22.6.2024 | 11:31
Upp komast svik um síðir
Kommúnistar um heim allan, líka á Íslandi, treystu því, að skjalasöfn í Rússlandi myndu aldrei opnast, svo að þeir sóru og sárt við lögðu, að þeir hefðu aldrei þegið eyri frá Moskvu, þótt margir þeirra fengju þaðan Rússagull, eins og upp komst eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna.
Annað dæmi er fróðlegt. Í aprílbyrjun árið 1979 dóu að minnsta kosti 68 manns úr blóðkýlasótt (anthrax) í borginni Sverdlovsk í Rússlandi, sem nú heitir Jekaterínbúrg. Í rússnesku útlagatímariti birtist frétt um, að orsökin væri leki frá rannsóknarstofu í sýklahernaði. Bandaríkjamenn og Bretar spurðust fyrir um málið. Yfirvöld harðneituðu þessu og kváðu blóðkýlasóttina hafa stafað af rangri meðferð matvæla. Þeir buðu kunnum bandarískum erfðafræðingi, Matthew Meselson frá Harvard-háskóla, til Moskvu, þar sem hann ræddi við embættismenn og komst að þeirri niðurstöðu, að skýring þeirra á slysinu stæðist, enda í samræmi við það, sem vitað væri um blóðkýlasótt. Breski örverufræðingurinn Vivian Wyatt studdi líka hina opinberu skýringu í grein í New Scientist.
Eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna kom hið sanna í ljós. Þvert á alþjóðasamninga var einmitt rekin stór rannsóknastofa í sýklahernaði í borginni. Eitt sinn gleymdist að búa tryggilega um sýkilinn, sem veldur blóðkýlasótt, og barst hann út í andrúmsloftið, sem betur fer vegna vindáttar í úthverfi, en ekki inn í borgina, en þá hefðu hundruð þúsunda látið lífið. Rússneska leyniþjónustan, KGB, hafði eytt öllum sjúkraskrám og öðrum gögnum, en þó tókst að rannsaka málið og skýra slysið. Allt það, sem stjórnvöld höfðu sagt um það, reyndist vera haugalygi. Skyldi eitthvað svipað vera að segja um kórónuveiruna kínversku, sem herjaði á heimsbyggðina í nokkur ár?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júní 2019.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook
22.6.2024 | 11:26
Hjátrú og hjáfræði
Þegar ég var í háskóla, hristum við höfuðið yfir hjáfræði, þegar reynt var að gefa ranghugmyndum fræðilegan blæ. Þrjú dæmi voru gullgerðarlist, stjörnuspeki og mannkynbótafræði, en einnig marxismi og sálgreining. Marxisminn var hjáfræði, því að hann skýrði allt og þá um leið ekkert. Ef maður var marxisti, þá skildi hann lögmál sögunnar. Ef maður hafnaði marxisma, þá var hann á valdi annarlegra sjónarmiða. En hjáfræði lifir enn góðu lífi. Helga Kress rakti í fyrirlestri 10. október 1991 dæmi í fornbókmenntum um kúgun kvenna. Ég stóð upp og nefndi þaðan dæmi um, að konur færu illa með karla. En þá er það textinn, sem kúgar, svaraði Helga. Ef textinn segir frá því, að karlar kúgi konur, þá á að taka hann bókstaflega. Ef textinn segir frá því, að konur kúgi karla, þá er hann aðeins dæmi um kúgun textahöfundanna! Tilgátan hefur alltaf rétt fyrir sér.
22.6.2024 | 11:25
Forsetakjör 2024
Um það má deila, hvenær Ísland varð ríki. Ef skilgreining Webers er notuð, einkaréttur á valdbeitingu, þá var það ekki fyrr en árið 1918. Ég tel skilgreiningu Hegels skynsamlegri, að ríkið sé einingarafl, vettvangur sátta og samstarfs, og samkvæmt því var Þjóðveldið íslenska ríki. Síðan færðist ríkisvald úr landi, fyrst til Noregs, síðan Danmerkur, en færðist aftur inn í landið árið 1918. Lögsögumaður verður að teljast hinn eiginlegi þjóðhöfðingi Þjóðveldisins, en þegar íslenskt ríki var aftur stofnað árið 1918, samdist svo um, að konungur Danmerkur yrði einnig þjóðhöfðingi á Íslandi.
Þá var Danakonungur nánast orðinn valdalaus, þótt látið væri svo heita, að ráðherrar beittu valdi sínu í umboði hans. Þegar konungur var afhrópaður árið 1944 (en óvíst var, hvort það væri heimilt samkvæmt sambandslögunum), tók þjóðkjörinn forseti við hlutverki hans. Hann fékk þó ekki eiginlegt neitunarvald eins og Danakonungur hafði haft, heldur aðeins vald til að synja lagafrumvörpum samþykkis, og tóku þau þó gildi, en bera þurfti þau undir þjóðaratkvæði.
Ólafur Ragnar Grímsson var eini forsetinn, sem lét á þetta synjunarvald reyna. Þegar fram líða stundir, munu flestir eflaust telja, að fjölmiðlafrumvarpið 2004 hafi ekki verið þess eðlis, að hann hefði átt að beita synjunarvaldinu, ólíkt Icesave-samningunum tveimur, sem vörðuðu ríka þjóðarhagsmuni. En því segi ég þetta, að í aðdraganda forsetakjörs nú í ár töluðu sumir frambjóðendur eins og forseti hefði víðtækt vald. Kusu þeir að horfa fram hjá 11. grein stjórnarskrárinnar, að forseti væri ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum, og 13. greininni, að forsetinn léti ráðherra framkvæma vald sitt. Það var til dæmis fráleitt, eins og sagt var, að forseti gæti gengið gegn vilja meiri hluta Alþingis um, hverjir skyldu verða ráðherrar. Hitt er annað mál, að forseti getur haft mikil áhrif stöðu sinnar vegna. En völd og áhrif eru sitt hvað.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júní 2024.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook
22.6.2024 | 11:21
Blagoevgrad, apríl 2024
Mér var falið að ræða um hagnýtar lausnir frjálshyggjunnar á ráðstefnu Bandaríska háskólans í Blagoevgrad í Búlgaríu 26. apríl 2024. Í upphafi benti ég á, að frjálshyggja snerist ekki um neitt draumríki, heldur væru hinar góðu afleiðingar af viðskiptafrelsi, valddreifingu og einkaeignarrétti augljósar og áþreifanlegar: Bandaríkin á seinni hluta nítjándu aldar, Hong Kong á seinni hluta tuttugustu aldar og Sviss á okkar dögum.
Fræðimenn hafa talið sum gæði þess eðlis, að þau yrðu ekki verðlögð í frjálsum viðskiptum, svo að ríkið yrði að framleiða þau. Þau væru samgæði. Kennslubókardæmi var sú þjónusta, sem vitar veita skipum. En þegar að var gáð, kom í ljós, að þjónusta vita hafði einmitt verið verðlögð sem hluti af þjónustu, sem vitar og hafnir veita í sameiningu. Gjaldið fyrir þjónustu vitanna var innheimt í hafnargjöldum. Ég vakti síðan athygli á, að ríkið þyrfti ekki sjálft að framleiða ýmis gæði, þótt það gæti kostað þau. Svo væri um skólagöngu. Ríkið gæti sent foreldrum og nemendum ávísanir, sem þeir gætu notað til að greiða fyrir skólagöngu (jafnframt því sem þeir gætu bætt við úr eigin vasa). Þannig gætu skólar verið einkareknir, en notendur þjónustunnar ættu kost á að velja um þá.
Ég rifjaði upp, að á Íslandi var ríkiseinokun á útvarpsrekstri allt til 1986. Hún var afnumin, eftir að ég og félagar mínir rákum í mótmælaskyni útvarpsstöð í átta daga í október 1984, uns síminn miðaði hana út og lögreglan lokaði henni. Fyrir það hlaut ég minn fyrsta dóm.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júní 2024.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook