Jarðálfarnir í Zürich

Verkamannaflokkurinn breski komst í ríkisstjórn 1964 eftir fjórtán ára hlé. Pundið var hins vegar veikt og féll í verði. Forystumenn flokksins brugðu þá á gamalkunnugt ráð og kenndu bröskurum um. George Brown, sem þá var ráðherra, sagði: „The Gnomes of Zürich are at work again.“ Orðið „Gnome“ er upprunnið í latínu og notað um dverga eða álfa, sem búa neðanjarðar og luma á gulli. Orð Georges Browns mætti því þýða: „Jarðálfarnir í Zürich eru enn að.“

Í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu 2008 neitaði bandaríski seðlabankinn hinum íslenska um gjaldeyrisskiptasamning (sem var í raun leyfi til að prenta Bandaríkjadal), en gerði mjög háa slíka samninga við svissneska seðlabankann, um samtals 466 milljarða dala (aldrei þó svo mikið í einu). Þessi fyrirgreiðsla veitti svissneska seðlabankanum möguleika á að bjarga UBS og öðrum svissneskum bönkum frá falli.

Í því ljósi má rifja upp nokkur afrek „jarðálfanna í Zürich“. Snemma árs 1997 kom næturvörður í bækistöðvum UBS í Zürich, Christoph Meili, að starfsfólki þar í óðaönn við að eyða skjölum í vörslu bankans um hlutabréf og fasteignir í eigu Gyðinga í Hitlers-Þýskalandi. Næturvörðurinn lét samtök Gyðinga vita af þessu. Þau höfðuðu mál gegn UBS og öðrum svissneskum banka, Credit Suisse, sem sömdu eftir eins árs þóf um að greiða samtökum Gyðinga 1,25 milljarð dala í bætur.

Í febrúar 2008 var ljóstrað upp um aðstoð UBS við að skjóta fé auðugra Bandaríkjamanna ólöglega undan. Einn bankamaðurinn, Bradley Birkenfeld, smyglaði til dæmis demöntum á milli landa í tannkremstúbum. UBS greiddi 780 milljónir Bandaríkjadala í sekt. Mörg önnur hneyksli mætti nefna, meðal annars í Bretlandi, en stærst þótti, þegar UBS var sektað í árslok 2012 í Bandaríkjunum um 1,5 milljarð dala fyrir að taka þátt í að hagræða vöxtum á millibankamarkaði í Lundúnum, svokölluðum LIBOR. 

Með aðstoð bandaríska seðlabankans björguðu svissnesk stjórnvöld UBS frá falli haustið 2008, en Landsbankinn var ekki aðeins látinn falla, heldur settur á opinberan lista breska fjármálaráðuneytisins yfir hryðjuverkasamtök! Voru bresk og bandarísk stjórnvöld með þessu að þakka Íslendingum stuðninginn í heimsstyrjöldinni síðari og í kalda stríðinu, þegar Sviss var hlutlaust? Eða skiptir ekkert slíkt máli lengur?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. mars 2014.)


Darling og styrktarmenn Íhaldsflokksins

Í síðustu viku sagði ég frá lýsingu Alistairs Darlings, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, á því, hvernig stærð einkaflugvéla fundarmanna á ráðstefnum væri jafnan í öfugu hlutfalli við stærð heimalanda þeirra. Hann gerði þessa athugasemd að morgni 7. október 2008, þegar hann var á leið á fjármálaráðherrafund í Lúxemborg og lítil einkaflugvél, sem hann hafði tekið á leigu, renndi á flugvellinum fram hjá tveimur Boeing 747 þotum, sem merktar voru Íslandi og stóðu á flugvellinum. Þetta voru hins vegar ekki einkaþotur neinna íslenskra ráðamanna, heldur vöruflutningavélar á vegum Atlanta, sem hafði notað slíkar vélar frá 1993!

Í bókinni Back from the brink (2011) segir Darling frá uppgangi Landsbankans í Bretlandi árin fyrir alþjóðlegu lánsfjárkreppuna og bætir við, að nú sæti ýmsar fjárfestingar bankans sakamálarannsókn á Íslandi. Síðan skrifar hann (bls. 137): „Í tengslum við þetta virtust ýmsir íslenskir ríkisborgarar auðgast mjög. Sumir gátu jafnvel veitt breska Íhaldsflokknum rausnarlega styrki.“ Í Bretlandi eru allir styrkir til stjórnmálaflokka, sem einhverju nema, birtir opinberlega. Ég gat ekki séð neina Íslendinga eða íslensk fyrirtæki á listum yfir styrkveitendur Íhaldsflokksins. Á fundi með Darling í desember 2013 spurði ég hann því, hvaðan hann hefði þessar upplýsingar. Hann kvaðst hafa lesið um þetta, á meðan hann var að skrifa bók sína 2011.

Hér er líklega skýringin komin. Í júlí 2009 hafði dótturfélag Kaupþings í Lúxemborg verið selt Rowland-fjölskyldunni bresku og tekið upp nafnið Banque Havilland. Fasteignajöfurinn David Rowland var einn örlátasti styrktarmaður Íhaldsflokksins og átti jafnvel um tíma að verða gjaldkeri flokksins, þótt ekki yrði af því. Í mars 2011 gerði breska lögreglan húsleit í Banque Havilland vegna rannsóknar á Kaupþingi. Vegna sambandsins við Íhaldsflokkinn var Rowland fréttamatur, þótt rannsóknin beindist ekki að honum. Fyrirsögnin í breska stórblaðinu Daily Telegraph var til dæmis „Efnahagsbrotadeild gerir húsleit vegna Kaupþings í banka bakhjarls Íhaldsflokksins, Davids Rowlands“.

Ef sú er skýringin á ummælum Darlings, þá ruglar hann ekki aðeins saman Landsbankanum og Kaupþingi, heldur telur hann David Rowland tengjast Íslandi af þeirri ástæðu einni, að Rowland keypti ásamt fjölskyldu sinni það, sem eftir var af einu dótturfélagi íslensks banka í Lúxemborg. Á þennan hátt verða þjóðsögur til.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. mars 2014.)


Darling og íslensku risaþoturnar

Þegar ég vann að rannsóknum á ævi Halldórs Kiljans Laxness, rakst ég í Þjóðarbókhlöðunni á rit, sem gefið hafði verið út um rithöfundamót í Góðviðru (Buenos Aires) 1936, en Laxness var einn gesturinn og skrifaði síðar margt um mótið. Mér til nokkurrar furðu reyndist ritið óuppskorið! Hinir miklu Laxnessfræðingar, sem gengu um götur og gerðu sig digra, höfðu ekki haft fyrir því að líta í það. Þegar ég ætlaði nýlega að fá lánaðar á Þjóðarbókhlöðunni endurminningar Alistairs Darlings, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, sem var einn mesti örlagavaldurinn um bankahrunið, voru þær ekki til þar, og varð safnið að panta þær handa mér í millisafnaláni. Enn varð ég hissa. Hafði enginn hinna fjölmörgu sjálfskipuðu hrunfræðinga, sem eru svo tíðir gestir í sjónvarpi, áhuga á þessari hlið málsins?

Hvað sem því líður, eru endurminningar Darlings fróðlegar um margt, smátt og stórt. Hann segir til dæmis frá því, að hann hafi farið á fund fjármálaráðherra Evrópusambandsins í Lúxemborg þriðjudaginn 7. október 2008. Venjulega hafi hann ekki leigt sér einkavél til að fara á slíka fundi, en í þetta skipti hafi hann neyðst til þess vegna tímaskorts. Darling bætir við þeirri athugasemd, að á alþjóðlegum ráðstefnum hafi hann oft veitt athygli hinum mörgu einkaþotum á flugvöllum og tekið eftir því, að þær hafi venjulega verið því stærri sem heimalöndin hafi verið minni. Síðan segir hann (bls. 152): „Þegar við renndum niður til lendingar, benti Geoffrey Spence, sérstakur ráðgjafi minn, mér á tvær íslenskar risaþotur [jumbo jets], sem stóðu við lendingarbrautina. Við ókum fram hjá þeim í vél okkar, sem var á stærð við Spitfire-vél.“

En enginn fulltrúi Íslands var á þessum fjármálaráðherrafundi Evrópusambandsins, og þessar tvær risaþotur (Boeing 747) voru ekki notaðar af íslenskum kaupsýslumönnum eða stjórnmálamönnum. Þetta voru bersýnilega vélar Air Atlanta, sem önnuðust vöruflutninga um Lúxemborg, en þær voru jafnan vandlega merktar Íslandi. Air Atlanta hafði notað slíkar risaþotur allt frá 1993. Þær komu hvorki útþenslu bankanna né hruni hætishót við.

Áróðursbrella Darlings, þegar hann ber í endurminningum sínum saman vélarskjátu breska fjármálaráðherrans og risaþotur Íslendinga í því skyni að vekja lesandanum hugboð um hroka og oflæti hinnar fámennu grannþjóðar Breta, missir því marks.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. febrúar 2014.)


Um borð í Gullfossi

Ég hef oft furðað mig á því, að eitthvert skáldanna okkar skuli ekki hafa skrifað ástar- eða glæpasögu, sem gerðist um borð í Gullfossi, til dæmis á leið til Kaupmannahafnar eitthvert haustið á sjötta eða sjöunda áratug síðustu aldar með fyrirfólk á fyrsta farrými og fátæka námsmenn á hinu þriðja. Tími og staður eru þægilega afmarkaðir, mörg tækifæri til að falla í freistni og hægt að skrifa ýmsa eftirminnilega einstaklinga inn í söguna.

Skip Eimskipafélagsins, sem báru nafnið Gullfoss, voru tvö. Hið fyrra var tekið í notkun 1915 og var þá sýnt bæjarbúum. Maður austan úr sveitum, sem staddur var í Reykjavík, notaði tækifærið til að skoða hinn nýja farkost. Hann var illa búinn með kúskinnsskó á fótum og ullartrefil um háls, ófríður og vambmikill. Um borð sá hann sjálfan sig í spegli í fyrsta skipti á ævinni. Honum varð að orði: „Sá hefur ekki kvalið sig. En andskoti er hann ljótur!“

Gullfoss hinn síðari var tekinn í notkun 1950. Einn fastagesturinn varð rithöfundurinn Halldór Kiljan Laxness. Einn laugardaginn árið 1956 hafði loftskeytamaður skipsins stillt á Ríkisútvarpið, þegar flutt voru óskalög sjúklinga. Ekki leið á löngu, þangað til Laxness mælti upp úr eins manns hljóði: „Hvernig er það, verður aldrei neinn músíkalskur maður veikur á Íslandi?“

Margir nýttu sér, að áfengisverð var lágt um borð. Þingmönnunum Barða Guðmundssyni þjóðskjalaverði og Gunnari Thoroddsen borgarstjóra þótti báðum gott í staupinu. Eitt sinn sagði Barði við Gunnar, þegar þeir voru báðir staddir í vínstúku skipsins: „Maður er bara kominn á Gunnarshólma!“ Gunnar svaraði mjúklega: „Ætli það sé ekki frekar Barðaströnd?“ Festist það nafn við vínstúkuna.

Einn fastagesturinn um borð í Gullfossi hinum síðari var Ásbjörn Ólafsson heildsali, sem jafnan tók á leigu gistiíbúð (svítu) skipsins. Hann drakk oft ótæpilega á leiðinni út. Ásbjörn var aðdáandi Einars skálds Benediktssonar og kunni utan að langa kafla úr ljóðum hans. Eitt sinn hét hann sex flöskum af viskí á Alfreð Flóka myndlistarmann, gæti hann farið með „Einræður Starkaðar“ eftir Einar. Annar heildsali í farþegahópnum vildi ekki vera minni maður og bauð öllum „einfaldan á línuna“, sem merkir einn sterkan drykk á mann. „Þá gef ég tvöfaldan á línuna,“ svaraði Ásbjörn að bragði. „Tvær flöskur á línuna,“ sagði hinn heildsalinn. Þá gall í Ásbirni: „Þrjár flöskur af viskí á línuna og kassa fyrir borð handa háköllunum!“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. febrúar 2014.)


Bloggfærslur 7. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband