Afstaða mín til innflytjenda

Ég hef margsinnis látið í ljós skoðanir mínar á innflytjendamálum, svo að ekkert ætti að fara þar á milli mála. En ég get endurtekið það enn einu sinni, svo að menn leggi mér ekki eitthvað í munn. Hið mikla lögmál mannlífsins er gagnkvæmnin. Ef við Íslendingar viljum vera velkomin annars staðar, þá verður annað fólk auðvitað að vera velkomið á Íslandi. Við stundum nám og störf annars staðar, og fólk frá öðrum stöðum verður að sama skapi að fá að stunda hér nám og störf. Frjáls flutningur fólks, fjármagns og vöru stuðlar að framförum, eins og Adam Smith benti á með skýrum rökum. Við gerðum til dæmis mikil mistök með því að fá ekki fleiri gyðinga til landsins fyrir seinna stríð. Þetta er mikið hæfileikafólk. Sjálfur lagði ég til, þegar Hong Kong-búar uggðu um sinn hag fyrir 1997, er Bretastjórn afhenti Kínastjórn landið, að við myndum bjóða þá velkomna þúsundum saman (eins og Kanadamenn gerðu raunar): Það hefði verið búbót að því dugnaðarfólki.

En ég tel ekki meiri ástæðu til að opna landið upp á gátt fyrir öllum en að skilja húsið mitt eftir ólæst. Útlendingar eru misjafnir, og við höfum í okkar friðsæla landi ekkert að gera við þrjá hópa. Einn er sá, sem ekki nennir að vinna. Félagsleg aðstoð við fullhraust fólk er ætíð óskynsamleg, en félagsleg aðstoð við fullhrausta útlendinga, sem við höfum engar skyldur við aðrar en að láta þá í friði, er óafsakanleg. Annar hópur er sá, sem fremur glæpi, og þarf vitanlega ekki að hafa fleiri orð um það. Þriðji hópurinn er sá, sem reynir að troða siðum sínum upp á okkur. Auðvitað mega íbúar af taílenskum ættum halda hér vorhátíð eins og við megum halda þorrablót í Taílandi. En fráleitt er, þegar íslenskir skólar treysta sér ekki lengur til að hafa svínakjöt á boðstólum, af því að múslimar fúlsa við því. Þeir eru ekki enn húsráðendur hér. Hið sama er að segja, ef múslimar sýna réttindum kvenna ekki sömu virðingu og við íslenskir karlar höfum vanist. Ekki verður við það unað.

Hægri flokkar í Evrópu hafa daufheyrst við þessum eðlilegu sjónarmiðum, og þess vegna hefur gremja margra borgara runnið í óæskilegan farveg, eins og kosningaúrslit í Svíþjóð og skoðanakannanir í Englandi sýna. Útlendingahatur er af hinu illu. „Útlendum manni skalt þú eigi sýna ójöfnuð né veita honum ágang, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi,“ segir í helgri bók. En við getum virt okkar þjóð án þess að óvirða aðrar þjóðir. Og við virðum hana ekki með því að kikna í hnjáliðum, þegar útlent mál er talað. Mistök Norðurlandaþjóðanna og Hollendinga í innflytjendamálum og allt of hröðum Evrópusamruna eru víti til varnaðar.


Skjól eða gildra?

Einn samkennari minn, dr. Baldur Þórhallsson prófessor, sem er sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum, hefur í röð ritgerða í virtum, erlendum tímaritum sett fram þá kenningu, að smáríki eins og Ísland þurfi skjól. Þess vegna hafi verið rökrétt að semja við Noregskonung um slíkt skjól 1262. Þessi kenning hans er síður en svo fráleit. Smáríki þurfa skjól, eins og kom fram í bankahruninu 2008, þegar Bandaríkin veittu okkur ekki lið, eins og þau höfðu gert í þorskastríðunum á 20. öld. En þegar menn skríða í skjól, geta þeir lent í gildru. Þetta gerðist einmitt á Íslandi, eins og prófessorarnir dr. Þráinn Eggertsson hagfræðingur og dr. Gísli Gunnarsson sagnfræðingur hafa sýnt fram á. Ein ritgerð Þráins um þetta er stórmerk, en hún birtist í bókinni Háskalegum hagkerfum. Hún er um þá einföldu spurningu, hvers vegna Íslendingar hafi soltið í mörg hundruð ár, þótt gnótt sjávarfangs væri skammt undan. Svarið er, að fámenn stétt landeigenda og hinn fjarlægi konungur, sem lengst sat í Kaupmannahöfn (en norska konungsættin mægðist við hina dönsku 1380), sameinuðust um, að landbúnaður skyldi vera eini löglegi atvinnuvegurinn, þótt landið væri harðbýlt og sjávarútvegur miklu arðbærari.

Þráinn benti á, að tæknin til fiskveiða var til. Hingað sigldu stór fiskiskip frá Englandi og jafnvel Spáni. En hvers vegna urðu fiskveiðar þá fullkomin aukageta á Íslandi öldum saman og aðeins stundaðar á opnum árabátum? Hvers vegna var útlendingum bönnuð hér veturseta og öllum gert að skrá sig á lögbýli? Landeigendur gerðu þetta til þess að missa ekki vinnuaflið að sjávarsíðunni og valdið yfir þróuninni. Þótt konungur tapaði einhverjum skatttekjum á því, að þegnar hans yrðu fátækari en ella, hélt hann landinu, en óttaðist ella, að það gengi undan honum, eins og það hafði næstum því gert á „ensku öldinni“ frá því um 1415 fram til loka fimmtándu aldar. Konungur vildi frekar litlar skatttekjur en engar. Afleiðingin var, að Íslendingar, sem höfðu skriðið í skjól, festust í fátæktargildru, sem þeir losnuðu ekki út úr fyrr en á nítjándu öld. Einn möguleiki er því að reyna að breyta og auka kenningu Baldurs: Smáríki þurfa skjól, en aðallega viðskiptafrelsi og varnarsamstarf.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. september 2014.)


Bloggfærslur 26. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband