Hvað segir ESB sjálft?

Deilt er um, hvers eðlis aðlögunarviðræðurnar við Evrópusambandið hafi verið. Sumir segja, að þetta hafi verið samningar tveggja aðila. En er ekki best að spyrja Evrópusambandið sjálft? Í bæklingi frá því um aðildarferli umóknarþjóða segir:

First, it is important to underline that the term “negotiation”can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate’s implementation of the rules.

Eins og aðrir hafa bent á, fer hér ekkert á milli mála: not negotiable.


Íslendingar geta litið stoltir um öxl

Eftir bankahrunið komst í tísku, sérstaklega í hópi menntamanna, að gera lítið úr Íslendingum, sjálfstæðisbaráttu þeirra og þjóðernisvitund. Það er jafnfráleitt og þegar menn voru fyrir bankahrunið að tala um Íslendinga sem snjöllustu þjóð í heimi. En Íslendingar þurfa þrátt fyrir allt ekki að skammast sín. Hér er tiltölulega friðsamlegt: Morð á hver tvö hundruð þúsund íbúa eru um tvö í Evrópu að meðaltali, eitthvað innan við tíu í Bandaríkjunum (en raunar aðeins tvö, ef aðeins er miðað við fólk af evrópskum uppruna), en hér á landi 0,3. Þjóðin er í góðum álnum og hefur mikla möguleika, ef við nýtum rétt öll þau tækifæri, sem okkur bjóðast, höldum uppi hinu skynsamlega skipulagi fiskveiða, löðum ferðamenn að landinu, seljum útlendingum orku og gætum hófs í opinberum útgjöldum og álögum. Það er fróðlegt að lesa í Hagskinnu, sem er bók með tölum frá liðnum tíma, að frá 1870 til 1940 voru Íslendingar aðeins hálfdrættingar á við Dani í tekjum (vergri landsframleiðslu á mann). Eftir það höfum við staðið þeim jafnfætis um margt, þar á meðal velmegun. En á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar, Háskólans og lýðveldisins er hollt að hafa í huga, að besta vegarnestið inn í framtíðina er það atvinnufrelsi, sem Jón Sigurðsson mælti fyrir.

(Skrifað 17. júní 2014.)


Fróðleiksmoli um kynbundna kúgun

Föstudagsmorguninn 6. júní 2014 flutti ég fyrirlestur á alþjóðlegri ráðstefnu í Öskju, náttúruvísindahúsi Háskóla Íslands, um „Kúgun karla“. Tilvísunin er í rit enska heimspekingsins Johns Stuarts Mills um Kúgun kvenna, sem hefur komið tvisvar út í íslenskri þýðingu. Ég er að sjálfsögðu sammála Mill um það, að kynin tvö eigi að njóta fullra réttinda til sjálfsþroska og þátttöku í opinberu lífi. Konur voru því miður löngum kúgaðar. En eru þær það lengur á Vesturlöndum? Hefur þetta ef til vill snúist við? Í því sambandi kynnti ég niðurstöður ýmissa nýrra rannsókna.

Á meðan ég var að semja fyrirlesturinn, rifjaðist upp fyrir mér, þegar Helga Kress flutti það, sem hún kallaði „jómfrúrfyrirlestur“ sinn sem prófessor í Háskóla Íslands 10. október 1991. Fyrirlesturinn nefndist „Skassið tamið“ og var um frásagnir í íslenskum fornbókmenntum af ruddaskap og yfirgangi karla við konur. Benti Helga á ýmis dæmi um þetta, sem farið hefðu fram hjá körlum í röðum bókmenntaskýrenda vegna kynlægrar einsýni þeirra. Eftir fyrirlesturinn svaraði hún spurningum. Ég bar fram eina. Hún var, hvað Helga segði um frásagnir í íslenskum fornbókmenntum af misjafnri framkomu kvenna við karla, til dæmis Gunnhildar konungamóður við Hrút Herjólfsson og griðkonunnar, sem gerði lítið úr Gretti, svo að ekki sé minnst á allar þær konur, sem eggjuðu feður, bræður eða syni sína til hefnda.

Helga var snögg til svars: Þá var það textinn, sem kúgaði. Þennan texta hefðu karlar sett saman konum til hnjóðs, oft kvenhatarar í klaustrum. Þetta svar Helgu var afar fróðlegt. Hún tók mark á textanum, þegar sagði frá kúgun karla á konum, en þegar í textanum sagði frá kúgun kvenna á körlum, var hann orðinn enn eitt dæmið um kúgun karla á konum. Kenning Helgu var með öðrum orðum óhrekjanleg. Hún geymdi í sér skýringar á öllum frávikum frá sér. Hún var alltaf rétt. Slíkar kenningar kenndi ensk-austurríski vísindaheimspekingurinn Karl Popper við gervivísindi, en tvö dæmi um þau taldi Popper vera marxisma og freudisma. Ef fræðimaður hallaðist að borgaralegum skoðunum, þá var hann að sögn marxista leiguliði borgarastéttarinnar. Ef hann hallaðist að skoðunum marxista, þá var hann sannur fræðimaður. Kenningin var alltaf rétt.

Því miður get ég hins vegar ekki lofað því, að í fyrirlestri mínum hafi ég sett fram kenningu, sem verði alltaf rétt.

(Fróðleiksmoli úr Morgunblaðinu 24. maí 2014, lítillega breyttur.)


Bloggfærslur 1. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband