Grýlubrellur Stefáns Ólafssonar

Þegar ég stundaði heimspekinám fyrir óralöngu, var eitt námskeiðið í rökfræði. Þar vorum við vöruð við ýmsum rökleysum eða brellum, sem báru virðuleg nöfn á latínu. Ein hafði þó enskt heiti, „straw man fallacy“, þegar andstæðingi er gerð upp skoðun, sem tiltölulega auðvelt er að hrekja, og síðan er hin uppgerða skoðun hrakin með lúðrablæstri og sigurópum. Ég hef lagt til að kalla þetta „grýlubrelluna“ á íslensku.

Stefán Ólafsson prófessor, sem virðist vera sjálfskipaður talsmaður Hólmsteinshatarafélagsins, hefur oft notað þessa grýlubrellu á mig, til dæmis í ádeilum á mig fyrir skoðanir á loftslagsmálum, sem ég hef aldrei haft.

beitir hann sömu brellu vegna fyrirlesturs, sem ég flutti um karlmennsku á dögunum. Boðskapur minn þar var einfaldur. Þegar við skoðum tölur um óhamingju eða böl, hallar á karla: Þeir lifa skemur en konur, stytta sér frekar aldur, verða frekar fyrir slysum, fremja frekar glæpi og hneigjast frekar til fíkniefnaneyslu og ofdrykkju. Ég dró þá eðlilegu ályktun af þessum tölum, að hlutskipti karla sé almennt erfiðara en kvenna.

Ég setti hins vegar ekki fram neina kenningu um það, að þetta sýndi, að konur kúguðu karla, enda er það ekki skoðun mín. Því síður setti ég fram neina kenningu um það, að þetta hlutskipti karla væri jafnréttisbaráttunni að kenna. Þegar Stefán ræðst á mig fyrir þessar kenningar, missir hann þess vegna marks. Ég er femínisti í þeim skilningi, að ég styð fullt jafnrétti kynjanna og ber virðingu fyrir frjálsu vali kvenna jafnt og karla. En ég er ekki öfgafemínisti, sem trúi því, að karlar eigi almennt enga ósk heitari en kúga konur.

Þegar ég talaði um launamun kynjanna, setti ég hins vegar fram þá skýringu á honum (sem raunar má heita viðtekin í hagfræði), að karlar og konur röðuðu sér ólíkt í tegundir starfa af ýmsum hvötum, og þegar tekin séu meðaltöl launa í þeim störfum, sem kynin hafa tilhneigingu til að velja, séu þau meðaltöl lægri í þeim störfum, sem konur hafa tilhneigingu til að velja sér, en af ástæðum, sem ekki verða rakin til þess, að konur hafi tilhneigingu til að velja þau. Launamuninn megi því ekki nema að mjög litlu leyti rekja til þess, að karlar mismuni konum, „karlaveldið“ skammti kjör.

Stefán heldur því hins vegar fram, að konur fái ekki jafnhá laun fyrir sömu vinnu og karlar. Ef hann veit einhver dæmi þess, þá á hann að láta yfirvöld vita. Samkvæmt lögum eiga konur og karlar að fá jafnhá laun fyrir sömu vinnu. Mér finnst það sjálfum líka réttlátt og eðlilegt, hvort sem það á síðan að vera lögboðið eða ekki.

Ég tel síðan og ætti ekki að þurfa að taka það fram, að verkaskipting á heimilum sé einkamál hjóna, sem hvorugum okkar Stefáni kemur við. Væntanlega hafa flest hjón þann hátt á, að það hjónanna, sem líklegra er til að geta sérhæft sig, einbeitt sér og aflað hárra tekna, fari út á vinnumarkaðinn, en hitt sinni frekar heimilishaldi, þótt nú færist það í vöxt, að bæði hjónin sinni lífsbaráttu og heimilishaldi saman, og hef ég ekki nema gott eitt um það að segja. Ég benti hins vegar á það, að náttúran hefur kjörið konur til að ganga með börn og gefa þeim á brjóst, og það er dýrmæt lífsreynsla, sem karlar fara á mis við (að meistara Þórbergi undanteknum, sem skrifaði langt mál um það, þegar hann var þungaður). Ef til vill er ein skýringin á því, að konur ráða betur við lífið en karlar, að þær öðlast lífsfyllingu við þetta.

Það er eflaust rétt, sem Stefán Ólafsson segir, að karlar eru í eðli sínu árásargjarnari en konur vegna kirtlavaka sinna (testosterón). Sjálfur er hann gott dæmi um þessa árásargirni. Vart líður svo vika, að hann ráðist ekki á mig á bloggi sínu á Eyjunni. En ef til vill telur hann sig líka eiga harma að hefna, þar eð ég hef komið upp um rangar tölur hans um tekjudreifingu, skattleysismörk og lífeyristekjur og um trúnaðarbrot hans í starfi.  


Viðbrögð við fyrirlestri mínum um kúgun karla

Það var fróðlegt að sækja hið alþjóðlega þing um karlafræði (masculinity studies), sem haldið var í Reykjavík 5.–6. júní. Flestir þátttakendur virtust vera andvígir karlmennsku, stækir femínistar. Þegar ég flutti fyrirlestur minn að morgni 6. júní, var troðfullt í fundarsalnum, og menn hlustuðu kurteislega, en með steinrunnin andlit, og lófatakið var dauflegt á eftir. Ég bjóst ekki við öðru, enda hafði ég sagt:

  • að konur og karlar nytu jafnréttis að lögum á Íslandi og annars staðar á Vesturlöndum,
  • að karlar lifðu styttra og erfiðara lífi en konur: lífslíkur þeirra væru minni, sjálfsvíg þeirra tíðari, einnig dauðsföll af slysförum og morð, þeir leiddust frekar út á glapstigu, glæpi, fíkniefnaneyslu og ofdrykkju,
  • að þess vegna væri hæpið að tala um, að karlar undirokuðu eða kúguðu konur,
  • að eðlilegar skýringar væru til á launamun kynjanna, því að hann mætti rekja til ólíks vals kynjanna á tegundum starfa,
  • að ástæðan til þess, að konum gengi betur að ráða við lífið, væri sennilega, að þær fengju meiri lífsfyllingu vegna barneigna,
  • að náttúran hefði neitað körlum um þessa lífsfyllingu, því að þeir gætu ekki borið börn og gefið þeim á brjóst,
  • að minnstar líkur væru á mismunun, þar sem samkeppni á markaði væri hörðust,
  • að kvenfrelsissinnar ættu að beina kröftum sínum að því að efla samkeppni heima fyrir og aðstoða kúgaðar konur, ekki síst í Arabalöndunum.

Þetta hentar auðvitað ekki öllu því fólki, sem hefur atvinnu af því að skapa fórnarlömb úr konum og veita þeim síðan aðstoð (sem engu hefur breytt og sjaldnast komið að gagni).

Mín ágæta bekkjarsystir úr sagnfræði, Kristín Ástgeirsdóttir, sagði í viðtali við visir.is, að margir ráðstefnugestir hefðu orðið reiðir yfir því, að mér hefði verið hleypt á ráðstefnuna. Síðan bætti hún því við, að ég hljómaði eins og „reiður, hvítur maður“, en einn fyrirlesarinn á ráðstefnunni hefði einmitt talað um slíka menn. Ég spyr: Hver er reiður? Ef marka mátti Kristínu, þá voru það einmitt ráðstefnugestirnir! Ég er að minnsta kosti ekki reiður, þótt ég sé hvítur.

Maður að nafni Michael Kimmel ræddi síðan við fjölmiðla. Hann bar ekki brigður á tölur mínar, en neitaði því, að þær sýndu, að konur væru hamingjusamari en karlar. Ég held raunar, að erfitt sé að mæla hamingju. Auðveldara er að mæla óhamingju eða mannlegt böl, og tölur mínar eru einmitt um slíkt böl: skammlífi, sjálfsvíg, dauðaslys, morð, fangelsisvist, fíkniefnaneyslu, ofdrykkju.

Raunar er ég sammála Kimmel um það og sagði það beinlínis í fyrirlestri mínum, að karlmennskuímyndin er körlum erfiðari en kvenleikaímyndin konum. Mér er hins vegar ekki ljóst, hvað á að gera við því: Breyta körlum í konur? Ráðast á milljón ára náttúruval?

Ég er hins vegar ósammála Kimmel, þegar hann vitnar  með lítilsvirðingu í Adam Smith um þrælahald. Það er rétt, sem Smith hélt fram, að þrælahald er óhagkvæmt og myndi þess vegna útrýma sjálfu sér, ef löggjafinn reisti slíkri útrýmingju ekki skorður. Þræll er meira virði sem frjáls maður en sem þræll, svo að gott viðskiptatækifæri myndast með því að kaupa honum frelsi, hvort sem hann sjálfur gerir það (eins og Erlingur Skjálgsson aðstoðaði hann við að gera samkvæmt frásögn Snorra) eða aðrir.

Kimmel heldur því fram, að konur fái lægri laun fyrir sömu vinnu. Ef hann veit einhver dæmi þess frá Íslandi, þá á hann að láta yfirvöld vita. Hér á landi hafa jöfn laun kynjanna fyrir sömu vinnu verið leidd í lög. Kenning mín var önnur. Konur hafa tilhneigingu til þess (og á því eru auðvitað margar undantekningar) að velja störf, sem geta farið saman við barneignir og heimilishald. Þau störf eru almennt lægra launuð en önnur störf, sem ekki geta farið saman við barneignir og heimilishald, til dæmis vegna kröfu um samfellda viðveru eða sívirka þekkingaröflun. Þess vegna mælast konur með lægri laun en karlar. Launamunur kynjanna er því tölfræðileg tálsýn. Konum er ekki mismunað af körlum (nema að litlu leyti, og það getur líka verið á hinn bóginn). Og ef þeim er mismunað, þá er mesta hagsmunamál þeirra, að samkeppnin verði sem hörðust, því að þá hefur vinnuveitandinn ekki ráð á öðru en fá til sín bestu starfskraftana, hvort sem þeir eru karlar eða konur


Bloggfærslur 27. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband