Kamban, Kress og Lowrie

Sveinn Einarsson skrifar um skáldsöguna Ragnar Finnsson á bls. 187 í nýútkominni bók um Guðmund Kamban, sem Mál og menning gefur út: „Helga Kress hins vegar nánast ber upp á Kamban ritstuld, þegar hún ber saman brot úr sögu hans og skáldsöguna My Life in Prison (Fangelsisár mín) eftir Donald Lowrie. Því er ekki að leyna að í tilvitnunum hennar eru sláandi líkindi. Allir þekkja hvernig höfundar viða að sér efni og hefur margoft verið bent á hvernig jafnólíkir höfundar og Shakespeare og Halldór Laxness eigna sér frásagnir og atburði, án þess að stuld megi kalla. Sennilega hefur Kamban þó lesið umrædda bók.“

Öðru vísi mér áður brá. Ég notaði marga kafla úr æskuminningum Laxness í fyrsta bindi ævisögu hans 2003 og umritaði þá, vann nýjan texta úr gömlum. Ég leyndi því hvergi, enda þekkti öll þjóðin þessar æskuminningar. Fyrir þetta var ég ásakaður um ritstuld og hörð hríð gerð að Háskólanum fyrir að reka mig ekki úr starfi. Meðal þeirra sem kröfðust þess að ég yrði rekinn var aðalyfirlesari Máls og menningar, Guðmundur Andri Thorsson, en það fyrirtæki gefur einmitt út bók Sveins. Munurinn á mér og þeim Kamban og Laxness var hins vegar, að ég reyndi hvergi að halda því fram eins og þeir, að þessir textar mínir væru sjálfstætt sköpunarverk. Ekki man ég til þess, að Sveinn Einarsson hafi komið mér til varnar. Öðru nær.

Sveinn Einarsson segir nú hinn hógværasti, að sennilega hafi Kamban lesið bók Lowries. En lauslegur samanburður sýnir vel, að heilu kaflarnir í Ragnari Finnssyni eru sóttir í bók Lowries. Helga Kress benti á þetta í bók um Kamban. En eins og hinn ágæti bókmenntamaður Sveinn Skorri Höskuldsson benti á í ritdómi um bók Helgu, var athugasemd um þessi rittengsl á milli Lowries og Kambans í aðfangaskrá Landsbókasafnsins. Taldi hann Helgu seka um það, sem kallað er rannsóknarstuldur. Hún léti eins og hún hefði eftir sjálfstæða rannsókn komist að niðurstöðu, sem henni hefði verið bent á.

Helga mótmælti því harðlega, að hún hefði vitneskju sína um þessi rittengsl úr aðfangaskrá Landsbókasafnsins. Og allir, sem þekkja Helgu, vita, að hún hefur gaman af ritum um þjáningar fanga, svo að ekkert er líklegra en hún hafi af sjálfsdáðum lesið bók Lowries og séð á augabragði rittengslin við bók Kambans.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. janúar 2014.)


Árið 2013 gert upp

Hér eru svör mín við spurningum Eyjunnar um árið 2013:

Sigurvegari ársins 2013?

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er hægt og örugglega að þokast upp á við. Hann getur sér traust og virðist vera í góðu jafnvægi. Sá erlendi þjóðarleiðtogi, sem helst vekur traust, er Angela Merkel í Þýskalandi.

Ekki sigurvegari ársins?


Jóhanna Sigurðardóttir beið mesta ósigur í kosningunum 2013, sem nokkur stjórnmálaleiðtogi á Íslandi hefur beðið. Eftir fjögurra ára stjórnarforsæti hennar féll fylgi Samfylkingarinnar úr 30% niður í 13%. Slíkt fylgishrun er einsdæmi í stjórnmálasögu Íslands og þótt víðar væri leitað.

Óvænta stjarna ársins?

Davíð Oddsson sem ræðumaður á frelsiskvöldverði RNH, Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt, 7. október 2013, þegar rétt fimm ár voru liðin frá hinu fræga sjónvarpsviðtali við hann í miðju hruninu. Þegar varð uppselt á kvöldverðinn, og færa varð hann í sífellt stærra húsnæði og sífellt stærri sali, og sátu hann að lokum 141 maður.

PR-slys ársins?

Mál Más Guðmundssonar seðlabankastjóra gegn Seðlabankanum, þar sem hann krafðist þess að fá hærri laun, því að um það hafi verið samið. Már var ráðinn seðlabankastjóri í skjóli nætur, og síðan launaði hann vinnuveitendum sínum með þessum málarekstri, sem varð að vísu sneypuför, því að hann tapaði málinu í Héraðsdómi og Hæstarétti. Már getur hins vegar illa predikað hófsemi í launagreiðslum eftir þetta fáránlega mál.

Það besta sem gerðist á árinu?

Dómur EFTA-dómstóllinn í máli Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi féll Íslendingum í vil í janúar 2013. Íslenski málstaðurinn sigraði. Þetta var stórkostlegur sigur og endahnútur á Icesave-málið. Ísland varð hvorki Kúba norðursins né einhvers konar Norður-Kórea, eins og sumir háskólamenn höfðu haldið fram.

Síðan má nefna, að hagvöxtur á Íslandi fór fram úr áætlunum, eftir að hann hafði árin á undan verið minni en gert hafði verið ráð fyrir. Erlendis lítur út fyrir, að Bandaríkin og Bretland séu að rétta út kútnum. Eins og dr. Nils Karlsson frá Stokkhólmi lýsti í fyrirlestri í janúar 2013, hafa Svíar líka horfið af gömlu sænsku leiðinni, háum sköttum og víðtækri endurdreifingu tekna óháð framlagi, og eru nú feta sig inn á nýju sænsku leiðina, skattalækkanir og aukið svigrúm fyrir einkaframtak.

Það versta sem gerðist á árinu?

Hér innanlands er áhyggjuefni, hversu illa gengur að minnka umsvif ríkisins. Ótal opinberar stofnanir eru reknar, þar sem starfsmennirnir virðast ekki hafa neitt þarfara að gera en sitja fundi hver með öðrum.

Það var mikill missir að því, að Margrét Thatcher, forsætisráðherra Breta 1979–1990, lést á árinu. Hún var ásamt Ronald Reagan í forystu Vesturveldanna, sem sigruðu í Kalda stríðinu. Jafnframt reisti hún Bretland úr rústum.

Hvað gerist 2014 (óskhyggja í bland við raunsæi)?

Íslendingar þurfa að taka aftur upp gott samband við Bandaríkin. Ríkisstjórnin þarf að taka upp nýja utanríkisstefnu og horfa á Atlantshafið og raunar heimshöfin sjö frekar en einblína á meginland Evrópu. Ríkisstjórnin verður að semja við kröfuhafa bankanna og létta gjaldeyrishöftunum af. Hún verður að lækka skatta til að örva atvinnulífið.

(Þessi svör birtust á gamlársdag 2013. Fróðlegt er að lesa þau sjö mánuðum síðar.)


Þeim sást yfir

Haustið 1933 dvaldist Halldór Kiljan Laxness í Barcelona og fékkst við að skrifa Sjálfstætt fólk. Þar var þá staddur Jónas Jónsson frá Hriflu, og bauð sendifulltrúi Íslands í borginni, Helgi P. Briem, þeim Laxness og Jónasi á nautaat. Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur segir í ævisögu Kiljans, sem kom út 2004 (bls. 335): „Þannig atvikast það að Jónas frá Hriflu og Halldór Laxness fara saman á nautaat, en því miður er ekkert vitað meira um þá ferð.“

Ég fléttaði hins vegar inn í bók mína, Kiljan, um ævi Laxness 1932–1949, fjörlega frásögn um þetta sama nautaat, sem Jónas frá Hriflu hafði birt í Dvöl 1934. Frásögnin þótti svo skemmtileg, að hún var endurprentuð í bókinni Langt út í löndin 1944. Lýsti Jónas því með tilþrifum, hvernig naut ráku fyrst hesta riddara á hol í tvísýnum bardögum, en nautabaninn sjálfur birtist síðan í litklæðum og lagði sverð sitt í hjartastað hvers nautsins af öðru.

Nauðsynlegt er að þaulkanna heimildir til að komast hjá vandræðalegum yfirsjónum. Þetta rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég hlustaði á Lemúrinn á Rás eitt 15. október 2013, en þá lýsti Vera Illugadóttir afskekktum eyjum. Hún sagði meðal annars frá Galápagos-eyjum í Kyrrahafi, undan strönd Miðbaugsríkis, Ekvadors. Vera rakti örlagasögu, sem gerðist, eftir að ævintýrakona, sem titlaði sig barónessu, settist að á eynni Floreana 1932.

Það hefur hins vegar farið fram hjá umsjónarmönnum Lemúrsins, að ég birti í 3. hefti Þjóðmála sumarið 2013 ferðasögu mína frá Galápagos-eyjum í júní 2013. Þá hafði ég komist að því, að íslenskur maður hafði flust út í eyjarnar 1931 og borið þar beinin 1945. Hann var einmitt ein helsta frumheimildin um örlagasögu barónessunnar, sem ég endursegi stuttlega í Þjóðmálum. Virðist annar ástmaður barónessunnar hafa drepið hana og hinn ástmanninn, en orðið síðan sjálfur skipreka á eyðiey á leið til meginlandsins og látist úr þorsta ásamt fylgdarmönnum sínum. Bendi ég á, að Georges Simenon notar þessa viðburði sem uppistöðu í skáldsögunni Ceaux de la soif, sem best væri að þýða Hinir þyrstu, og hefur verið gerð sjónvarpsmynd eftir henni. Saga íslenska eyjarskeggjans, sem hét Valdimar Friðfinnsson, er ekki síður ævintýraleg, eins og ég hef minnst hér á.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. desember 2013.)


Bloggfærslur 28. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband