Tveir fróðlegir fundir

Þegar rætt er um ábyrgð ráðamanna á bankahruninu 2008, skipta tvær spurningar mestu máli: Hvað gátu þeir vitað? Hvað gátu þeir gert? Seinni spurningunni er auðsvarað: Lítið sem ekkert. Þeir urðu aðeins að bíða og vona. Fyrri spurningin er flóknari. Auðvitað vissu helstu ráðamenn, að íslenska bankakerfið var þegar í árslok 2005 orðið svo stórt, að Seðlabankanum og ríkissjóði var orðið um megn óstuddum að aðstoða það í hugsanlegri lausafjárkreppu. Rannsóknarnefnd Alþingis, sem skilaði langri skýrslu í apríl 2010, gerir að aðalatriði þrjá fundi, sem seðlabankastjórar héldu með ráðherrum árið 2008, í febrúar, apríl og maí, þar sem þeir vöruðu við því, að bankarnir ættu við mikla erfiðleika að etja. Sakar nefndin ráðherrana um að hafa vanrækt að bregðast við. En í bók minni um landsdómsmálið bendi ég á tvo aðra fundi, sem eru ekki síður fróðlegir, en rannsóknarnefndin virtist ekki vita af.

Hinn 26. september 2007 sat Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hádegisverðarfund með seðlabankastjórum og forsætisráðherra í Þjóðmenningarhúsinu. Davíð Oddsson hafði þá orð á því, að lausafjárkreppa væri skollin á, og gæti íslenska bankakerfið hrunið. Þorgerður andmælti. En mánuði síðar hófu hún og eiginmaður hennar, einn af yfirmönnum Kaupþings, að reyna að færa nilljarðaskuldbindingar sínar í bankanum yfir í einkahlutafélag, og tókst það loks í febrúar 2008. Sluppu þau þannig við gjaldþrot.

Í janúarlok 2008 sat Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fund með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni og Sigurði G. Guðjónssyni, forráðamönnum Glitnis, og var erindi þeirra að segja, að vandi bankanna væri ekki bundinn við Glitni, sem hafði þá nýlega farið í misheppnað lánsútboð í Bandaríkjunum. Kaupþing væri líka illa statt. Engu að síður afgreiddi Ingibjörg Sólrún varnaðarorð Davíðs á fundi með henni og öðrum ráðherrum 7. febrúar 2008 sem „útaustur eins manns“. Fann hún sérstaklega að því, að Davíð hefði talið Glitni og Kaupþing standa verr en Landsbankann.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. janúar 2023.)


In dubio, pars mitior est sequenda

Eitt merkasta og mikilvægasta lögmál réttarríkisins er In dubio, pars mitior est sequenda, um vafamál skal velja mildari kostinn. Þetta lögmál braut meiri hluti landsdóms árið 2012, þegar hann sakfelldi Geir H. Haarde fyrir að hafa vanrækt skyldu sína samkvæmt stjórnarskrá til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Minni hlutinn, þar á meðal hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Benedikt Bogason, benti á, að ákvæðið um ráðherrafundina átti uppruna sinn í því, að Ísland var konungsríki 1918–1944. Fór forsætisráðherra tvisvar á ári til Kaupmannahafnar til að halda ríkisráðsfundi með konungi og bar þar upp þau mál, sem konungur skyldi staðfesta. Bar hann ekki aðeins upp sín eigin mál, heldur líka mál annarra ráðherra fyrir þeirra hönd. Þess vegna varð að tryggja, að þeir hefðu tekið þátt í afgreiðslu þeirra mála. Kemur raunar skýrt fram í athugasemdum við stjórnarskrárfrumvarpið, sem samþykkt var 1920, að með mikilvægum stjórnarmálefnum var átt við þau mál, sem bera skyldi upp í ríkisráði. Ekkert sambærilegt ákvæði er heldur í dönsku stjórnarskránni. Eftir lýðveldisstofnunina var litið svo á, að með mikilvægum stjórnarmálefnum væri átt við þau mál, sem atbeina þjóðhöfðingjans þurfti til.

Meiri hluti landsdóms vildi hins vegar skapa úr þessu þrönga ákvæði víðtæka skyldu forsætisráðherra til að halda árið 2008 ráðherrafund um yfirvofandi bankahrun, sem hann hefði vanrækt, og sakfelldi hann ráðherrann fyrir þessa vanrækslu, þótt honum væri ekki gerð nein refsing. En fullkominn vafi leikur á því, að túlkun meiri hlutans sé rétt og hvenær ákvæðið ætti að hafa breytt um merkingu, frá því að það var sett. Geir var ekki látinn njóta þessa vafa.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. janúar 2023.)


« Fyrri síða

Bloggfærslur 19. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband