27.7.2014 | 23:41
Fundirnir sem ekki voru haldnir
Fræg eru ummæli Björns Sigfússonar háskólabókavarðar: Þögnin er fróðleg, þó að henni megi ekki treysta um hvert atriði. Stundum segja menn margt með því að þegja. Á sama hátt eru tveir fundir, sem boðaðir voru, en ekki haldnir, merkilegir í íslenskri stjórnmálasögu síðari tíma.
Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, MÍR, héldu venjulega hátíðarfund í Reykjavík á afmæli rússnesku byltingarinnar 7. nóvember, enda nutu samtökin ríflegs fjárhagsstuðnings að austan. Miðvikudagskvöldið 7. nóvember 1956 hafði slíkur fundur verið auglýstur á Hótel Borg, og ræðumaðurinn skyldi vera sjálfur Halldór Kiljan Laxness, sem hlotið hafði Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið áður. Hljóta dyggustu ráðstjórnarvinirnir í Sósíalistaflokknum eins og þeir Jón Rafnsson og Eggert Þorbjarnarson, starfsmenn Sósíalistaflokksins, og Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Dagsbrúnar, að hafa hlakkað til. En Kremlverjar gerðu þeim þann óleik að ráðast inn í Ungverjaland nokkrum dögum áður og kæfa í blóði uppreisn gegn kommúnistastjórninni. Hætt var þegjandi og hljóðalaust við fundinn.
Leið nú rösk hálf öld. Íslenskir vinstri menn höfðu haft húsbóndaskipti. Kremlverjar voru farnir veg allrar veraldar, en breski Verkamannaflokkurinn stjórnaði Bretlandi, hafði sett hryðjuverkalög á Íslendinga og krafist þess, að íslenskir skattgreiðendur greiddu skuldir, sem nokkrir athafnamenn og erlendir viðskiptavinir þeirra höfðu stofnað til. Vildu vinstri menn láta undan þessum kröfum. Þegar því var tvívegis hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum, settu þeir traust sitt á, að EFTA-dómstóllinn liðsinnti þeim. Úrskurðinn átti að kveða upp 28. janúar 2013. Samfylkingin auglýsti fund miðvikudagskvöldið 30. janúar á Hallveigarstíg, þar sem Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, skyldi vera ræðumaður. En vinstri mönnum að óvörum vann Ísland málið. Þá var birt þessi óborganlega auglýsing: Ágæti félagi. Áður auglýstum fundi um Icesave-dóminn sem halda átti á Hallveigarstíg 1 annað kvöld, miðvikudagskvöldið 30. janúar, er frestað vegna þess að húsnæðið á Hallveigarstíg er þétt setið þessa dagana vegna landsfundarverkefna og undirbúnings sem honum tengist.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. desember 2013.)
27.7.2014 | 18:51
Ástarsaga Gunnars Karlssonar
Fyrir skömmu kom út hefti af tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu, og þar er ritdómur eftir mig um bók Gunnars Karlssonar, fyrrv. prófessors (og gamals kennara míns í sagnfræði), um ástir Íslendinga að fornu. Ritdómurinn er lofsamlegur, eins og vera ber, en ég hjó sérstaklega eftir kenningu Gunnars um samkynhneigð Guðmundar ríka, um leið og ég saknaði frambærilegs greinarmunar á Guðrúnu Ósvífursdóttur og Hallgerði Langbrók. Héðan má hlaða dómnum upp:
https://www.academia.edu/7491716/Leyfileg_ast_og_oleyfileg
27.7.2014 | 17:34
Þau sögðu það aldrei
Franski rithöfundurinn Voltaire var kunnur að andríki, svo að margt er eignað honum, sem hann á ekki. Ein frægasta setningin er: Ég er ósamþykkur því, sem þú segir, en ég mun fórna lífinu fyrir rétt þinn til að segja það. Voltaire sagði þetta aldrei, heldur er þetta endursögn S. G. Tallentyres (sem hét réttu nafni Evelyn Beatrice Hall) á skoðun Voltaires á því, er bókin Sálin eða DEsprit eftir Helvetius var brennd opinberlega árið 1759.
Maríu Antoinettu, drottningu Frakklands fram að byltingu, hafa verið eignuð fleyg orð, þegar henni var sagt, að þegna hennar vantaði brauð: Þá geta þau borðað kökur. Hvergi eru til neinar heimildir um, að drottning hafi sagt þetta. Hins vegar hefur heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau nánast sömu orð eftir ónafngreindri prinsessu í Játningum sínum, VI. bók, en þær voru ritaðar, nokkrum árum áður en María Antoinetta kom fyrst til Frakklands.
Ein kunnustu orðin, sem eignuð eru manni ranglega, tengjast líka frönsku stjórnarbyltingunni, sem hófst 14. júlí 1789 með árásinni á Bastilluna í París. Þegar Nixon Bandaríkjaforseti fór til Kína með fríðu föruneyti 1972, var Zhou Enlai, forsætisráðherra Kína, spurður, hvað honum fyndist um áhrif frönsku stjórnarbyltingarinnar. Það er of snemmt að segja til um það, svaraði Zhou. Þetta höfðu margir til marks um djúpa visku hins kínverska stjórnmálamanns, næstráðanda Maós. Talið var, að Kínverjar væru spekingar miklir, sem hugsuðu til langs tíma ólíkt Vesturlandamönnum.
Í ljós hefur komið, að þetta er rangt, eins og dr. Guðni Jóhannesson sagnfræðingur benti mér fyrstur á, en má meðal annars sjá í Financial Times 10. júní 2011. Kínverskar heimildir sýna, að um var að ræða samtal Zhous við öryggismálaráðgjafa Nixons, Henry Kissinger, og Zhou var að svara spurningu um stúdentaóeirðirnar í París 1968, sem sumir æskumenn kölluðu þá byltingu. Bandarískir sendimenn í föruneyti Nixons staðfesta þetta. Verður góð saga hér að víkja fyrir boðorði Ara fróða um að hafa það jafnan, sem sannara reynist.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. desember 2013, að mestu leyti sóttur í bók mína, Kjarna málsins, sem fæst í góðum bókabúðum og er tilvalin gjöf á öllum árstímum.)
27.7.2014 | 10:47
Nasistar, minningar og mannvonska
Oft er misfarið með fleyg orð. Eitt íslenskt dæmi er af Jóni Þorlákssyni, forsætisráðherra og borgarstjóra. Hann á að hafa kallað nasista, sem létu að sér kveða á fjórða áratug, unga menn með hreinar hugsanir. Hið sanna er, að margir þeir, sem stofnuðu Þjóðernishreyfingu Íslendinga vorið 1933, voru alls ekki nasistar, og gerðu þeir kosningabandalag við Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórnarkosningunum 1934. Hinir eiginlegu nasistar tóku ekki þátt í því bandalagi. En Jón Þorláksson sagði á Alþingi 22. maí 1933 í andmælum við eina ræðu Jónasar Jónssonar frá Hriflu: Þá gat hann ekki stillt sig um, sem ekki er von, að senda hnútur til þess æskulýðs, sem í ýmsum flokkum og í ýmsum myndum rís upp til að skipa sér með hreinum hugsunum undir fána þjóðarinnar. Átti Jón bersýnilega annars vegar við fánalið sjálfstæðismanna, sem starfaði um hríð, og hins vegar við félaga í Þjóðernishreyfingunni, sem þá var nýstofnuð, en skiptist síðan í þá, sem gengu í Sjálfstæðisflokkinn, og hina, sem héldu áfram að vera nasistar.
Einnig má nefna hin kunnu vísuorð Hallgríms Péturssonar í XXII. passíusálmi:
Góð minning öngva gerir stoð,
gilda skal meira Drottins boð.
Oft er vitnað í þetta svo: Góð meining enga gerir stoð. En það er rangt. Hallgrímur er hér að tala um venjur eða minningar, sem víkja skuli fyrir Drottins orði.
Þriðja dæmið er í Sturlu sögu, sem gerist á 12. öld. Brandur Sæmundarson, biskup á Hólum, segir við Sturlu Þórðarson í Hvammi, ætföður Sturlunga: Engi maður frýr þér vits, en meir ertu grunaður um gæsku. Oft er þetta haft svo, að Brandur hafi grunað Sturlu um græsku. En hér er sögnin að gruna höfð í fornri merkingu: að hafa efasemdir um eitthvað. Brandur er að segja, að hann efist um gæsku Sturlu eða manngæsku, þótt hann telji hann vissulega slunginn.
Má hér raunar bæta við óskyldri athugasemd. Orðin manngæska og mannvonska eru íslenskulegri en góðmennska og illmennska. Ráðstjórnarríkin voru til dæmis veldi mannvonskunnar í munni Reagans (evil empire), og Eichmann í Jórsölum var hin hversdagslega mannvonska holdi klædd (banality of evil), eins og Hannah Arendt komst að orði.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. desember 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook
27.7.2014 | 07:03
Egill, Jónas og tilvitnanirnar
Bókmenntastjóri Ríkisútvarpsins, Egill Helgason, bloggaði á Eyjunni 6. nóvember 2012 gegn sparnaðartillögum ungra sjálfstæðismanna í ríkisrekstri. Þeir vildu til dæmis, að menn sinntu menningu á eigin kostnað, ekki annarra. Egill kvað þetta minna á nasistann Hermann Göring, sem ætti að hafa sagt: Þegar ég heyri orðið menning, dreg ég fram skammbyssuna. En margir hafa bent á það, þar á meðal ég í bók tveimur árum fyrir blogg Egils, að þetta er rangt haft eftir. Göring sagði þetta hvergi. Þýska leikskáldið Hanns Johst leggur stormsveitarmanni þetta í munn í leikritinu Schlageter, sem frumsýnt var 1933. Wenn ich Kultur höre entsichere ich meinem Browning. Sagnfræðingurinn og byssumaðurinn Egill Stardal fræddi mig á því, að besta íslenska þýðingin væri: Þegar ég heyri orðið menning, spenni ég hanann á byssunni minni! Það er síðan annað mál, hversu smekklegt er að líkja sparnaðartillögum í ríkisrekstri, þar á meðal niðurgreiðslum á þjónustu við yfirstétt vinstri manna (fastagestina í Þjóðleikhúsinu), við nasisma. Sitt er hvað, að biðja fólk að vinna fyrir sér sjálft eða að skjóta það fyrir rangar skoðanir.
Margir aðrir jafnfróðir menn Agli hafa raunar misfarið með fleyg orð. Í greinaflokknum Komandi ár, sem Jónas Jónsson frá Hriflu skrifaði í Tímann sumarið 1921, skipti hann mönnum í samkeppnismenn, sameignarmenn og samvinnumenn og sagði síðan um frjálsa samkeppni á markaði: Máttur er þar réttur, eins og Bismarck vildi vera láta í skiptum þjóða. Hvort tveggja er þetta rangt. Frjáls samkeppni felst ekki í því, að hinn sterkari troði á öðrum, heldur í hinu, að atvinnurekandi leggi sig fram um að fullnægja þörfum viðskiptavina sinna betur eða ódýrar en keppinautarnir. Og Bismarck sagði hvergi, að máttur væri réttur í skiptum þjóða. Í umræðum í fulltrúadeild prússneska Landsdagsins (þingsins) 27. janúar 1863 kvaðst Maximilian von Schwerin ekki geta skilið ræðu Bismarcks þá á undan öðru vísu en svo, að máttur væri réttur. En Bismarck harðneitaði þá og síðar að hafa sagt þetta.
Raunar hafa komið út heilu bækurnar um orð, sem mönnum hafa verið lögð í munn, en þeir ekki sagt, og ræði ég nokkrar slíkar tilvitnanir, innlendar og erlendar, í bók minni frá 2010, Kjarna málsins.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. nóvember 2013.)