9.8.2014 | 09:38
Ólíkt hafast þeir að
Þegar ég sat í bankaráði Seðlabankans, var Már Guðmundsson hagfræðingur bankans um skeið. Ég hafði gott eitt af honum að segja. Þótt hann væri drjúgur með sig, var hann vel að sér og mælti jafnan skynsamlega. Einu kynni mín af honum áður voru, þegar við vorum iðulega ræðumenn hvor fyrir sinn málstað í framhaldsskólum, hann fyrir sósíalisma og ég fyrir frjálshyggju. Boðaði hann þá, að menn skyldu taka almannahag fram fyrir eigin hag.
Hins vegar var Már bersýnilega ráðinn seðlabankastjóri af stjórnmálaástæðum, þótt látið væri svo heita, að hann hefði mesta þekkingu og reynslu umsækjenda. En dómgreind skiptir ekki síður máli. Sú ákvörðun Más að una ekki við launalækkun, sem aðrir í sambærilegum stöðum urðu að sætta sig við á erfiðum tímum, sýndi dómgreindarbrest.
Már kveðst hafa viljað láta reyna á rétt sinn með því að höfða mál gegn Seðlabankanum. En stundum er skynsamlegast að krefjast ekki réttar síns. Þegar Davíð Oddsson lét af starfi borgarstjóra, átti hann rétt á sex mánaða biðlaunum. Hann ákvað að taka sér þau ekki, þótt réttur hans til þeirra væri ótvíræður. Þegar Davíð var skipaður seðlabankastjóri, var gerður við hann ráðningarsamningur til sjö ára, frá 20. október 2005 til 20. október 2012. Samningurinn var svo skýr, að Davíð hefði með dómi getað fengið full mánaðarlaun greidd allt til 20. október 2012, en hann var sem kunnugt er hrakinn úr starfi í febrúar 2009. En Davíð ákvað að láta kyrrt liggja.
Þegar Davíð var ráðherra 19912005, tók eiginkona hans aldrei dagpeninga í utanlandsferðum eins og makar annarra ráðherra. Þetta var réttur hennar, en hún nýtti sér hann ekki.
Hvort tveggja gerir síðan hlut Más verri, að hann tapaði máli sínu gegn Seðlabankanum og að hann lét bankann greiða málskostnað sinn. En ólíkt hafast þeir að í eigin málum, gamli sósíalistinn, sem boðaði forðum, að taka skyldi almannahag fram yfir eigin hag, og hinn borgaralegi stjórnmálamaður Davíð Oddsson. En nú ber svo við, að þeir Hörður Torfason og Bubbi Morthens eru hvergi sjáanlegir með potta sína og pönnur fyrir utan Seðlabankann.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. mars 2014.)
9.8.2014 | 05:58
Bara ef lúsin erlend er
Hér rifjaði ég upp á dögunum nokkur helstu afrek UBS, stærsta banka Sviss, sem stjórnvöld þar í landi björguðu frá falli í upphafi hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu. Skömmu áður höfðu fjárfestar í Singapúr og Miðausturlöndum bjargað bankanum frá falli. UBS reyndi að eyða skjölum um skuldir við dánarbú Gyðinga og samdi um stóra greiðslu til samtaka Gyðinga fyrir vikið. Einnig hefur bankinn orðið að greiða stórsektir vegna tilrauna til að hagræða vöxtum og aðstoða auðuga Bandaríkjamenn við peningaþvætti.
Ég get því ekki sagt, eins og ágætur maður, sem andmælti mér umsvifalaust í tölvuskeyti, að UBS sé reistur á aldagömlu fjármálaviti Svisslendinga. Bankinn nýtur þess, að allir vilja geyma fé í Sviss, svo að hann þarf að greiða litla sem enga vexti. Engu að síður varð tvisvar að bjarga honum frá falli, jafnt fyrir og eftir kreppu! Og þótt hann fari illa með dánarbú Gyðinga, hagræði vöxtum og aðstoði viðskiptavini við peningaþvætti, dettur engum í hug að setja hann á lista um hryðjuverkasamtök, eins og Landsbankinn mátti sætta sig við.
En tökum þá annan banka, sem líka var bjargað frá falli í upphafi hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu, RBS, Royal Bank of Scotland. Hann hafði þegar fyrir kreppuna sætt harðri gagnrýni fyrir að reisa sér veglegar höfuðstöðvar í Edinborg og dýrar bækistöðvar í Bandaríkjunum, leigja einkaþotur undir bankastjórana, gera við þá rausnarlega kaupauka- og lífeyrissamninga og greiða frægu fólki stórfé fyrir að koma fram fyrir hönd bankans. (Kannast einhverjir við þetta framferði?) Í ljós kom í upphafi kreppunnar, að RBS var að falla. Breska ríkið varð að leggja honum til 45 milljarða punda í eigið fé níu þúsund milljarða íslenskra króna og leggja honum til 275 milljarða punda í lausafé. Þessar upphæðir hefðu verið rúmlega tvöföld landsframleiðsla Skotlands á ári.
Og engir kórdrengir stjórna RBS fremur en UBS. Í febrúar 2013 greiddi RBS 612 milljón dala sekt fyrir þátt sinn í að hagræða vöxtum. Í desember 2013 greiddi RBS 100 milljón dala sekt fyrir að hafa átt ólögleg viðskipti við Íran og Súdan, en bæði ríki voru á sama lista og Landsbankinn yfir hryðjuverkasamtök. Hvers vegna var hinum gömlu og traustu bönkum Heritable Bank og Singer & Friedlander í Lundúnum ekki bjargað frá falli, heldur ævintýramönnunum, sem stjórnuðu RBS? Vegna þess að þeir voru báðir í eigu Íslendinga? Og eiga Íslendingar að hneigja sig fyrir RBS, en gera lítið úr íslenskum bönkum? Hafa orð skáldsins snúist við og hljóða nú: Bara ef lúsin erlend er, er þér bitið sómi?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. mars 2014.)
[Vegna fyrirspurna: Skáldið var auðvitað Hannes Hafstein.]