Cssel og heimskreppan

Oftast er rætt um þrjár skýringar á heimskreppunni 1929-1933. Ein er kennd við austurríska skólann í hagfræði, að niðursveifla sé jafnan afleiðing fyrri uppsveiflu, sem orðið hafi vegna útlánaþenslu og rangra fjárfestinga. Niðursveiflan sé því aðeins nauðsynleg leiðrétting uppsveiflunnar, og ríkið eigi að láta markaðinn um úrlausnir.

Keynes lávarður setti fram aðra skýringu, að atvinnuleysi gæti verið jafnvægisástand frekar en skammtímafyrirbæri, því að sparnaður skilaði sér ekki allur í fjárfestingar, svo að ríkið yrði með verulegum opinberum framkvæmdum að tryggja fulla atvinnu.

Milton Friedman kom orðum að þriðju skýringunni, að seðlabanki Bandaríkjanna hefði horft upp á það aðgerðalaus, að peningamagn í umferð minnkaði þar í landi um þriðjung árin 1929-1933, en með því hefði hagsveifla niður á við breyst í heimskreppu. Seðlabankar ættu að bæta úr skyndilegum lausafjárskorti með seðlaprentun og kaupum á bankabréfum (eins og gert var í lausafjárkreppunni 2007-2009).

11.GustavCassel.1932.TopfotoFæstir vita, að hinn kunni sænski hagfræðingur Gustav Cassel (1866-1945) setti fram fjórðu skýringuna: Kreppuna mætti rekja til þess, að seðlabankar hefðu eftir stríð snúið aftur á gullfót, en safnað til sín gulli og geymt í sjóði, og við það hefði peningamagn í umferð dregist saman og valdið verðhjöðnun og að lokum heimskreppu. Engin mótsögn er milli skýringa Cassels og Friedmans, þar sem Cassel lýsti því aðallega, hvað hleypti kreppunni af stað árin 1929-1930, en Friedman hinu, hvernig hún snarversnaði með gjaldþrotahrinu bandarískra banka og minnkun peningamagns í umferð af þeim sökum árin 1930-1933.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júlí 2025.)


Röng hagfræði

12.JensWarming.ElfeltDanski hagfræðingurinn Jens Warming, sem fyrstur greindi ofveiðivandann í sjávarútvegi, var hallur undir georgisma, kröfuna um, að ríkið gerði alla auðlindarentu upptæka, því að eigendur auðlinda sköpuðu hana ekki, heldur náttúran og almenningur í sameiningu. Hann var þó nógu mikill hagfræðingur til að sjá, að skárra væri að leyfa rentunni að renna til einstaklinga en að hún færi í súginn í of miklum kostnaði. En furðulegt er að sjá nokkra íslenska hagfræðinga halda uppi merki georgismans í sjávarútvegi. Hagfræði þeirra er af mörgum ástæðum röng.

1. Þegar miðunum var lokað var valið um að úthluta aflaheimildum eftir aflareynslu eða bjóða þær upp. Fyrri leiðin var Pareto-hagkvæm, enginn skaðaðist á henni, og sumir græddu. Uppboð hefði hins vegar gert skip, veiðarfæri og veiðikunnáttu þeirra, sem hefðu orðið frá að hverfa í uppboðinu, verðlaust í einni svipan.

2. Enginn réttur var tekinn af öðrum með því að loka miðunum og úthluta aflaheimildum eftir aflareynslu annar en rétturinn til að gera út á núlli, en Warming sýndi einmitt fram á, að við opinn aðgang hlyti sókn að aukast upp að því marki, að öll auðlindarenta færi í súginn.

3. Það er álitamál, hvort rentukenning Ricardos standist, eins og Frank H. Knight benti á. Breytilegt er, hversu mikið auðlind getur gefið af sér. Eigendur eiga sinn þátt í að skapa rentuna.

4. Ef útgerðarmenn geta gengið að því vísu, að þeir eigi aflaheimildirnar, þá hafa þeir hag af því, að auðlindin, fiskistofnarnir, skili hámarksarði til langs tíma litið. Ef þeir þurfa að leigja þær af ríkinu, þá hafa þeir ekki lengur þennan hag og hegðun þeirra breytist til hins verra.

5. Útgerðarmenn eru líklegri en stjórnmálamenn og skriffinnar til að ávaxta fiskveiðirentuna skynsamlega. Hún stækkar hraðar í meðförum þeirra. Almenningur nýtur síðan góðs af í fjárfestingum þeirra og neyslu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. júlí 2025.)


Thorens-kastali, júlí 2025

IMG_6597

Thorens-kastali stendur hár og gnæfur í Suðaustur-Frakklandi, skammt frá landamærum Svisslands og Ítalíu, við gamlan þjóðveg, gegnt Alpafjöllum. Þar var haldinn sumarháskóli hugveitunnar New Direction í Brussel dagana 30. júní til 4. júlí, sem fimmtíu ungmenni hvaðanæva úr Evrópu sóttu, og talaði ég þar um um norrænar rætur frjálshyggjunnar.

Ég rakti tvær stjórnmálahugmyndir í verkum Snorra Sturlusonar, að valdhafinn verði að hafa umboð þjóðarinnar og að hún megi setja hann af, virði hann ekki hin gömlu, góðu lög, sem myndast hafi við sammæli kynslóðanna. Seinna átti John Locke eftir að binda þessar fornu hugmyndir í kerfi til réttlætingar byltingarinnar blóðlausu í Bretlandi 1688.

Ég minnti á, að 1765, ellefu árum áður en Adam Smith gaf út sitt mikla rit um auðlegð þjóðanna, hafði finnskur prestur sænskumælandi, Anders Chydenius, sett fram svipaða hugmynd um verðmætasköpun í krafti verkaskiptingar og frjálsra viðskipta, en Chydenius var einnig ötull baráttumaður fyrir málfrelsi og trúfrelsi.

Ég lýsti síðan kenningum danska skáldsins og prestsins Nikolais F.S. Grundtvigs, sem taldi brýnt, þegar Danakonungur afsalaði sér valdinu til þjóðarinnar árið 1848, að þjóðin hlyti fræðslu og menntun, bændur lærðu að vera ábyrgir þátttakendur í lýðræðisríkinu, og það gætu þeir gert í lýðháskólum. Grundtvig var frjálslyndur þjóðernissinni, en þjóðernishyggja hans fól ekki í sér yfirgang eða áreitni í garð annarra þjóða eða þjóðabrota.

(Fróðleiksmoli í Morgnblaðinu 5. júlí 2025.)


Danmörk í stríði við Alsír

Furðulegt er að sjá vanmátt Evrópusambandsins (og raunar Atlantshafsbandalagsins líka) í Rauðahafi, þar sem Hútar í Jemen stunda sjórán, en tilkynna, að þeir sleppi skipum frá Kína og Rússlandi. Evrópuríkin láta Bandaríkin og Ísrael um að taka á Hútum, sem njóta fjárhagsaðstoðar írönsku erkiklerkanna.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn, sem múslimar gerast sjóræningjar. Íslendingar muna Tyrkjaránið árið 1627, en sjóræningjar frá Alsír herjuðu einnig um svipað leyti á Færeyjar og Írland. Á átjándu öld greiddu Danir stjórnendum múslimaríkja á norðurströnd Afríku árlegt gjald gegn því, að dönsk kaupskip á Miðjarðarhafi væru látin í friði. Þegar nýr landstjóri í Alsír vildi hækka gjaldið neituðu Danir. Þá lýsti hann yfir stríði gegn Dönum, sem sendu að bragði sex herskip þangað suður árið 1770, og skutu þau á Algeirsborg í nokkra daga í júlí, en héldu síðan heim. Árið 1772 sendu Danir annan flota þangað suður, og var þá samið um frið. Danir greiddu landstjóranum háa fjárhæð, en dönskum föngum var sleppt.

Bandaríkin háðu síðan tvö stríð við Barbaríið (eins og það var kallað) á öndverðri nítjándu öld. Árin 1801-1805 héldu þau og (um skeið) Svíþjóð úti flota við strönd Norður-Afríku til að stöðva sjórán á Miðjarðarhafi. Lauk stríðinu með fangaskiptum. Seinna stríðið stóð aðeins í nokkra daga árið 1815, og unnu Bandaríkin fullan sigur. Lauk þá greiðslum til landstjórans í Alsír. Frakkar lögðu síðan Alsír undir sig árið 1830, stöðvuðu öll sjórán og bönnuðu þrælahald.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. júlí 2025.)


Bloggfærslur 31. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband