Áttum við að stofna lýðveldi?

Hinn 17. júní 2014 var haldið upp á sjötíu ára afmæli lýðveldisins. Þrjú merkilegustu ártöl stjórnmálasögunnar á 20. öld voru eflaust 1904, þegar við fengum heimastjórn, 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki, og 1944, þegar lýðveldi var stofnað. Rök hníga þó að því, að mestu tímamótin hafi verið í raun árið 1918. Þá varð í fyrsta skipti til íslenskt ríki. Áður hafði Ísland verið hjálenda Danmerkur án skýrrar réttarstöðu. Örar framfarir í íslensku atvinnulífi í upphafi 20. aldar, aðallega í sjávarútvegi, sannfærðu Dani um, að óhætt væri að veita þessari undarlegu og heimtufreku eyþjóð langt úti í hafi fullveldi, auk þess sem þeir höfðu hagsmuni af því vegna vonarpenings í Norður-Slésvík að sjást virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða.

Ísland var sjálfstætt konungsríki frá 1918 í konungssambandi við Danmörku, en til bráðabirgða fóru Danir með utanríkismál og sinntu landhelgisgæslu. Frá öndverðu var gengið að því vísu, að Íslendingar tækju með tímanum í sínar hendur utanríkismál og landhelgisgæslu, en mörgum þóttu Danir gæta hagsmuna þjóðarinnar á Íslandsmiðum slælega. Þeir höfðu gert vondan samning við Breta árið 1901 til fimmtíu ára um þriggja mílna landhelgi og voru svo værukærir við landhelgisgæslu, að orð úr dagbók dansks varðskips voru höfð í flimtingum: „Stille i Havnen, Storm udenfor.“ Logn í höfn, stormur á sjó. Þegar horft er um öxl, má þó segja, að Íslendingar hafi verið heppnir með sína yfirboðara miðað við margar aðrar þjóðir. Eftir miðja nítjándu öld vildu Danir okkur vel, en gátu auðvitað ekki gætt hagsmuna okkar af sömu þekkingu og áhuga og við sjálf.

Því má velta fyrir sér, hvers vegna Íslendingar fóru ekki sömu leið og íbúar Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálands, sem fengu fullt sjálfstæði, en kusu að slíta ekki konungssambandi við gamla heimalandið. Hvers vegna héldum við ekki í kóng, sem hefði sótt Ísland heim einu sinni á ári, haft sér við hlið drottningu í íslenskum skautbúningi, haldið fyrirfólki kvöldverð og hengt heiðursmerki á grandvara embættismenn og hetjur úr héraði? Sennilega eru tvær skýringar á því. Tengsl Íslands og Danmerkur voru þrátt fyrir allt ekki eins náin og þessara þriggja konungsríkja og Bretlands. Í öðru lagi áttu Danir og Íslendingar ekki samleið í stríðinu. En nú standa Færeyingar frammi fyrir svipuðu úrlausnarefni og Íslendingar. Margir þeirra vilja fullt sjálfstæði. En þurfa þeir að stofna lýðveldi?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. júní 2014.)


Gleymd þjóð

Fimmtudaginn 12. júní 2014 hlaut Mustafa Dzhemílev, talsmaður Krím-tatara, verðlaun Evrópuvettvangs minningar og samvisku í Kampa-listasafninu í Prag að mér viðstöddum, en íslenskt rannsóknarsetur, sem ég veiti fræðilega forstöðu, er aðili að Evrópuvettvangnum. Verðlaunin hlaut Dzhemílev fyrir þrotlausa viðleitni til að rétta hlut Krím-tatara. Þjóð hans er tyrknesk að uppruna og myndaðist á 15.–18. öld í múslimaríki á Krímskaga, sem var skattland Tyrkjasoldáns. Talar hún tyrkneska tungu. Rússakeisari hertók Krímskaga 1783, og flýðu margir tatarar þá til Tyrkjaveldis. Eftir valdarán kommúnista í Rússlandi 1917 sættu tatarar ofsóknum, og er talið, að um helmingur þeirra hafi fallið eða verið fluttur burt árin 1917–1933.

Eftir stríð voru Krím-tatarar sakaðir um að hafa unnið með þýska hernámsliðinu og allir fluttir burt, yfir 200 þúsund manns, samkvæmt skipun Stalíns 18. maí 1944, ýmist í þrælkunarbúðir eða til landbúnaðarstarfa á gresjum Úzbekístans. Ráðstjórnin í Moskvu viðurkenndi opinberlega 1967, að sakir á hendur Krím-tatörum væru tilhæfulausar, og eftir það hafa þeir smám saman snúið aftur til heimahaganna, og búa þar nú alls um 250 þúsund manns. Hefur þeim gengið erfiðlega að fá aftur jarðir þær, sem teknar voru af þeim við herleiðinguna.

Mustafa Dzhemílev (Cemilev á tungu feðra sinna) fæddist á Krím 1943, ári fyrir herleiðinguna, og ólst upp í Úsbekistan. Hann hóf ungur baráttu fyrir réttindum tatara og var sex sinnum handtekinn á dögum kommúnistastjórnarinnar í Ráðstjórnarríkjunum. Fór hann eitt sinn í langt hungurverkfall. Morgunblaðið minntist nokkrum sinnum á Dzhemílev árin 1976–1986, og í leiðara Morgunblaðsins 26. ágúst 1987 sagði: „Tatarar í Sovétríkjunum eiga fullan rétt á að fá að flytjast aftur til sinna fornu heimkynna á Krím-skaga.“

Dzhemílev fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Krím 1989 og var kjörinn leiðtogi Krím-tatara. Lagði hann áherslu á, að í baráttu þeirra yrði ekki beitt ofbeldi. Eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna sat Dzhemílev á þingi Úkraínu, en Kremlverjar höfðu fært Úkraínu Krím-skagann að gjöf á 300 ára afmæli rússneskra yfirráða í landinu 1954. Frá því að Rússar hernámu Krím í mars 2014, hefur Dzhemílev verið í útlegð.

Þegar við rifjum upp sögu gleymdra smáþjóða, sem tröllin hafa undirokað og jafnvel tvístrað, ættum við að muna, hversu heppin við erum að búa á eyju langt frá öðrum löndum, en líka með góða granna, Kanadabúa, Bandaríkjamenn, Breta, Dani og Norðmenn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. júní 2014.)


Merkingarþrungnar minningar

Sumar minningar verða skyndilega merkingarþrungnar. Svo er til dæmis um hádegisverð, sem við Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður snæddum saman á Íslenska barnum, eins og hann hét þá, í Pósthússtræti miðvikudaginn 29. febrúar 2012.

Tilefnið var, að Guðlaugur Þór hafði spurst opinberlega fyrir um greiðslur úr ríkissjóði til kennara á félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Einn samkennari minn kom reiður að máli við Guðlaug Þór og sagðist vita, að þessi fyrirspurn væri undan mínum rifjum runnin. Ég frétti þetta og hafði samband við Guðlaug Þór. Ég sagði efnislega: „Eins og þú veist jafnvel og ég, Guðlaugur Þór, höfum við ekki talast við í nokkur ár (okkur sinnaðist í innanflokksátökum). En nú heyri ég, að ég standi á bak við fyrirspurnir þínar á þingi. Úr því að ég er skyndilega orðinn aðalmaður í ógurlegu samsæri með þér, finnst mér eðlilegt, að ég fái að eiga hlut að máli. Við þurfum að setjast niður.“ Guðlaugur Þór tók þessu vel, og við mæltum okkur mót.

Þegar ég kom inn á Íslenska barinn, rak ég augun í DV, sem lá efst í blaðabunka á hliðarborði. Forsíðan var með risaletri og helguð Guðlaugi Þór: Hann hefði fengið 33 milljónir frá Landsbankanum fyrir tryggingafélag í sinni eigu. Ég sagði kankvís við Guðlaug Þór, um leið og ég settist á móti honum, að DV hefði næstum því jafnmikinn áhuga á honum og mér. Hann brosti dauflega og velti fyrir sér, hvaðan blaðið hefði upplýsingar sínar. En þegar skammt var liðið á umræðurnar, gekk fram hjá okkur Ársæll Valfells, sem við þekktum báðir. Hann ávarpaði okkur með breiðu brosi: „Nú, er bara sjálf skrímsladeildin á fundi?“ Við hlógum við, og Ársæll settist við annað borð.

Hvorugur okkar Guðlaugs Þórs vissi þá, að nokkrum dögum áður, að kvöldi fimmtudagsins 23. febrúar, hafði Ársæll fengið heimsókn frá Þórarni M. Þorbjörnssyni, starfsmanni Landsbankans, sem var með trúnaðarskjöl úr bankanum um Guðlaug Þór handa Gunnari Andersen, forstöðumanni Fjármálaeftirlitsins, en Gunnar var þá önnum kafinn á fundi. Ársæll hringdi í Gunnar, sem bað hann að koma skjölunum til DV. Ársæll setti skjölin í nýtt umslag, svo að nafn sitt kæmi ekki fram, ók að bækistöðvum DV og setti umslagið í póstkassa blaðsins. Síðan skrifaði fréttastjóri DV, Ingi F. Vilhjálmsson, fréttina um Guðlaug Þór upp úr skjölunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. júní 2014.)


Bloggfærslur 13. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband