5.8.2014 | 21:58
Viðbótarheimild um huldumann
Ég hef skrifað hér þrisvar um íslenska huldumanninn á Galapágos-eyjum, sem ég frétti af vegna ferðar minnar þangað sumarið 2013. Hann kallaði sig Finsen, en með hjálp góðra manna komst ég að því, að um var að ræða skagfirska Latínuskólapiltinn Valdimar Friðfinnsson, sem hélt vestur um haf í upphafi tuttugustu aldar og leitaði gulls og olíu í Mið- og Suður-Ameríku. Settist hann að á Galapágos-eyjum 1931 og bar þar beinin 1945.
Nú hefur Örn Ólafsson bókmenntafræðingur bent mér á, að frá Finsen segir í einni bók Thors Vilhjálmssonar, Regn á rykið, sem kom út árið 1960 (bls. 186187). Thor hafði kynnst sænskum ferðagarpi, sem hét Rolf Blomsterberg og hafði komið til Galapágos-eyja. Blomsterberg sagði Thor, að hann hefði kynnst Íslendingi þar syðra, sem heitið hefði Jón Finsen (að því er Thor minnti). Finsen hafði komið ungur til Suður-Ameríku í leit að olíu en hafði ekki auðgast af því. Eitt sinn varð hann að leita læknis sem sagði honum að hann gengi með banvænan sjúkdóm og ætti skammt ólifað. Finsen hrærðist allur í hinum fornu sögum Íslands og Eddukvæðum. Hann fór þá út á Galapagoseyjarnar og valdi sér háan klett og hugsaði: þegar ég finn að krafturinn þverr fer ég upp á klettinn og geng fyrir ætternisstapa að hætti áa minna. En hann fann ekki kraftinn þverra heldur styrktist þvert á móti með hverjum degi í heilnæmu loftslaginu úti á eyjum þessum og lifði í 20 ár eftir þetta. Kemur þetta allt heim og saman við frásagnir af Finsen (Valdimar Friðfinnssyni) í íslenskum blöðum, nema hvað hann kallaði sig oftast Walter, en ekki Jón, og hvergi er annars staðar minnst á örlagaklettinn, sem Thor segir frá.
Thor heldur áfram: Margir höfðu þann sið að fara út í skip sem komu til eyjanna og vildu kaupa áfengi eða höfðu von um að í skipinu kynnu að leynast lostfagrar konur. Og Finsen fór alltaf út í skip sem komu, en erindi hans var að leita að bókum og honum tókst að safna sér ágætum bókakosti á þennan hátt, og Blomberg sagði að hann hefði verið sérkennilegur og vitur maður með sítt hvítt skegg og verið óspar að miðla sér af fjölbreytilegri lífsreynslu sinni. Meðal annars sagði hann að Finsen hefði bent sér á bækur sem hann skyldi lesa úr því að hann ætlaði að gerast rithöfundur, allra mikilvægast væri að lesa rússnesku stórskáldin, sérstaklega Tsjekov. Finsen lést í hárri elli á Galapagoseyjum. Þótt Thor færi hér eitthvað í stílinn, kemur þetta líka heim og saman við frásagnir af Íslendingnum, sem aðrir hafa skrifað, þótt Valdimar hefði að vísu látist 69 ára, sem ekki getur talist há elli. Er gaman að þessari fjörlega skrifuðu viðbótarheimild.
(Fróðleiksmoli, Morgunblaðið 1. febrúar 2014.)
5.8.2014 | 19:22
Ofeldi launað með ofbeldi
Nú eru senn liðin fimm ár frá því, að lögleg ríkisstjórn landsins var hrakin frá með ofbeldi. Ekki var óeðlilegt, að almenningur mótmælti bankahruninu haustið 2008, enda vissi þá enginn, hvaðan á sig stóð veðrið, sem við sjáum nú skýrar en þá, að var fjárhagslegt fár, sem geisaði um heim allan og átti upptök sín annars staðar. En inn í raðir ráðvilltra borgara læddust óeirðaseggir, sumir grímuklæddir (og því ábyrgðarlausir). Þeir kveiktu elda fyrir framan Alþingishúsið, grýttu ráðamenn og sátu jafnvel um heimili þeirra. Ótrúlegt var líka að sjá, hvernig Hallgrímur Helgason rithöfundur réðst hamslaus af bræði á bíl Geirs Haardes forsætisráðherra við stjórnarráðið 21. janúar 2009 og reyndi að mölva í honum framrúðuna. Hann launaði ofeldi með ofbeldi (eins og skáldið Sigurður Pálsson orðaði það af öðru tilefni).
Mér var kennt í háskólanámi í heimspeki, að valið væri um tvær leiðir í mannlegum samskiptum, skynsemi eða ofbeldi. Háskólar ættu að vera virki skynseminnar. Siðmenning er ekkert annað en tilraun til þess að koma ofbeldi niður í lágmark, sagði spænski heimspekingurinn José Ortega y Gasset. Ofbeldismenn eru vissulega til með öllum þjóðum og eflaust jafnmargir hlutfallslega á Íslandi og annars staðar. Einkennilegra var hitt, þegar nokkrir háskólamenn gengu í janúar 2009 til liðs við óeirðaseggi og ofbeldismenn og töluðu á fundum þeirra. Eins og Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðingur hefur sýnt skilmerkilega í bók um Búsáhaldabyltinguna, var tilgangur margra mótmælenda að reyna með ofbeldi að ónýta lýðræðislegar ákvarðanir. Það er umhugsunarefni, að mótmælunum lauk snögglega í janúarlok 2009, þegar ríkisstjórnin fór frá. Hvað sem því líður, stóðust sumir háskólamenn ekki prófið þessa dimmu vetrardaga fyrir fimm árum. Þá settust nokkrir rykfallnir skóladúxar á tossabekk tilverunnar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. janúar 2014.)
5.8.2014 | 14:24
Hverjum Íslandsklukkan glymur
Einn af fastapennunum á blaði auðjöfursins (fyrrverandi?) Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Guðmundur Andri Thorsson, skrifar þar 6. janúar 2014 hugleiðingu um Íslandsklukkuna eftir Halldór Kiljan Laxness. Margt er þar vel sagt. En furðuleg er tilraun Guðmundar Andra til að særa Laxness upp úr gröf sinni og gera hann að liðsmanni sínum í nýliðinni kosningabaráttu. Guðmundur Andri segir, að íslensku þjóðinni hafi þá farist eins og Snæfríði Íslandssól og valið versta kostinn frekar en hinn næstbesta.
Þetta er fráleitt. Þau skötuhjú Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon voru ekki næstbesti kosturinn, heldur hinn versti. Í Íslandsklukkunni segir Arnæus við Jón Hreggviðsson, þegar hann fylgir honum til skips á Drageyri: Þú getur sagt þeim frá mér að Ísland hafi ekki verið selt; ekki í þetta sinn. Í Icesave-málinu gerðu þau Jóhanna og Steingrímur tilraun til að selja Ísland, en þeim tókst það ekki, því að þjóðin tók af þeim ráðin. Þau gerðu samninga við Breta og Hollendinga um að leiða Íslendinga í skuldafangelsi áratugum saman, því að þau héldu væntanlega, að þá gætu þau sjálf og lið þeirra orðið fangelsisstjórarnir.
Í samningaþrefinu í Icesave-málinu hefðu íslenskir ráðamenn átt að hlusta á það, sem Arnæus segir við Úffelen: Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armslengd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þótt tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvina þess. Betur verður þeirri stjórnlist, sem smáríki hljóta að temja sér, vart lýst.
Íslandsklukkan glymur ekki auðjöfrunum, sem höfðu hér öll völd árin 2004-2008, og því síður leigupennum þeirra. Hún glymur ekki heldur þeim Jóhönnu og Steingrími, sem síðan fengu völd í fjögur ár og ætluðu sér að greiða stórkostlegar skuldir, sem þjóðin hafði ekki stofnað til, vegna ímyndaðs stundarávinnings síns í innanlandsskærum. Hún glymur hins vegar íslenskri alþýðu, sem kom tvisvar í veg fyrir það í þjóðaratkvæðagreiðslum, að Ísland yrði selt.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. janúar 2014.)