19.9.2014 | 14:33
Habsborgarar
Menntavegurinn nýiliggur frá mannkyninuum þjóðirnarinn í dýraríkið.
Dr. Otto von Habsburg, elsti sonur síðasta keisara ættarinnar, var félagi í Mont Pelerin-samtökunum, alþjóðlegum samtökum frjálslyndra fræðimanna, og hitti ég hann á þeim vettvangi, til dæmis í München haustið 1990. Hann var höfðinglegur á velli og virðulegur í framkomu, en leit þó helst út eins og menntamaður. Mér heyrðist hann hafa mestan áhuga á hag Ungverjalands, en þar voru Habsborgarar konungar frá gamalli tíð. Dr. Habsburg sat lengi á Evrópuþinginu og beitti sér fyrir því, að þingið lýsti þegar árið 1983 yfir stuðningi við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, sem voru þá hernumin lönd. Gramdist Kremlverjum mjög hin svokallaða Habsburg-yfirlýsing.
Síðan vildi svo til, að í ferð um Suður-Ameríku haustið 1998 gisti ég hjá systur vinkonu minnar í Góðviðru, eins og Konráð Gíslason vildi kalla Buenos Aires. Tók ég eftir því, að margar fágætar bækur um Habsborgarættina voru þar í stofu. Ég spurði, hverju það sætti, og þær systur sögðu mér, að kona Frans Ferdinands ríkisarfa, sem var myrt með honum, Sophie Chotek, hertogafrú af Hohenberg, hefði verið ömmusystir þeirra. Hún var af gömlum aðalsættum í Bæheimi, en frændi hennar, faðir systranna, hafði flust allslaus til Argentínu eftir fyrra stríð og komið þar undir sig fótum á ný. Margar örlagasögur má segja frá tuttugustu öld, ekki síst eftir að Habsborgarveldið hrundi í fyrra stríði.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júlí 2014.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook
19.9.2014 | 08:02
Friðarverðlaun Nóbels
Fyrir skömmu var ég á ráðstefnu í Prag. Þar var Mústafa Dzhemílev, leiðtogi Krím-Tatara, sæmdur verðlaunum Evrópuvettvangs um minningu og samvisku, en hann hafnar ofbeldi í baráttunni fyrir réttindum þjóðar sinnar, sem Kremlverjar kúga. Dzhemílev hefur tvisvar verið tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels, sem nefnd á vegum norska Stórþingsins velur. Ekki er þar á vísan að róa, því að val norsku nefndarinnar hefur oft verið stórfurðulegt.
Árið 1973 fékk Le Duc Tho, aðalfulltrúi Norður-Víetnams í samningum um vopnahlé í Víetnam, verðlaunin ásamt aðalsamningamanni Bandaríkjanna. Tho tók að vísu ekki við þeim, enda rauf ríki hans samninginn, sem það hafði gert við Bandaríkin, og lagði Suður-Víetnam undir sig 1975. Tho átti síðar þátt í innrás Víetnam-hers í Kambódíu. Hann var ekkert annað en gamall, grimmur kommúnisti.
Árið 1990 hlaut Míkhaíl Gorbatsjov, leiðtogi einræðisstjórnar Ráðstjórnarríkjanna, verðlaunin. Á meðan hann tók við þeim í Osló, voru rússneskar öryggissveitir önnum kafnar við að handtaka og pynta andófsmenn í Eystrasaltsríkjunum, sem Stalín hafði lagt undir sig eftir samning við Hitler síðsumars 1939. Gorbatsjov ætlaði aldrei að veita þjóðum Ráðstjórnarríkjanna fullt frelsi, en missti vald á atburðarásinni.
Árið 1992 fékk Rigoberta Menchú verðlaunin. Hún hafði gerst talsmaður kúgaðra indjána í Guatemala og skrifað ævisögu, sem kom út 1983. Þar lýsti hún erfiðu hlutskipti sínu og fjölskyldu sinnar og voðaverkum hersins í Guatemala. En bandaríski mannfræðingurinn David Stoll rannsakaði feril hennar og komst að því, að hún hafði spunnið margt upp.
Ein skrýtnasta verðlaunaveitingin var þó 2009, þegar nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Barack Hussein Obama, æðsti yfirmaður voldugasta herafla heims, hlaut verðlaunin. Hann virtist ekki fá þau fyrir neitt það, sem hann hafði gert eða látið ógert, heldur aðeins fyrir það, hver hann var, fyrsti þeldökki maður til að verða forseti Bandaríkjanna. Engum kom sennilega verðlaunaveitingin eins á óvart og honum sjálfum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. júlí 2014.)