Ný forysta Sjálfstæðisflokksins

Full ástæða er til að óska nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins til hamingju, formanninum, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, og varaformanni, Jens Garðari Helgasyni. Við þau eru miklar vonir bundnar. Eflaust hafa þau bæði notið þess hjá landsfundarfulltrúum að koma úr atvinnulífinu, en einn munurinn á Sjálfstæðisflokknum og hinum stjórnmálaflokkunum er, að hann styður öflugt atvinnulíf öllum í hag. Skapa þarf verðmætin, áður en þeirra er notið.

Ég gef þeim Guðrúnu og Jens Garðari tvö ráð. Annað er, að þau láti sig varða skoðanamyndun í landinu, en um hana hafa sjálfstæðismenn verið undarlega áhugalitlir. Í háskólum landsins og á ríkisfjölmiðlum er rekinn skefjalaus áróður fyrir vinstri stefnu. Auðvitað eiga vinstri menn að hafa fullt frelsi til að boða hugmyndir sínar. En það á ekki að vera á kostnað skattgreiðenda. Því miður nýtti Sjálfstæðisflokkurinn ekki það færi, sem hann hafði árið 2013, eftir að vinstri flokkarnir höfðu beðið greipilegan ósigur, til að tryggja eðlilegt jafnvægi í miðlun upplýsinga, sérstaklega í Ríkisútvarpinu, sem er þó skylt að lögum að gæta sanngirni. Þarf Sjálfstæðisflokkurinn að fóðra þá, sem bíta hann?

Hitt ráðið er, að þau Guðrún og Jens Garðar geri sér grein fyrir, að hin raunverulega stéttabarátta á Íslandi er ekki háð á milli auðmagns og verkalýðs, eins og marxistar halda fram, heldur á milli hinna vinnandi og hinna talandi stétta. Þau koma sem betur fer bæði úr röðum hinna vinnandi stétta. En hinar talandi stéttir, sem hittast iðulega á fjölmennum og löngum fundum til að masa um, hvernig skipta megi þeim verðmætum, sem aðrir hafa skapað, hallast auðvitað til vinstri. Það ber dauðann í sér fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fjölga opinberum starfsmönnum og styrkþegum. Með því er hann aðeins að fjölga kjósendum vinstri flokka. Þá er hann enn að fóðra þá, sem bíta hann. 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. mars 2025.)


Tollheimta og sjórán

Kronborg_002Fyrir rás viðburðanna lentu Íslendingar undir stjórn Danakonungs árið 1380, þegar Danakonungur, Ólafur Hákonarson, þá tíu ára, var kjörinn konungur Noregs. Móðir Ólafs, Margrét, dóttir Valdimars Danakonungs, var ríkisstjóri. En þegar Ólafur lést óvænt árið 1387, var úr vöndu að ráða. Margrét ákvað árið 1389 að ættleiða eina afkomanda föður síns á lífi, hinn sjö ára svein Bugislav af Pommern. Hann skipti þá um nafn, kallaðist Eiríkur og fluttist norður til Danmerkur. Varð hann konungur Noregs (og Íslands) árið 1389, konungur Danmerkur árið 1396 og Svíþjóðar sama ár.

Þótt Eiríkur væri konungur, stýrði Margrét ömmusystir hans ríkjum til dauðadags árið 1412. Sem konungur varð Eiríkur helst frægur fyrir að koma á Eyrarsundstollinum árið 1429. Urðu öll skip, sem fóru um Eyrarsund, að koma við í Helsingjaeyri og greiða toll af farmi sínum. Ella voru þau skotin í kaf með fallbyssum frá Krónborg. Margt varð Eiríki mótdrægt, og var hann settur af í Svíþjóð og Danmörku árið 1339 og í Noregi ári síðar. Hann fór til eyjunnar Gotlands og lifði næstu tíu árin á sjóránum. Þá vaknar forvitnileg spurning: Hvaða munur var á að leggja með Eyrarsundstollinum kostnað á skip, sem fóru um Eyrarsund, og leggja með sjóránum kostnað á skip, sem fóru um Eystrasalt? Það er gömul regla, að skatta skuli leggja á með samþykki réttkjörinna fulltrúa (No taxation without representation). Sú regla átti svo sannarlega ekki við um Eyrarsundstollinn, sem var innheimtur með hótunum um ofbeldi. Hann var síðan óhagkvæmur, því að hann dró úr alþjóðaviðskiptum. Verður mér í þessu sambandi hugsað til enska heimspekingins Gertrude Anscombe, sem sagði, að meginverkefni stjórnmálaheimspekinnar væri að skýra út muninn á ríkinu og bófafélögum, sem bjóða „vernd“ gegn gjaldi.

Eini munurinn á tollheimtu Eiríks og sjóránum er, sýnist mér, að tollheimtan var fyrirsjáanleg og eftir föstum reglum. Með öðrum orðum var munurinn sá, að Eyrarsundstollurinn var löghelgað sjórán.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. mars 2025.)           


Frelsishetjur Svía

TorgnyLagmann.ChristianKroghEitt af því, sem ég hef komist að í grúski mínu síðustu ár, er, að Svíar búa að sterkri frjálshyggjuarfleifð. Hún gerði þeim kleift að standast á sautjándu öld áhlaup konunga, sem vildu ótakmarkað vald í nafni Guðs, og á tuttugustu öld áhlaup vinstri sinnaðra stjórnmálamanna, sem vildu ótakmarkað vald í nafni Alþýðunnar. Í sögu Svía standa nokkrar frelsishetjur upp úr.
Ein er Þórgnýr lögmaður Þórgnýsson, sem Snorri segir frá í Heimskringlu, en á þingi Svía árið 1018 tilkynnti hann Ólafi, konungi þeirra, að hann yrði að halda friðinn og fylgja gömlum lögum, ella yrði hann settur af og jafnvel drepinn. Hér var Þórgnýr að vísa í þá ævafornu reglu germanskra þjóða, að konungar væru bundnir af sömu lögum og þegnar þeirra.
Önnur frelsishetjan var aðalsmaðurinn og námueigandinn Engilbrekt Engilbrektsson, sem hafði forystu um uppreisn Svía árið 1434 gegn Eiríki af Pommern, en ári síðar komu fulltrúar ólíkra stétta saman í fyrsta sinn í bænum Arboga, og á sænska þingið rætur að rekja til þess fundar. Það var fram til 1866 stéttaþing og skiptist í fjórar deildir, aðals, klerka, borgara og bænda. Var þá fátítt í Norðurálfunni, að bændur ættu sérstaka fulltrúa á þingi. Orti Tómas Marteinsson biskup árið 1439 fræga drápu um Engilbrekt, og sagði þar, að frelsið væri gulli betra.
Þriðja frelsishetjan var fræðimaðurinn Olaus Petri, sem hét upphaflega Olof Petterson, en hann var lærisveinn Lúters í Wittenberg. Hann samdi Dómarabókina svokölluðu um 1530, en hún er jafnan sett fremst í lögbókum Svía og Finna. Þar er kveðið á um, að allir séu jafnir fyrir lögunum, fátæklingar jafnt og furstar. Ein meginskýringin á velgengni norrænna þjóða síðustu aldir er einmitt öflugt réttarríki.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. mars 2025. Myndin er af Þórgný lögmanni að vera við Ólaf konung við, gerð eftir Christian Krogh.)


72 ára

IMG_5233Hátíðir eiga að lyfta okkur upp úr hversdagslífinu, rifja upp, að við erum ekki maurar í þúfu, heldur einstaklingar í sálufélagi við ástvini, vini, fjölskyldu, samherja og samlanda.

Þótt árin færist yfir, er afmæli ætíð tilefni til hátíðarhalda. Þá hefur mér tekist að lifa af enn einn hringinn, sem jörðin fer í kringum sólina. Þegar ég átti 72 ára afmæli hinn 19. febrúar í ár, hélt ég upp á það með grillveislu heima hjá mér í Rio de Janeiro. Þá leituðu á hugann liðin stórafmæli, enda er minningin eina paradísin, sem enginn getur rekið okkur út úr.

Þegar ég varð þrítugur árið 1983, héldu vinir mínir mér fjölmennan fagnað í Héðinshúsinu, og flaug ég sérstaklega til Reykjavíkur frá Oxford, þar sem ég stundaði þá nám. Þeir Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Vilmundur Gylfason, formaður Bandalags jafnaðarmanna, kvöddu sér báðir hljóðs í samsætinu, og mæltist þeim vel.

Ég hélt upp á fertugsafmælið árið 1993 í góðra vina hóp í veitingastaðnum Skólabrú, þar sem þeir Davíð Oddsson, Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson og konur þeirra samfögnuðu mér.

Ég hélt upp á fimmtugsafmælið árið 2003 með móttöku á Hótel Sögu og kvöldverði með nokkrum vinum í Skólabæ, sem þá var samkomuhús háskólamanna. Fluttu þeir Davíð Oddsson og Ólafur Þ. Harðarson snjallar ræður í móttökunni.

Ég hélt upp á sextugsafmælið árið 2013 með móttöku í Háskólanum og kvöldverði í Þingholti, þar sem þeir Davíð, Kjartan og Gunnlaugur Sævar færðu mér skemmtilega afmælisgjöf, málverk eftir Stephen Lárus Stephen, sem nefnist „Hannes ófullgerður“, áskorun um að halda áfram á markaðri braut.

Á sjötugsafmælinu árið 2023 var ég á kjötkveðjuhátíðinni í Rio de Janeiro, en í maí það ár hélt Háskólinn fjölmenna starfslokaráðstefnu, þar sem margir góðir vinir, erlendir og innlendir, fluttu fróðlega fyrirlestra, sem aðgengilegir eru á netinu. Forseti Íslands bauð öllum ræðumönnunum til móttöku á Bessastöðum, forseti Alþingi bauð erlendu gestunum í Alþingishúsið og fjármálaráðherra hélt kvöldverð í Ráðherrabústaðnum. Gat viðskilnaður minn við Háskólann ekki orðið ánægjulegri.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. febrúar 2025.)


Skírt silfur og bleikt

Íslendinga þættir eru miklu styttri en Íslendinga sögur. Einn hinn skemmtilegasti er um Halldór Snorrason. Hann var dóttursonur Einars Þveræings og langalangafi Snorra Sturlusonar og hafði ungur verið í liði Væringja í Miklagarði ásamt Haraldi Sigurðssyni, hálfbróður Ólafs digra Noregskonungs. Þegar Haraldur varð konungur Noregs árið 1046, fylgdi Halldór honum.

Fyrst var slegin mynt í Noregi um 995, og var hún úr skíru eða brenndu silfri. En Haraldur konungur freistaðist til þess eins og valdsmenn fyrr og síðar að drýgja sjóði sína með því að framleiða verðlitla peninga. Voru peningar þeir, sem hann lét slá, blandaðir kopar að helmingi eða meira og kölluðust því bleikt silfur, Haraldsslátta. Um jólin 1049 skyldi konungur greiða Halldór mála. Þegar Halldór fékk peningana, sem reyndust úr bleiku silfri, en ekki skíru, kastaði hann þeim frá sér og var hinn reiðasti. Konungur þurfti hins vegar liðveislu Halldórs í herför, svo að hann sá sitt óvænna og greiddi honum málann í skíru silfri.

Í þessari sögu er lýst einum mikilvægasta rétti fólks, sem er að geta hafnað verðlitlum peningum. Það heldur valdsmönnum í skefjum. Þar sem gjaldeyrisviðskipti eru frjáls, er þetta tiltölulega auðvelt, en valdsmenn hafa einmitt freistast til þess fyrr og síðar að takmarka slík viðskipti og neyða menn til að taka við þeim peningum, sem þeir hafa framleitt. Um það snúast gjaldeyrishöft eins og þau, sem Íslendingar þoldu árin 1931–1960.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. febrúar 2024.)


Fólksflutningar í ljósi sögunnar

VertreibungNorðurlandaþjóðirnar hafa, eins og ég leiði rök að í nýrri bók á ensku, fundið ákjósanlega leið í sambúð þjóða (þótt áður fyrr hafi þær háð ófá stríð hver við aðra). Ef ein þjóð vill ekki lúta annarri, þá segir hún skilið við hana, eins og Norðmenn gerðu 1905, Finnar 1917 og Íslendingar 1918. Ef þjóðabrot er innan ríkis annarrar þjóðar og óánægt með hlutskipti sitt, þá fær það sjálfstjórn, Álandseyingar og Færeyingar. Ef ágreiningur er um landamæri, þá greiða íbúar í landamærahéruðum atkvæði um, í hvaða ríki þeir vilja vera, eins og í Slésvík 1920.

Því miður er norræna leiðin undantekning, ekki regla. Sumar þjóðir virðast ekki geta ekki búið saman vegna gagnkvæms haturs og reyna þá ýmist að útrýma hvor annarri eða hrekja hvor aðra burt. Tyrkir ráku um milljón grískumælandi menn burt eftir sigur í stríði við Grikkland 1922. Finnar flýðu allir sem einn, 400 þúsund manns, frá Kirjálalandi (Karelíu) 1940, eftir að Stalín lagði það undir sig. Um tíu milljónir þýskumælandi manna voru reknar frá Póllandi og Tékkóslóvakíu 1945, og eru það líklega mestu nauðungarflutningar sögunnar. Arabaríkin ráku 850 þúsund gyðinga til Ísrael eftir stofnun Ísraelsríkis 1948, og 726 þúsund Arabar flýðu þá frá Ísrael (þótt ólíkt Grikklandi, Finnlandi og Þýskalandi tækju Arabaríkin ekki á móti þessum bræðrum sínum og systrum, heldur lokuðu þau inni í flóttamannabúðum). Hátt í milljón frönskumælandi manna flýði frá Alsír árið 1962, enda var þeim tilkynnt, að þeir gætu valið um líkkistu eða ferðatösku.

Það er því ekkert nýtt, þegar Trump Bandaríkjaforseti segir einu leiðina í Gaza vera að flytja Arabana á svæðinu burt. Þeir virðast ekki vilja friðsamlega sambúð við Ísrael, eins og árásin 7. október 2023 sýndi, heldur er það beinlínis á stefnuskrá Hamas, sem nýtur líklega stuðnings flestra íbúanna, að útrýma Ísraelsríki. Ég er ekki að mæla með þessari dapurlegu leið, aðeins að benda á, að hún hefur oft verið valin, ef til vill stundum af illri nauðsyn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. febrúar 2023. Ljósmyndin er af þýskumælandi mönnum, sem reknir voru árið 1945 úr heimalöndum sínum, þar sem þeir höfðu búið kynslóðum saman.)


Bloggfærslur 16. mars 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband