Reykjavík, október 2024

Á fundi í Þjóðminjasafninu í Reykjavík 14. október 2024 hafði Ísraelsmaðurinn Ely Lassman, 27 ára hagfræðingur, framsögu um „Ísrael, Arabaríkin og Vesturveldin“. Margt var þar umhugsunarefni. Eitt var, að við, sem stóðum að fundinum, urðum að hafa hann lokaðan til að geta rætt þetta mál í næði, en óspektarfólk hefur mjög látið hér að sér kveða og reynt að öskra niður rödd Ísraels. Þetta er óeðlileg takmörkun á málfrelsi okkar og fundafrelsi.
Annað umhugsunarefni var skýring Lassmans á hatri Hamas og Hesbollah hryðjuverkasamtakanna á Ísrael. Hann sagði, að það ætti sér hugmyndalegar rætur. Öfgaíslam styddist við ýmsar setningar í Kóraninum, sem fælu í sér stækt gyðingahatur, og væri athyglisvert, að orðalag væri talsvert mildara í erlendum þýðingum en á frummálinu, arabísku. Bæði þessi samtök vildu útrýma gyðingum.
Skýring Lassmans á því, að margir Vesturlandabúar hafa tekið upp málstað Hamas og Hesbollah, var líka umhugsunarefni: Marxistar og aðrir öfgavinstrimenn væru að vísu ólíkir öfgamúslimum um margt, en báðir hópar ættu það sameiginlegt að hata vestræna menningu, einkaeignarrétt, viðskiptafrelsi, valddreifingu, fjölbreytni, umburðarlyndi, frjálsa samkeppni hugmynda, lífsgleði og lífsnautnir. Ísrael væri eina vestræna ríkið í Miðausturlöndum, svo að ekki ætti að koma á óvart, að öfgavinstrimenn vildu það feigt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. október 2024.)


Blóðbaðið 1947

Í Indlandsför í september 2024 komst ég að því, hversu lítið ég vissi um fjölmennasta ríki heims og vænlegan bandamann Vesturveldanna gegn öxulveldunum ágengu (Kína, Rússlandi, Íran og Norður-Kóreu). Breska ríkið tók stjórn Indlands úr höndum Austur-Indía félagsins árið 1858, en hreyfði ekki við hinum mörgu furstadæmum, þar sem um þriðjungur Indverja bjó. Árin milli stríða var stefnt að heimastjórn. Bretar og raunsæir Indverjar unnu að því, að Indland yrði ríkjasamband með sameiginlegar varnir, utanríkisstefnu og gjaldmiðil, en hver eining með fótfestu í sögunni stjórnaði sér að öðru leyti sjálf eftir eigin hefðum og venjum. Var það eðlilegt, því að Indverjar skiptust í ótal hópa eftir málum, uppruna og trúarbrögðum. Í norðurhlutanum var skiptingin skýrust milli hindúa, sem töluðu hindi, og múslima, sem töluðu urdu, en þótt málin séu náskyld, eru þau skrifuð með ólíku letri.
Ekkert varð þó úr hugmyndum um valddreifingu í lauslegu ríkjasambandi lýðvelda og furstadæma, þar sem samkeppni um þegna hefði haldið aftur af valdhöfum. Indverski þjóðarráðsflokkurinn (Congress), sem var aðallega skipaður vinstri sinnuðum menntamönnum, heimtaði eitt miðstýrt ríki. Múslimar gátu hins vegar ekki hugsað sér að lenda undir stjórn hindúa. Í Bretlandi komst árið 1945 til valda vinstri stjórn, sem hafði samúð með miðstýringarmönnum. Hún ákvað að leyfa forystumönnum hindúa og múslima að skipta landinu, og Bretar hröðuðu sér á braut árið 1947. Afleiðingin varð eitt mesta blóðbað nútímans, sem síðasti breski landstjórinn, Mountbatten lávarður, bar verulega ábyrgð á með óðagoti sínu. Líklega hafa samkvæmt nýjustu rannsóknum um tvær milljónir týnt lífi í vígaferlum hindúa og múslima, en átján milljónir flúið á víxl milli Indlands og hins nýja múslimaríkis Pakistans. Þessi hræðilegi harmleikur hefði aldrei þurft að eiga sér stað.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. október 2024.)


Markaðir og frumkvöðlar

Er auður Vesturlanda sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi? Spillir kapítalisminn umhverfinu og sóar auðlindum? Er kapítalisminn andlaust kapphlaup um efnisleg gæði, þar sem menn týna sálu sinni? Þessum spurningum svara nokkrir ræðumenn á ráðstefnu evrópskra frjálshyggjustúdenta, Students for Liberty Europe, RSE, Rannsóknarmiðstöðvar í samfélags- og efnahagsmálum, og fleiri aðila í Reykjavík laugardaginn 12. október kl. 14–18. Ber ráðstefnan yfirskriftina _Markaðir og frumkvöðlar“.

Þrælahald og nýlendustefna

Einn ræðumaðurinn er dr. Kristian Niemietz, aðalhagfræðingur hinnar áhrifamiklu stofnunar Institute of Economic Affairs í Lundúnum. Hann gaf fyrr á þessu ári út fróðlega bók, Imperial Measurement: A cost-benefit analysis of Western colonialism, Mælingar á nýlenduveldum: kostnaðar- og nytjagreining á vestrænni nýlendustefnu. Tilefnið var, að í afturköllunarfári (cancel culture) síðustu ára er því iðulega haldið fram, að auður Vesturlanda sé sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi. Niemietz minnir hins vegar á, að Adam Smith taldi nýlendur leiða af sér meira tap en gróða. En ef Smith hafði rétt fyrir sér, hvernig stóð þá á nýlendukapphlaupinu á nítjándu öld? Skýringin er, að tapið dreifðist á alla, en gróðann hirti tiltölulega fámennur hópur valdamanna. Jafnframt varð það metnaðarmál stærstu ríkjanna í Evrópu að eignast nýlendur.
Niemietz bendir á, að í Bretaveldi var utanríkisverslun aðeins lítill hluti heildarverslunar og aðallega við aðrar vestrænar þjóðir, ekki við nýlendurnar, auk þess sem þorri fjárfestinga var fjármagnaður með innlendum sparnaði og arði af verslun við aðrar vestrænar þjóðir. Það kostaði Breta líka stórfé að halda úti sínum volduga flota. Svipað var að segja um önnur nýlenduveldi. Þegar millifærslur frá Frakklandi til nýlendna þess og frá nýlendunum til Frakklands voru virtar saman, námu útgjöld umfram tekjur um 0,3 af hundraði ríkisútgjalda. Þýska ríkið hélt nákvæmt bókhald um útgjöld og tekjur af nýlendunum, og reyndist vera verulegt tap af þeim, en verslun við þær var hverfandi hluti af heildarverslun Þýskalands. Eina skýra dæmið um, að gróði af nýlendu hafi líklega verið meiri en tap, er líklega belgíska Kongó, en stjórn þess verður seint talin til fyrirmyndar. Þar var um arðrán að ræða. Þetta er undantekningin, sem sannar regluna.
Niemietz vekur athygli á, að nokkur auðugustu ríki Evrópu áttu aldrei nýlendur, svo sem Noregur og Sviss. Hann hafnar því einnig, að þrælahald hafi borgað sig. Líklega voru einu jákvæðu áhrifin af því að þurfa ekki að greiða vinnulaun á plantekrum í Karíbahafi, að verð á sykri, tóbaki, kryddvöru, bómull og kaffi var lægra en ella. Verslun með þræla var ekki heldur mikilvægur þáttur í heildarverslun Breta og annarra þjóða. Niemietz gerir í bók sinni aðeins kostnaðar- og nytjagreiningu á þrælahaldi, svo að hann minnist ekki á þær þrjár umhugsunarverðu staðreyndir um það, að Arabar hófu það fyrr og hættu því síðar en vestrænar þjóðir, að Bretar beittu flota sínum hart á öndverðri nítjándu öld til að stöðva þrælaflutninga yfir Atlantshaf og að það voru aðallega afrískir héraðshöfðingjar, sem eltu uppi aðra Afríkumenn og seldu í þrældóm. Aðrir ættu því að vera með meira samviskubit sökum þrælahalds en venjulegir Vesturlandabúar.

Umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis

Annar ræðumaður er Ragnar Árnason, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, en hann nýturalþjóðlegrar viðurkenningar sem sérfræðingur um auðlindanýtingu. Er í næsta mánuði væntanlegt greinasafn eftir hann, Fish, Wealth, and Welfare, Fiskur, fé og farsæld, sem Almenna bókafélagið gefur út. Ragnar ætlar að segja frá tiltölulega nýjum skóla innan hagfræðinnar, _free market environmentalism,“ umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis. Frumforsenda þessa skóla er, að vernd krefjist verndara. Ef við viljum vernda gæði náttúrunnar, þá verðum við að finna þeim verndara. Hver er til dæmis skýringin á því, að fílar og nashyrningar í Afríku eru í útrýmingarhættu, en ekki sauðfé á Íslandi? Hún er, að sauðféð er í einkaeign, merkt og girt af. Eigendur þess gæta þess. Aristóteles benti einmitt á það forðum í gagnrýni sinni á sameignarboðskap Platóns, að það, sem allir eiga, hirðir enginn um. Einkaeignarréttur stuðlar að hagkvæmri nýtingu auðlinda og raunar líka mannlegra hæfileika. Fái menn ekki að uppskera sjálfir, þá hætta þeir að sá. Þessi hugsun birtist í þeirri íslensku alþýðuspeki, að sjaldan grói gras á almenningsgötu.
Tiltölulega einfalt er að mynda einkaeignarrétt á landi og kvikfénaði. Land er girt af og kvikfé merkt eigendum. En málið vandast, þegar margir nýta saman gæði. Eitt dæmi um það voru afréttirnar íslensku, sem sauðfé var beitt á að sumarlagi, en ekki borgaði sig að mynda á þeim einkaeignarrétt. Bændur í hverjum hrepp nýttu saman hverja afrétt. En þá varð til freistnivandi eða það, sem kallað hefur verið _samnýtingarbölið“ (tragedy of the commons). Hver bóndi freistaðist til að reka of margt fé á fjall á vorin, því að hann naut einn gróðans, en allir báru í sameiningu tapið. Þetta leystu fornmenn með hinni svokölluðu ítölu. Hver bóndi mátti aðeins _telja í“ afréttina tiltekinn fjölda sauðfjár. Og heildartala fjár í hverri afrétt var miðuð við það, að féð kæmi sem feitast af fjalli á haustin, eins og segir í Grágás.
Hliðstætt dæmi eru íslensku fiskimiðin. Á meðan aðgangur var ótakmarkaður að þessum takmörkuðu gæðum, freistaðist hver útgerðarmaður til að auka sóknina, því að hann hirti ávinninginn af aukningunni, en allir báru í sameiningu tapið, sem fólst í sífellt stærri fiskiskipaflota að eltast við sífellt minnkandi fiskistofna. Í rauninni varð sama lausn fyrir valinu á Íslandi og um grasnytjar að fornu, nema hvað í stað ítölu, sem fylgdi jörðum, kom kvóti, sem fylgdi skipum. Hver útgerðarmaður mátti aðeins veiða tiltekið hlutfall af leyfilegum heildarafla. Hann (eða hún) fékk aflaheimildir, kvóta, sem gekk kaupum og sölum, svo að þeir, sem veiddu með lægstum tilkostnaði og því mestum arði, gátu keypt út þá, sem síður voru fallnir til veiða. Þetta kerfi myndaðist fyrst í veiðum á uppsjávarfiski á áttunda áratug, en var síðan tekið upp í veiðum á botnfiski og varð heildstætt árið 1990. Er óhætt að segja, að vel hafi tekist til. Ólíkt öðrum þjóðum stunda Íslendingar sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar.
Við upphaflega úthlutun aflaheimilda eða kvóta var fylgt svokallaðri afareglu (grandfathering), þar sem miðað var við aflareynslu. Ef útgerðarmaður hafði veitt fimm af hundraði heildarafla í fiskistofni árin áður en kvóti var settur á, þá fékk hann (eða hún) fimm af hundraði aflaheimildanna í þeim fiskistofni. Þannig varð lágmarksröskun á hag útgerðarmanna, eftir að óhjákvæmilegt varð að takmarka aðgang að fiskimiðunum.

Frumkvöðlar í öndvegi

Þriðji ræðumaðurinn er Ely Lassman, sem er aðeins 27 ára að aldri. Hann brautskráðist fyrir einu ári í hagfræði frá Bristol-háskóla á Englandi. Hann er formaður Prometheus on Campus, en þau samtök leitast við að kynna boðskap skáldkonunnar Ayns Rands í háskólum. Hafa bækur hennar selst í þrjátíu milljónum eintaka og skírskota ekki síst til ungs fólks. Almenna bókafélagið hefur gefið út þrjár skáldsögur Rands, Kíru Argúnovu, Uppsprettunaog Undirstöðuna. Var Kíra Argúnova raunar framhaldssaga í Morgunblaðinu árið 1949. Rand flýði frá Rússlandi um miðjan þriðja áratug síðustu aldar, settist að í Bandaríkjunum og haslaði sér þar völl. Hún aðhylltist eindregna einstaklingshyggju og taldi skýjakljúfinn eitt af merkilegustu afrekum mannsandans.
Ayn Rand setti fram tvær frumlegar hugmyndir í skáldsögum sínum. Hin fyrri var, að kapítalisminn væri ekki andlaust kapphlaup um efnisleg gæði. Hetjur kapítalismans eða viðskiptaskipulagsins væru hins vegar ekki herforingjar á hvítum fákum eða mælskugarpar á torgum úti, heldur frumkvöðlar, iðnjöfrar, brautryðjendur, athafnamenn. Þeir lifa ekki sníkjulífi á náungum sínum, heldur skapa eitthvað nýtt, og aðrir njóta þess með þeim í frjálsum viðskiptum. Á meðan rithöfundarnir Halldór Guðjónsson frá Laxnesi og Þórbergur Þórðarson sátu á kaffihúsum við Aðalstræti og skröfuðu um, hvernig bæta mætti kjör íslenskrar alþýðu, sat Jón Þorláksson verkfræðingur á skrifstofu sinni í Bankastræti og lagði á ráðin um vegi og brýr, svo að fólk gæti komist leiðar sinnar fyrirhafnarlítið, teiknaði vatnsveitur, svo að það ætti aðgang að hreinu vatni, rafmagnsveitur, svo að það gæti kveikt ljós í vetrarmyrkrinu, og hitaveitur, svo að það gæti bægt frá sér vetrarkuldanum.
Seinni hugmyndin er í beinu framhaldi af hinni fyrri. Hún er sú spurning, hvað gerist, ef dugmesta fólkið gefst upp á að vinna fyrir aðra og finnur sér samastað, þar sem það getur notið eigin verka. Svarið er auðvitað, að þá hleypur óáran í þá, sem eftir sitja. Sífellt harðari átök verða um sífellt minni feng. Öll orkan fer í að skipta, engin í að skapa. Rand lýsir þessu eftirminnilega í Undirstöðunni, en mörg dæmi eru til um þetta í mannkynssögunni. Þau Ferdínand og Ísabella ráku gyðinga frá Spáni í lok fimmtándu aldar, en þeir höfðu staðið framarlega í vísindum, listum og atvinnulífi. Afleiðingin varð stöðnun. Á Kúbu flýði allt dugmesta fólkið eftir valdatöku kommúnista, tíu af hundraði landsmanna, og afleiðingin varð almenn fátækt. Ef til vill er Svíþjóð besta dæmið. Um miðja nítjándu öld náðu eindregnir frjálshyggjumenn þar völdum og juku stórlega atvinnufrelsi. Fjöldi frumkvöðla spratt upp. Næstu hundrað árin var hagvöxtur í Svíþjóð ör, og þjóðin varð ein hin ríkasta í heimi. En upp úr 1970 náðu róttæklingar völdum í sænska jafnaðarmannaflokknum, sem áður hafði verið tiltölulega hófsamur, skattbyrði þyngdist stórlega, vöxtur einkageirans stöðvaðist, og athafnamenn hrökkluðust úr landi, ekki síst til Sviss. En upp úr 1990 sáu Svíar að sér og hafa verið að feta varlega aftur brautina í átt til öflugra einkaframtaks.

Raddir ungs fólks

Fjórir aðrir ræðumenn eru á ráðstefnunni. Tahmineh Dehbozorgi er 26 ára laganemi, fædd í Íran, en flýði ásamt foreldrum sínum til Bandaríkjanna árið 2015 og hefur síðan verið virk í ýmsum frelsissamtökum. Hún ætlar að minna fundarmenn á gildi frelsisins. Ida Johansson er 22 ára sænskur frumkvöðull, sem hætti í skóla 18 ára og stofnaði fyrirtæki, sem hún seldi nýlega. Hún ætlar að ræða um kynslóðir og kaupmátt. Lovro og Marin Lesic eru tvítugir Króatar, stunda nám í fjármálafræði í Zagreb, hafa stofnað fjárfestinga- og nýsköpunarfélag og fengið verðlaun fyrir ýmsar hugmyndir sínar. Ætla þeir að segja frá reynslu sinni og vonum. Verður fróðlegt að hlusta á raddir þessa unga fólks. Anton Sveinn McKee, sem hefur fjórum sinnum keppt fyrir Ísland á Olympíuleikum, stjórnar ráðstefnunni, en henni er skipt í þrjár stuttar lotur, og stjórna þeim Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður, Frosti Logason hlaðvarpsstjóri og Haukur Ingi Jónsson, nemi í fjármálaverkfræði í Háskólanum í Reykjavík. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir nýsköpunarráðherra setur ráðstefnuna, en dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, mælir nokkur lokaorð.

(Grein í Morgunblaðinu 11. október 2024.)


Agra, september 2024

Í Indlandsferð í september 2024 skrapp ég til Agra, sem er um 230 km í suðaustur frá Nýju Delí. Hún var um skeið höfuðborg Múgal-keisaradæmisins, sem náði til mestalls Indlandsskaga. Þar skoðaði ég Taj Mahal, sem keisarinn Shah Jahan (1592–1666) reisti til minningar um eiginkonu sína. Þetta grafhýsi er með réttu talið eitt af fegurstu mannvirkjum heims, gert úr hvítum marmara og allt að því ójarðneskt, þokkafullt, svífur frekar en stendur. Enn fremur lagði ég leið mína í Agra-virkið, sem var feikistór keisarahöll, en sonur Shah Jahan hneppti hann í stofufangelsi þar, þótt sú bót væri í máli, að hann gat horft á grafhýsi eiginkonunnar úr íbúð sinni.
Í Agra-virki varð mér ljóst, hvílíkt stórveldi Indland var um 1700. Þá bjó þar um fimmtungur jarðarbúa, og landsframleiðslan nam um fjórðungi heimsframleiðslunnar. Þegar Indland varð sjálfstætt ríki árið 1947, nam landsframleiðslan hins vegar aðeins fjórum af hundraði heimsframleiðslunnar, en Indverjar voru þó enn um fimmtungur jarðarbúa. Hvað gerðist? Hvers vegna dróst Indland aftur úr? Marxistar svara því til, að Bretar hafi arðrænt Indland eins og borgarastétt hvers lands hafi arðrænt öreiga. Sá galli er á þeirri kenningu, að stöðnun atvinnulífsins hafði hafist þegar snemma á átjándu öld, áður en Bretar komu til sögu. Múgal-keisaradæmið hafði veikst stórlega og misst yfirráð yfir mörgum svæðum Indlandsskaga og innrásarherir látið greipar sópa. Togstreita hindúa og múslima olli líka búsifjum. Minnir sú saga talsvert á þrjátíu ára stríðið í Þýskalandi 1618–1648, sem tafði framfarir þar um hátt í tvær aldir.
Síðan náði Austur-Indíafélagið yfirráðum yfir víðáttumiklum svæðum Indlandsskaga, en Adam Smith benti réttilega á í Auðlegð þjóðanna, að það væri illa fallið til að fara með völd. Þegar Bretar tóku loks stjórn Indlands í sínar hendur árið 1858, var erfitt að snúa við blaðinu, auk þess sem nýlenduherrarnir voru stundum tómlátir um þetta mikla land.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. október 2024.)


Nýja Delí, september 2024

Það var einkennileg tilfinning að koma frá einu fámennasta landi jarðar til Indlands, sem nú er fjölmennasta ríki heims með nær 1,5 milljarð íbúa. Þar sat ég 22.–26. september í Nýju Delí ráðstefnu Mont Pelerin samtakanna, sem Friedrich von Hayek stofnaði árið 1947 sem alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna.
Indland hlaut sjálfstæði sama ár og samtökin voru stofnuð. Næstu 42 árin réð þar ein fjölskylda mestu, Jawaharlal Nehru, forsætisráðherra 1947–1964, dóttir hans, Indira Gandhi, forsætisráðherra 1966–1977 og 1980–1984, og sonur hennar, Rajiv Gandhi, forsætisráðherra 1984–1989. Þessi valdafjölskylda hafði hlotið menntun hjá breskum sósíalistum og reyndi að koma á sósíalisma á Indlandi. Afleiðingin varð stöðnun og fátækt. Haft var á orði, að „the British Raj“ hefði breyst í „the Licence Raj“, breskt vald í leyfisveitingavald. En árið 1991 gerbreyttu Indverjar um stefnu, opnuðu hagkerfið og stórjuku atvinnufrelsi. Árangurinn var ævintýralegur. Hagvöxtur á mann hafði verið innan við 2% að meðaltali fyrstu þrjá áratugina eftir sjálfstæði, en margfaldaðist nú, var til dæmis 9% árið 2021 og 7% árið 2022. Fátækt snarminnkaði, þótt enn sé hún tilfinnanleg.
Á ráðstefnunni í Nýju Delí bar einn fyrirlesarinn saman frammistöðu nokkurra ríkja, Filippseyja og Suður-Kóreu, Botsvana og Sambíu og Dómínikanska lýðveldisins og Níkaragúa, og var samanburðurinn undantekningarlaust atvinnufrelsinu í vil. Á meðan ég hlustaði á ræðu hans, velti ég því fyrir mér, hvort Bretar hefðu ekki gert mistök með því að veita ekki einstökum ríkjum Indlands, til dæmis furstadæmunum Hyderabad og Mysore, sjálfstæði árið 1947 í stað þess að afhenda hrokafullu háskólafólki öll yfirráð í einu risaríki. Þá hefði ef til vill orðið til samkeppni einstakra indverskra ríkja um skynsamlega hagstjórn. Hafi einhver við þetta að athuga, að úrelt sé að fela furstafjölskyldum völd, þá má benda á, að ein fjölskylda stjórnaði einmitt Indlandi í röska fjóra áratugi, þótt hún kenndi sig við alþýðuna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. september 2024.)


Dyflinn, september 2024

Samkvæmt Íslendingabók er ég 28. maður frá Melkorku Mýrkjartansdóttur hinni írsku og 31. maður frá Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, sem gift var norrænum herkonungi í Dyflinni á Írlandi, en hraktist til Íslands seint á níundu öld, eftir að maður hennar og sonur höfðu verið felldir. Það var því fróðlegt að koma til Dyflinnar, þar sem ég hélt fyrirlestur á málstofu 17. september 2024 ásamt Íslandsvininum Daniel Hannan, barón af Kingsclere.
Í fyrirlestri mínum rakti ég hina fornu germönsku sjálfstjórnarhefð, sem Tacitus lýsti fyrir tvö þúsund árum og Montesquieu taldi upphaf þrískiptingar ríkisvalds. Snorri Sturluson átti rætur í þessari hefð. Hann hafði samúð með tveimur forngermönskum hugmyndum, að valdhafar yrðu að lúta sömu lögum og þegnar þeirra og að svipta mætti þá völdum, brytu þeir lögin freklega. Seinna átti John Locke eftir að binda þessar hugmyndir í heimspekikerfi. Frjálshyggja hans og þeirra Davids Humes og Adams Smiths var í rauninni útlegging á þeirri stjórnmálahefð, sem myndast hafði á Stóra Bretlandi, ekki síst með byltingunni blóðlausu 1688, en hún var gerð til að treysta og færa út hefðbundin réttindi.
Franska byltingin 1789 var hins vegar tilraun til að umskapa allt þjóðlífið eftir kenningum rithöfunda, sem enga reynslu höfðu af mannaforráðum. Hún hlaut að enda illa. Þetta sá Edmund Burke, og í meðförum hans varð frjálshyggja þeirra Lockes, Humes og Smiths að frjálslyndri íhaldstefnu, sem þeir Alexis de Tocqueville og Friedrich von Hayek efldu síðar að rökum. Fyrir þeim voru aðalatriðin valddreifing, viðskiptafrelsi og einkaeignarréttur. Hin kvísl frjálshyggjunnar varð frjálslyndisstefna þeirra Tómasar Paines, Johns Stuarts Mills, Johns Maynards Keynes og Bertils Ohlins, en hún einkennist af víðsýni, rómantískri einstaklinghyggju og örlæti á almannafé.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. september 2024.)


Hæfi Róberts Spanó

Þögnin getur verið merkileg heimild. Vorið 2009 gerði Sigríður Benediktsdóttir í Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu sig vanhæfa með gáleysislegum ummælum í bandarísku stúdentablaði. Aðrir nefndarmenn báðu hana að víkja, en hún neitaði. Þeir gáfust upp og breyttu niðurstöðu sinni með fráleitum rökum. Róbert Spanó þagði.

Nokkru eftir að naumur meiri hluti Alþingis ákvað haustið 2010 að höfða mál gegn Geir H. Haarde fyrir Landsdómi, settist Eiríkur Tómasson í dóminn. Hann hafði ekki aðeins verið stjórnmálaandstæðingur Geirs, heldur líka haldið því fram opinberlega, að neyðarlögin 2008, sem Geir bar fram,  væru hreinn stuldur frá reikningseigendum í peningamálasjóðum, en þar geymdi hann fé samtaka, sem hann stjórnaði. Spanó þagði.

Eiríkur hafði einnig skrifað grein á visir.is þar sem hann kenndi ríkisstjórn Geirs H. Haarde beinlínis um bankahrunið, en sú grein hvarf skyndilega eftir stuttan tíma. Spanó þagði. Hann veitti hins vegar þingmönnum vinstri flokka aðstoð við undirbúning málsins gegn Geir.

Nú ryðst Spanó skyndilega fram og telur auðheyrilega hafa verið rétt að áminna vararíkissaksóknara fyrir ýmis óvarleg ummæli opinberlega og síðan leysa hann tímabundið frá störfum. Sjálfur tel ég hafa verið rétt að vanda um við vararíkissaksóknara fyrir ummælin og leggja fyrir hann að fara embættis síns vegna gætilega, en láta þar við sitja.

Það breytir því ekki, að óþjóðalýður reynir nú að þagga niður í mönnum. Stendur hann að kærunni á hendur vararíkissaksóknara. Einn úr hópnum réðst á utanríkisráðherra á fundi í Háskólanum, annar reyndi að stökkva af áheyrendapöllum Alþingis niður í fundarsalinn, og þessi lýður hefur hvað eftir annað truflað starfsfrið þingsins. Leiðtogi hans er hin hálftyrkneska Sema Serderoglu, en þegar Spanó starfaði í Strassborg, spókaði hann sig með hinum illræmda Erdogan Tyrklandsforseta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. september 2024.)


Horft út um glugga

Hressingarskálinn var lengi eitt vinsælasta kaffihúsið í miðbæ Reykjavíkur, eins og ég hef hér vikið að áður. Höfðu gestir gaman af að horfa út á Austurstræti, þar sem margt var um að vera. Eitt sinn á fimmta áratug síðustu aldar sátu skáldin Tómas Guðmundsson og séra Sigurður Einarsson í Holti saman á Hressingarskálanum, og sáu þeir gamlan bekkjarbróður sinn úr menntaskóla, Halldór Kiljan Laxness, stika fram hjá. Þá varð Sigurði að orði: „Hugsaðu þér, Tómas, hvað hefði getað orðið úr okkur, ef við hefðum haft dugnaðinn hans Halldórs!“ Liggja þó eftir þá báða hin ágætustu kvæði.
Einn fastagesturinn á Hressingarskálanum var Haraldur Hamar Thorsteinsson, sonur Steingríms skálds. Hann var óreglumaður og fékkst við lítið annað en setu á kaffihúsum. Um hann sagði annar fastagestur, Agnar Þórðarson rithöfundur: „Hann var að sjá eins og ævisaga, þar sem allar síðurnar eru auðar.“
Einhverju sinni snemma á níunda áratug síðustu aldar sátu þeir Bergur Pálsson stjórnarráðsfulltrúi og Ásgeir Hannes Eiríksson pylsusali að skrafi á Hressingarskálanum, og sáu þeir Magnús Torfa Ólafsson, þá blaðafulltrúa ríkisstjórnarinnar, skálma fram hjá. Sagði þá Bergur: „Hvaða læti eru þetta í honum Magnúsi? Hefur hann ekki ennþá áttað sig á því, að hann er kominn í vinnu hjá hinu opinbera?“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. september 2024.)


Nauðsynleg upprifjun

Stuðningsmenn Dags B. Eggertssonar rjúka upp eins og nöðrur, ef á það er minnst, að hann lét greiða sér tíu ára uppsafnað orlof, um tíu milljónir króna, við nýleg starfslok sem borgarstjóri. Þegar ég birti á Snjáldru (Facebook) afrit af pistli mínum um málið, hvæsti þar bróðir Dags, Gauti B. Eggertsson: „Kannski þú gefir þér tíma til ad útskýra hvernig Davíð Oddson [svo] tekst at [svo] kreista út 4 milljónum [svo] í hverjum einasta mánuði m.a. 2 milljónir á mánuð fyrir að hafa gegnt stöðu forætisráðherra [svo], sérsniðið ákvæði fyrir hann, byggt á eigin eftirlaunalögum sem voru svo gróf að ég veit ekki betur en þau hafi verið felld úr gildi en voru þó ekki afturvirk. Svo er spurning hvernig honum hafi tekist að kreista út hinar tvær milljónirnar.“ Hann bætti við: „Etv vill fyrir að setja seðlabankann á hausinn?“
Ég svaraði því til, að Davíð Oddsson hefði ekki verið upphafsmaður eftirlaunafrumvarpsins, og sagði síðan: „Seðlabankinn varð aldrei gjaldþrota. Stofnanir verða gjaldþrota, þegar þær geta ekki lengur staðið við skuldbindingar sínar og eru gerðar upp. Hvenær varð það? Aldrei. En auðvitað tapaði Seðlabankinn verulegu fé á því að reyna að halda bankakerfinu gangandi, áður en það hrundi. Hann lánaði gegn veikum veðum (m. a. ástarbréfum), þótt hann setti að vísu strangari reglur (aðeins lánað gegn skráðum bréfum) en flestir aðrir seðlabankar. Seðlabankinn, sem þú starfaðir hjá, Seðlabankinn í New York, lánaði gegn miklu lakari veðum, jafnvel ruslbréfum og hlutabréfum, eins og tókst að upplýsa eftir mikinn málarekstur fyrir bandarískum dómstólum. Og auðvitað tapaði Seðlabankinn íslenski miklu á því, að stjórnvöld fóru að því ráði hans (í frumvarpinu, sem smíðað var í Seðlabankanum, ekki síst með aðstoð Ragnars Önundarsonar) að gera innstæður að forgangskröfum á banka, sem fól í sér, að kröfur Seðlabankans á banka voru settar aftur fyrir.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. ágúst 2024.)


Dagur í orlofi

Sumt getur verið löglegt, en siðlaust, til dæmis þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lét við starfslok á dögunum greiða sér tíu milljónir í uppsafnað orlof, en hann nýtur áfram fullra launa sem borgarfulltrúi og formaður borgarráðs. Sumir opinberir starfsmenn hafa látið greiða sér slíkt uppsafnað orlof, en aðrir ekki. Hafa reglur um þetta nú víða verið hertar og starfsmönnum ekki leyft að safna upp orlofi í stað þess að nýta það. Skýtur skökku við, að Dagur skuli ekki hafa nýtt sér orlof, úr því að hann upplýsti sumarið 1918, að hann hefði greinst með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm, sem skerti hreyfigetu og halda yrði niðri með sterkum lyfjum.   
Ólíkt hafast valdsmenn að. Þegar Davíð Oddsson lét af starfi borgarstjóra sumarið 1991, átti hann rétt á biðlaunum í sex mánuði óháð því, hvað hann tæki sér þá fyrir hendur. Hann ákvað að þiggja þau ekki, enda tók hann strax við stöðu forsætisráðherra. Sverrir Hermannsson, sem fór vorið 1988 beint af þingi í bankastjórastarf, heimtaði hins vegar biðlaun sem þingmaður. Var málið þá skoðað sérstaklega og komist að þeirri niðurstöðu, að skylt væri að greiða Sverri launin, úr því að hann færi fram á það. Enn fremur má nefna, að á ríkisstjórnarárum Davíðs og raunar fyrr og síðar gátu makar ráðherra fengið hálfa dagpeninga ráðherra, þegar þeir fóru með þeim í utanlandsferðir. Var það sumum ráðherrahjónum drjúg tekjulind. Ástríður Thorarensen, eiginkona Davíðs, þáði hins vegar ekki dagpeninga í slíkum ferðum.
Þegar Davíð var flæmdur úr Seðlabankanum í ársbyrjun 2009, var ráðinn norskur maður í stöðu seðlabankastjóra þrátt fyrir skýr ákvæði stjórnarskrárinnar um, að embættismenn skyldu vera íslenskir ríkisborgarar, enda eiga þeir að gæta mikilvægra hagsmuna Íslands gagnvart útlendingum. (Rifja má upp, að árið 1262 höfðu Íslendingar skilið það til í samningum við Noregskonung, að embættismenn skyldu íslenskir vera.) En Davíð hafði verið ráðinn seðlabankastjóri haustið 2005 til sjö ára, svo að hann átti eftir rösk þrjú ár af ráðningartíma sínum. Átti hann tvímælalaust rétt á fullum launum allt þetta tímabil, en kaus að krefjast þeirra ekki.
Ef til vill er líka kominn tími til að segja sannleikann um eftirlaunafrumvarpið umdeilda.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. ágúst 2024.)


« Fyrri síða

Bloggfærslur 27. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband