snorra konungssinni, Nefjólfssonur frekar en Þveræingur. En furðulegt er, ef kardinálinn ítalski hefur í raun og veru sagt þetta. Hann kannaðist auðvitað við ítölsku borgríkin, sem þjónuðu svo sannarlega ekki undir einhvern konung. Og sjálfur hafði Vilhjálmur af Sabína löngu áður miðlað málum í Líflandi (Eistlandi og Lettlandi nútímans) milli þýskrar riddarareglu og nágrannaríkjanna, og þjónaði sú riddararegla ekki undir einhvern konung, þótt hún réði landi. Enn má nefna, að Svissneska sambandið var stofnað árið 1307 og stendur enn og Ragúsa-lýðveldið við Adríahaf árið 1358 (nú Dubrovnik) og stóð til 1808. Hvorugt þeirra þjónaði undir einhvern konung. Hefðu Íslendingar séð fyrir, að Hákon gamli myndi deyja árið 1262 og að fiskimiðin við landið yrðu eftirsótt, svo að þeir gætu valið sér fleiri viðskiptavini en Björgvinjarkaupmenn, þá hefðu þeir ef til vill ekki þurft að ganga á hönd Noregskonungi, heldur getað eins og Svisslendingar og borgarbúar í Ragúsa haldið uppi sjálfstæðu ríki.
Jafnvel þótt ekkert annað ríki hefði verið finnanlegt í Evrópu, sem ekki þjónaði undir einhvern konung, gerði Vilhjálmur af Sabína alkunna rökvillu, sem kallast argumentum ad populum: Úr því að allir aðrir gera eitthvað, þurfum við að gera það líka. Þá er hollt að líta til Snorra Sturlusonar, sem lýsti eins og Sigurður Líndal túlkar hann af skilningi og þekkingu sérstöðu Íslands. Enn á sú kenning Snorra við, hvort sem erlendir valdsmenn sitja í Björgvin eða Brüssel, að Íslendingar eiga að vera vinir þeirra, en ekki þegnar.
(Grein í Morgunblaðinu 22. september 2025.)