26.7.2014 | 23:46
Valtýr
Morgunblaðið minntist aldarafmælis síns á dögunum, og óskuðu allir því til hamingju með daginn nema Egill Helgason, bókmenntagagnrýnandi Ríkisútvarpsins, sem hneykslaðist á því, að Pósturinn gæfi út frímerki af þessu tilefni. Egill sagði ekkert, þegar Pósturinn gaf út frímerki á hundrað ára afmæli Vísis þremur árum áður, og hafði þó það dagblað hætt að koma út löngu áður! Skemmtilegt var í afmælishófinu að hitta gamla ritstjóra Morgunblaðsins, sem tóku mig í fóstur rösklega tvítugan, þá Styrmi Gunnarsson og Matthías Johannessen, þótt ekki hafi fóstursonurinn fylgt þeim í einu og öllu. En ekki er úr vegi á slíkum tímamótum að minnast Valtýs Stefánssonar, sem var ritstjóri Morgunblaðsins frá 1924 og allt til dánardags 1963. Valtýr var um leið einn aðaleigandi blaðsins og vakinn og sofinn í að bæta það og efla. Hann skildi við það stórveldi á íslenskan mælikvarða, eins og fram kemur í fróðlegri ævisögu hans eftir Jakob F. Ásgeirsson rithöfund.
Valtýr var búfræðingur að mennt, og fræg varð skýring hans í júní 1924 á því, hvers vegna hann sneri sér frá búnaðarstörfum. Orsakir þessa verða aðallega raktar til starfsemi Jónasar Jónssonar frá Hriflu, skrifaði hann. Þá er bændum landsins unninn mestur greiði, ef arfaflækja Hriflumannsins verður upprætt úr akri íslenskrar bændastéttar og bændamenningar. Þótt Jónas frá Hriflu væri um margt snjall og stórhuga, má ekki gleyma því, að eitur draup úr penna hans, auk þess sem hann misbeitti valdi sínu herfilega, um leið og hann fékk til þess tækifæri. Nauðsynlegt var það aðhald, sem Valtýr veitti honum í Morgunblaðinu.
Valtýr kom líka snemma auga á hættuna af kommúnismanum. Hann þýddi til dæmis og endursagði þegar árin 1924 og 1926 merkar greinar Antons Karlgrens, prófessors í slavneskum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla, um kúgunina í Rússlandi strax eftir valdarán Leníns. Valtýr þýddi einnig frásagnir breska blaðamannsins Malcolms Muggeridges af hungursneyðinni í Úkraínu 19321934, og réðust íslenskir kommúnistar með Halldór Kiljan Laxness í fararbroddi á hann fyrir það. Þá birtist skáldsaga Ayns Rands um Rússland byltingarinnar, Kíra Argúnova, í íslenskri þýðingu í Morgunblaðinu 1949. En allt það, sem þau Karlgren, Muggeridge og Rand skrifuðu um Rússland Leníns og Stalíns, stóðst og hefur verið staðfest, meðal annars í Svartbók kommúnismans.
Þótt Valtýr ætti í hörðum deilum við þá Jónas Jónsson frá Hriflu og Halldór Kiljan Laxness, sem báðir voru ósjaldan stóryrtir í garð hans, komst hann óskemmdur á sálinni frá þeim deilum, enda gat hann sagt með Páli postula: Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.
26.7.2014 | 16:52
Drýldni
Mörgum þykir gæta nokkurrar drýldni í frásögn Steingríms J. Sigfússonar í nýútkominni bók um það, hvernig hann hafi bjargað Íslandi með þrotlausu erfiði. Talar Steingrímur við íslensku þjóðina í svipuðum anda og alkunn söguhetja úr Brennu-Njáls sögu, Björn í Mörk Kaðalsson, forðum við Kára Sölmundarson: Hvorki frý eg mér skyggnleiks né áræðis eða nokkurrar karlmennsku. En því munt þú hingað kominn að nú mun fokið í öll skjól. Seinna sagði Björn við Kára: Þetta er hættuför mikil og munu fáir hug til hafa nema þú og eg.
Steingrímur J. Sigfússon lætur eins og hann hafi verið einn að verki eftir hrun bankanna. Minnir það óneitanlega á hina óborganlega setningu, sem Gísli Sveinsson, forseti Alþingis 1944, lét út úr sér stundarhátt við kunnan Vestur-Íslending, Valdimar Björnsson, að kvöldi 17. júní 1944: Já, mikið er á eins manns herðar lagt að stofna lýðveldi á Íslandi.
Sumt í bók Steingríms J. Sigfússonar hljómar raunar eins og setningin, sem Jósep Stalín skrifaði sjálfur inn í stutta ævisögu sína frá 1948: Enda þótt hann leysti af hendi hlutverk sitt sem leiðtogi flokksins og fólksins af frábærum dugnaði og nyti ótakmarkaðs stuðnings allrar ráðstjórnarþjóðarinnar, lét Stalín aldrei hinn minnsta vott fordildar, drembilætis eða sjálfsaðdáunar lýta starf sitt. Skýrði Níkíta Khrústsjov frá þessu framlagi Stalíns til bókmenntanna í leyniræðu sinni 1956.
Þegar Steingrímur J. Sigfússon reynir síðan að bera sig saman við aðra og tilkomumeiri íslenska stjórnmálamenn, getur langminnugum mönnum ekki dottið annað í hug en ummæli Bjarna Jónssonar frá Vogi. Hann bar það við að yrkja, en gerði það stirðlega. Eitt sinn sýndi hann Kristjáni Albertssyni hólgrein um skáldskap sinn í þýsku blaði og sagði um leið: Þér skuluð ekki halda, ungi maður, að ég hafi einhverjar áhyggjur af Einari Benediktssyni, ef þér eruð eitthvað að ýja að því!
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. nóvember 2013.)
26.7.2014 | 09:37
Svíþjóð
Fyrir nokkru var ég á ferð í Svíþjóð. Allt er þar í föstum skorðum. Svíar eru áreiðanlegir, nákvæmir, seinteknir, gætnir, veitulir, áhugasamir um Ísland. Landið er fallegt, en heldur er þar kalt að vetrarlagi, enda færði sænski málfræðingurinn Adolf Törneros í dagbók sína 1827: Í Svíþjóð eru aðeins til tvær árstíðir, hvítur vetur og grænn.
Jafnaðarmenn hafa haft mikil áhrif í Svíþjóð og sagt margt fleygt. Frægt var, þegar Ernst Wigforss, sem var lengi fjármálaráðherra Svía, mælti í Ríkisdeginum 1928: Fátæktinni er tekið með jafnaðargeði, þegar henni er jafnað á alla. Sama ár sagði leiðtogi jafnaðarmanna, Per Albin Hansson, sem var forsætisráðherra 19321946, líka í Ríkisdeginum: Einhvern tíma hlýtur hin stéttskipta Svíþjóð að breytast í þjóðarheimilið Svíþjóð. Þessi hugmynd um Folkhemmet eða þjóðarheimilið var lengi leiðarljós sænskra jafnaðarmanna.
Það er hins vegar mikill misskilningur, að Svíar séu allir jafnaðarmenn. Í fyrirlestri, sem ég flutti í þessari ferð í Stokkhólmi, benti ég á, að frjálslyndir, sænskir hagfræðingar hafa haft mikil áhrif á Íslandi. Til dæmis var það, sem Jón Þorláksson, forsætisráðherra og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði um hagskipulag og hagstjórn nánast beint upp úr skrifum sænska hagfræðingsins Gustavs Cassels, sem var áhrifamikill tvo fyrstu áratugi 20. aldar. Birgir Kjaran hagfræðingur, sem reyndi að marka Sjálfstæðisflokknum stefnu laust eftir miðja öldina, skírskotaði til annars sænsks hagfræðings, Bertils Ohlins, sem var lengi formaður Þjóðarflokksins þar í landi.
Íslendingar hafa gert ýmsar athugasemdir við sænska jafnaðarstefnu. Þegar Laxness gerði upp við kommúnismann í Skáldatíma 1963, sagði Bjarni Benediktsson: Í Skáldatíma lýsir Halldór Kiljan Laxness því, hvernig hann breyttist úr kommúnista í Svía. Jón Sigurðsson sagnfræðingur, sem var um skeið ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði einhvern tíma við vin sinn, Harald Blöndal lögfræðing: Ég fór til Rússlands og sá illa heppnaðan sósíalisma. Síðan fór ég til Svíþjóðar og sá vel heppnaðan sósíalisma. Þá var mér nóg boðið. Svíum var loks sjálfum nóg boðið. Nú lækka þeir skatta og leyfa einkarekstur skóla og sjúkrahúsa.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. nóvember 2013.)
26.7.2014 | 05:28
Smáþjóðir og stórþjóðir
Frægasta lýsingin á samskiptum smáþjóða og stórþjóða er í Sögu Pelópsskagastríðanna (5. bók, 17. kafla) eftir gríska sagnritarann Þúkídídes. Aþeningar, sem töldust stórþjóð í Grikklandi hinu forna, kröfðust þess, að Meleyingar, íbúar á eynni Melos, lytu þeim. Enda var yður fullkunnugt eigi síður en oss, að sá ríkari hlýtur að ráða, en réttlæti manna á meðal þar aðeins er jafningjar eigast við, sögðu sendimenn Aþenu. Þýddi Friðrik Þórðarson samræður Aþeninga og Meleyinga, og birtust þær í Tímariti Máls og menningar 1964.
Í alþjóðasamskiptum hefur máttur löngum verið talinn réttur. Sá ríkari hlyti að ráða. Tröll fari sínu fram við dverga. Og þó. Dvergur, sem óttast eitt tröll, getur hallað sér að öðru. Ástæðan til þess, að Kínaveldi hefur lagt undir sig Tíbet, en ekki Taívan, er ekki skortur á vilja, heldur sú staðreynd, að Bandaríkin halda hlífiskildi yfir Taívan. Ef til vill er sannleikskorn í því, sem bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Stanley Kubrick sagði eitt sinn: Stórþjóðir hafa jafnan komið fram eins og dólgar, en smáþjóðir eins og hórur.
Dómur Kubricks er samt ósanngjarn. Það gengur til dæmis kraftaverki næst, að Eystrasaltsþjóðirnar þrjár skuli hafa haldið tungu sinni og eðliseinkunnum eftir margra áratuga tilraunir kastalaherranna í Kreml til að rússneskja þá. Og leiðtogi okkar í sjálfstæðisbaráttunni, Jón Sigurðsson, sagði í bréfi frá 1851: Eftir minni meiningu þá er seiglan okkar besta bjargvættur, og þá þarf ekki að kvíða, ef hún er óbilug.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. október 2013.)