Fyrirlestrar í Gautaborg

Ég flyt þrjá fyrirlestra á ráðstefnu norrænna stjórnmálafræðinga í Gautaborg 12.–15. ágúst. Einn fyrirlesturinn er um, hvort íslenska velferðarríkið sé í eðli sínu engilsaxneskt eða norrænt. Ég er að vísu sammála þeim Konráð Gíslasyni og Jónasi Hallgrímssyni um, að orðið „velferð“ er dönskulegt. Orðið „farsæld“ er íslenskulegra. En líklega verður úr þessu litlu um það þokað. Niðurstaðan í fyrirlestrinum er, að íslenska velferðarríkið sé hvorki engilsaxneskt né norrænt, heldur séríslenskt. Skattar eru hærri og bætur rausnarlegri en í engilsaxneskum löndum, til dæmis Bretlandi og Bandaríkjunum. Skattar eru hins vegar lægri en á öðrum Norðurlöndum, jafnframt því sem bætur takmarkast vegna tekjutengingar aðallega við þá, sem þurfa á þeim að halda. Til dæmis eru barnabætur óháðar tekjum í Svíþjóð ólíkt Íslandi. Þar brugðu jafnaðarmenn á það ráð upp úr miðri 20. öld að veita öllum bótarétt til þess að auka stuðning við velferðarríkið. Allir greiða til velferðarríkisins, og allir þiggja af því, þótt féð rýrni vitanlega talsvert í meðförum ríkisins: Hrói höttur heimtar sitt. Allir halda, að þeir séu að græða, þótt flestir séu að tapa.

Annar fyrirlesturinn er um Icesave-deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga 2008–2013, og minnist ég í því sambandi á hinar frægu samræður Aþeninga við Meleyinga, íbúa eynnar Melos, árið 416 f. Kr. í Pelopsskagastríðinu, en þær færði gríski sagnritarinn Þúkídídes í letur (eða samdi jafnvel). Kröfðust Aþeningar þess, að Meleyingar lytu þeim. „Enda var yður fullkunnugt eigi síður en oss, að sá ríkari hlýtur að ráða, en réttlæti manna á meðal þar aðeins er jafningjar eigast við,“ sögðu Aþeningar. Niðurstaðan í fyrirlestrinum er, að við Íslendingar séum eins og á miðöldum vinafá og vanmegna, þótt við eigum að bera höfuðið hátt. Við skulum vona, að Guð sé ekki hliðhollur fjölmennustu hersveitunum, heldur bestu skyttunum, eins og Voltaire orðaði það.

Þriðji fyrirlesturinn er um það, hvers vegna Ísland var skilið eftir úti á köldum klaka í miðri fjármálakreppunni 2008. Það mál er ég að rannsaka, eins og frægt er orðið. Þar er enn sem komið er meira um spurningar en svör.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. ágúst 2014.)


Nordal í stríðsbyrjun

Sigurður Nordal prófessor var eitt sinn spurður, hver væru ógleymanlegustu tímamót í lífi hans. Hann svaraði, að þau hefðu verið sumarið 1914, þegar hann bjó í Kaupmannahöfn. Þetta sumar var óvenjuheitt og rakt. Á kvöldin var svalara. Sigurður fór laugardagskvöldið 1. ágúst 1914 í heimsókn til kunningja sinna úti í Valby og gekk heim og naut næturloftsins. Þegar hann var kominn langt niður á Vesturgötu, að hliðinu inn í Tívolí, rak hann augun í skæðadrífu af blöðum, sem þar lágu. Þetta var fregnmiði frá Politiken: „Tyskland har erklært Rusland Krig.“ Þýskaland hefur lýst yfir stríði á hendur Rússaveldi. Sigurður varð agndofa, en gekk eins og í leiðslu heim til sín í Gautagötu. Hann vissi með sjálfum sér, að sá heimur, sem hann var alinn upp í og hafði búist við að lifa í, var orðinn allur annar.

„Engum kemur til hugar að neita því, að margt hafi skort á frelsi, jafnrétti og bræðralag í veröldinni milli 1815 og 1914. En hver getur borið brigður á hitt, að þetta hafi verið skeið mikilla framfara og vaxandi hagsældar?“ skrifaði Sigurður. „Norðurálfan færðist nær og nær því að verða ein samgöngu- viðskipta- og menningarheild. Allir gátu farið frjálsir ferða sinna land úr landi, og gengi myntarinnar í ýmsum ríkjum var skráð í landafræðinni, en ekki dagblöðunum. Fyrstu skiptin, sem eg kom til Edinborgar, var hægt að skipta hinum óinnleysanlegu seðlum Landsbankans umsvifa- og áfallalaust fyrir glóandi gullpeninga.“

Sigurður hélt áfram: „Og ef á allt er litið og þrátt fyrir gamlar og nýjar meinsemdir, var flest að þokast í áttina, líka virðingin fyrir réttindum þjóða, stétta og einstaklinga. Það gerðist að vísu fremur í sporum en stökkum. En flestum fannst þeir lifa í batnandi heimi, trúðu á sífelldar og órjúfanlegar framfarir á öllum sviðum.“

Við héldum eftir hrun Berlínarmúrsins fyrir tuttugu og fimm árum, að við værum að snúa aftur til tímabils hinnar friðsamlegu þróunar og útfærslu alþjóðaviðskipta, sem Sigurður Nordal lýsti. En er það rétt? Lauk haustið 1989 þeirri öld öfganna, sem hófst sumarið 1914?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. ágúst 2014.)


Bloggfærslur 20. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband