11.3.2024 | 08:26
Lengi lifir í gömlum glæðum
Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, undirritaði ásamt 345 öðrum starfsmönnum Háskóla Íslands yfirlýsingu 13. nóvember 2023, þar sem lýst var andstöðu við nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu og þjóðarmorð Ísraels í tilefni þess, að Ísraelsher fór eftir árás Hamas liða á Ísrael 7. október inn á Gasa svæðið til að stöðva hryðjuverk samtakanna. Ekki var í yfirlýsingunni minnst einu orði á ódæði Hamas liða 7. október, er þeir myrtu 1.200 Gyðinga og tóku fjölda gísla, en nota síðan íbúa á Gasa sem lifandi skildi, svo að fall óbreyttra borgara verður þar miklu meira en ella. Með yfirlýsingunni skerti Pia stórlega trúverðugleika Alþjóðamálastofnunar. Prófessor Guðmundur Hálfdanarson, stjórnarformaður stofnunarinnar, virðist þó ekki hafa brugðist við.
Alþjóðamálastofnun hélt fund 9. desember, þar sem Pia var ekki mætt, eflaust vegna þess að hún hefur vitað, að þar ætti að ráðast á einn frummælandann, Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra. Guðmundur Hálfdanarson var fundarstjóri, horfði opinmynntur upp á árásina og brást ekki við. En furðuleg tilviljun er, að afi Guðmundar, Jafet Ottósson, og afi Piu, Þóroddur Guðmundsson, voru báðir í hópi þeirra 27 Íslendinga, sem sóttu hinar leynilegu þjálfunarbúðir Alþjóðasambands kommúnista, Komintern, í Moskvu, þar sem kenndur var vopnaburður, leynileg fjarskipti, fölsun vegabréfa og annarra skjala og skipulagning verkfalla og götubardaga. Jafet var þar 19301931 undir dulnefninu Dan Mengel, en Þóroddur 19301932 undir dulnefninu Otto Stein. Jafet var síðan einn af þeim, sem veittust að Bjarna Benediktssyni, afabróður og alnafna utanríkisráðherra, fyrir framan Sjálfstæðishúsið við Austurvöll haustið 1946 í átökum um varnarmál. Þóroddur sat hins vegar í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, og á fundi þar í nóvember 1947 sagði hann: Hvað varðar mig um þjóðarhag? Sveinn Benediktsson, afi Bjarna utanríkisráðherra, sat líka í stjórninni. Hann upplýsti opinberlega um ummæli Þórodds, sem urðu þegar fleyg.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. mars 2019.)