Tvö stríð

Unknown-6Samtök eldri sjálfstæðismanna sýndu mér þann sóma að biðja mig að tala á fundi þeirra 26. mars 2025, og kynnti ég þar nýútkomna bók mína, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today. Sú bók er samanburður á þjóðlegri frjálshyggju danska skáldsins Grundtvigs og frjálslyndri alþjóðahyggju ítalska hagfræðingsins Einaudis. Ég minnti á norrænu leiðina í alþjóðamálum, sem væri 1) að leyfa einni þjóð að segja skilið við aðra, 2) að færa til landamæri með atkvæðagreiðslum í umdeildum héruðum, 3) að tryggja þjóðabrotum, sem lenda innan þjóðríkis, sjálfræði í sem flestum málum, 4) að halda afsali fullveldis í lágmarki með frjálsri gagnkvæmri aðlögun.
Síðan vék ég að þeim tveimur stríðum, sem háð eru í eða nálægt Evrópu. Stríð eru tvenns konar, þau, sem lýkur með sigri annars aðilans, og þau, sem verða að þrátefli, þar sem hvorugur aðili fær sigrað hinn. Dæmi um hið fyrrnefnda er sigur Ísraelsmanna á Arabaríkjunum árið 1948. Dæmi um hið síðarnefndar er fyrri heimsstyrjöldin, þar sem víglínur breyttust lítt eftir nokkra fyrstu mánuðina, svo að stríðið varð að tilgangslausu blóðbaði.
Stríðið í Ísrael er dæmi um hið fyrrnefnda. Ísrael er að sigra hryðjuverkasamtökin Hamas og Hesbollah. Vopnahlé núna væri jafnórökrétt og vopnahlé í Þýskalandi í ársbyrjun 1945. Ganga verður milli bols og höfuðs á hryðjuverkasamtökunum eins og gert var við nasista árið 1945. Stríðið í Úkráinu er hins vegar dæmi um hið síðarnefnda. Það er orðið þrátefli. Pútín kom ekki fram þeirri ætlun sinni að leggja Úkraínu undir sig, sem betur fer, en Úkraína hefur því miður ekki afl til að reka her hans af höndum sér. Þráteflið er því orðið að tilgangslausu blóðbaði. Eina ráðið þar ólíkt Ísrael er vopnahlé, og þá mætti líta til norrænu leiðarinnar í alþjóðamálum, þótt ég geri mér raunar litlar vonir um það.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. apríl 2025.)


Dagar í Mexíkó

D48F7989-926D-4553-8A6B-DA5CB74B30BF_1_105_cÁ ráðstefnu í Mexíkóborg 16.–19. mars 2025 kynnti ég ekki aðeins nýútkomna bók mína á ensku um norræna og suðræna frjálshyggju, heldur tók einnig til máls, eftir að prófessor einn hafði rætt um Ameríkuhugtakið og minnst á, að á undan Kristófer Kólumbusi hefðu Íslendingar fundið Ameríku og líklega fleiri. Ég vitnaði í Oscar Wilde, sem sagði: „Íslendingar fundu Ameríku fyrstir, en höfðu vit á því að týna henni aftur.“ Þetta er fyndið, en ekki alls kostar nákvæmt, því að Íslendingar týndu ekki Ameríku, heldur hröktu frumbyggjar þá á brott, eins og lýst er í Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða, en ég hef gert útdrátt úr þeim á ensku undir nafninu The Saga of Gudrid, því að Guðríður Þorbjarnardóttir er í rauninni aðalsöguhetjan í þeim, fyrsta evrópska móðirin í Vesturheimi.
Ég fór líka með aðra gráa fyndni um fund Ameríku eftir þýska heimspekinginn Georg Christian Lichtenberg: „Sá Ameríkumaður, sem fyrstur fann Kólumbus, var óheppinn með fund sinn.“ Þetta er holl áminning um að gleyma ekki frumbyggjunum, sem fundu Ameríku langt á undan Íslendingum og Kólumbusi, líklega um 25 þúsund árum f. Kr., þegar þeir komu yfir Bering-sund frá Asíu. Evrópumenn báru með sér vestur um haf ýmsa smitsjúkdóma, sem þeir voru sjálfir orðnir ónæmir fyrir, en frumbyggjarnir ekki. Talið er, að í Ameríku hafi búið um 60 milljónir manna, áður en landnám Evrópumanna hófst, en allt að 90% þeirra hafi dáið úr bólusótt, myslingum, mýraköldu, inflúensu, taugaveiki, skarlatssótt og öðrum sjúkdómum. Hitt er annað mál, að líklega voru nýlenduherrar Spánverja skömminni skárri en keisarar Asteka og Inka, sem gengu fram af mikilli grimmd.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. mars 2025.)


Mexíkóborg, mars 2025

BB9BEDD8-2EDA-405E-8454-84DFC2653C77_1_105_cMont Pelerin samtökin eru alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem þeir Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman og fleiri stofnuðu árið 1947. Á þingi þeirra í Mexíkóborg 16.–19. mars 2025 kynnti ég nýútkomna bók mína, sem evrópsku íhaldsflokkarnir gáfu nýlega út, Conservative Liberalism, North and South. Var kynningin vel sótt og góður rómur gerður að máli mínu. Sérstaklega fannst áheyrendum merkilegt að heyra um hinn fornnorræna frjálshyggjuarf, sem Snorri Sturluson kom orðum að í Heimskringlu, hugmyndirnar tvær um völd í umboði þinga og réttinn til að afhrópa konunga, ef þeir brutu fornhelg lög.
Mexíkóborg hét Tenochtitlan, þegar Spánverjar komu þangað fyrst haustið 1519, hafði verið stofnuð árið 1325 og var höfuðborg Astekaveldisins. Þar voru stundaðar mannfórnir, þegnarnir kúgaðir hrottalega og strangri stéttaskiptingu haldið uppi. Árið 1521 lögðu Spánverjar Astekaveldið undir sig og reistu nýja borg á rústum hinnar gömlu. Hún varð aðsetur landstjóra Spánverja á víðlendu svæði, konungdæminu Nýja Spáni, sem teygði sig yfir alla Mið-Ameríku, eyjar í Karíbahafi, Mexíkó okkar daga, vesturhluta núverandi Bandaríkja Norður-Ameríku, allt frá Kaliforníu til Flórída, og yfir þvert Kyrrahaf til Filippseyja. Stóð veldi Spánverja í rétt þrjú hundruð ár, til 1821, þegar Mexíkó öðlaðist sjálfstæði, en úr því hafði kvarnast mikið.
Mexíkóborg varð höfuðborg hins nýja ríkis, en ýmsar skýringar hafa verið viðraðar á því, hvers vegna því hefur vegnað miklu verr en grannanum í norðri. Ég tel einna haldbærasta þá, að muninn megi rekja allt til fyrstu evrópsku landnemanna, sem bjuggu við þátttöku (inclusion) í Bandaríkjunum, en sjálftöku (extraction) í Mexíkó.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. mars 2025). 


Bloggfærslur 11. apríl 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband