Þjóðsögur um bankahrunið (7)

Margar þjóðsögur eru á kreiki um bankahrunið 2008 og aðdraganda þess. Ein er, að íslenskt atvinnulíf hafi löngum verið gerspillt. Til dæmis segja þau Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir í tímaritsgrein árið 2010: „Fjórtán fjölskyldur réðu frá upphafi mestu í íslenskum kapítalisma, og voru þær stundum kallaðar Kolkrabbinn, en þessi hópur myndaði ráðastétt landsins jafnt í atvinnulífi sem stjórnmálum. Kolkrabbinn stjórnaði ekki aðeins innflutningsverslun, heldur líka samgöngum, bönkum, tryggingafyrirtækjum og fiskveiðum — og síðar verkefnum fyrir varnarstöð Atlantshafsbandalagsins. Í hálfa öld komu flestir valdamenn úr röðum hans, og fjölskyldurnar í honum skiptu með sér opinberum stöðum og bitlingum og lifðu eins og smákóngar í ríkjum sínum.“

Líklega er þessi fróðleikur sóttur í læsilega, en mjög óáreiðanlega bók um íslenska bankahrunið, Meltdown Iceland, sem breski blaðamaðurinn Roger Boyes gaf út 2009. En hér er í fyrsta lagi ruglað saman tveimur hugtökum, fjórtán fjölskyldunum og kolkrabbanum. Ég hef áður bent á, að fjölskyldurnar fjórtán eru ættaðar frá El Salvador, en því landi er skipt í fjórtán umdæmi, og er landeigendastéttin þar stórauðug og eftir því óbilgjörn og tekjudreifing ójöfn. Ólíku er því saman að jafna, El Salvador og Íslandi. Orðið „kolkrabbinn“ um auðmannaklíkur slæddist hins vegar inn í íslenska tungu, eftir að þáttaröð um ítölsku mafíuna með þessu heiti var sýnd í sjónvarpinu 1986–1987. Tóku blaðamenn það síðan upp og notuðu um fámennan hóp kaupsýslumanna undir forystu Halldórs H. Jónssonar húsameistara. Skrifaði Örnólfur Árnason heila bók um þennan hóp árið 1991.Hér eru í öðru lagi ekki lögð fram nein gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu, að einhverjar fjórtán fjölskyldur eða kolkrabbi hafi stjórnað íslensku atvinnulífi. Hver gætu þessi gögn verið? Ég skoðaði lista Frjálsrar verslunar um stærstu íslensku fyrirtækin árin 1980 og 1990. Þá kom í ljós, að kolkrabbinn svonefndi stjórnaði ekki nema einu af tíu stærstu fyrirtækjunum, Flugleiðum. Þrjú voru samvinnufyrirtæki, Samband íslenskra samvinnufélaga, KEA á Akureyri og Olíufélagið. Tvö voru ríkisfyrirtæki, Landsbankinn og ÁTVR. Tvö voru sölusamlög í sjávarútvegi, SH og SÍF.

Í þriðja lagi er fráleitt að nota orð, sem táknuðu óbilgjarna auðstétt í El Salvador eða glæpuklíku á Ítalíu um íslenska atvinnurekendur, sem kunnir voru að prúðmennsku og löghlýðni. Lýsing þeirra Wades og Sigurbjargar á íslensku atvinnulífi mestalla 20. öldina styðst ekki við staðreyndir. Hún er þjóðsaga.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. september 2013.)


Þjóðsögur um bankahrunið (6)

Margt það, sem sagt hefur verið erlendis um bankahrunið íslenska 2008, er með annarlegum blæ. Ein þjóðsagan, sem háskólakennararnir Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir birta í mörgum erlendum blöðum og tímaritum, er um aðgerðir Seðlabankans í byrjun bankahrunsins, dagana 7. og 8. október 2008. Þau segja í New Left Review 2010: „Þegar hrunið hélt áfram af fullum þunga, festi Davíð Oddsson gengi krónunnar við myntkörfu nálægt því gengi, sem verið hafði. “ Þau segja síðan: „Þetta var líklega skammlífasta gengisfesting, sem sögur fara af. En hún entist nógu lengi til þess, að klíkubræður með réttar upplýsingar gátu losnað við krónur sínar á miklu hagstæðara gengi en síðar bauðst. Innanbúðarmenn segja, að milljörðum króna hafi verið skipt út fyrir gjaldeyri á þessum klukkutímum.“ Þau hafa endurtekið þessa sögu víðar.

Sagan er þó tilhæfulaus. Seðlabankinn festi ekki gengið þennan tíma, heldur gerði hann kauptilboð til viðskiptabankanna þriggja á genginu 131 króna á móti evru. Sérstaklega var tekið fram á vef bankans, bæði á íslensku og ensku, að ekki væri um gengisfestingu að ræða. Einnig kom þar fram, að í þessum viðskiptum seldu bankarnir Seðlabankanum alls 786 milljónir króna eða sex milljónir evra, ekki neina milljarða, eins og þau Wade og Sigurbjörg segja.

Hins vegar er alvarleg ásökun fólgin í orðum þeirra Wades og Sigurbjargar um, að „klíkubræður með réttar upplýsingar“ hafi gripið tækifærið til að selja Seðlabankanum krónur. Þetta kauptilboð takmarkaðist við millibankamarkað. Voru „klíkubræður Davíðs“ þá ráðamenn viðskiptabankanna? Sigurður Einarsson og Jón Ásgeir Jóhannesson? Ég spurði Wade, hvaða „innanbúðarmenn“ hefðu veitt þeim Sigurbjörgu upplýsingar. Hann nefndi mann í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið. Allir þrír nefndarmennirnir hafa sagt mér, að það sé rangt. Einnig nefndi Wade ónefndan starfsmann Landsbankans og hagfræðing í Bretlandi. Hvort sem þeir menn voru úr álfheimum eða mannabyggð, voru þeir ekki innanbúðarmenn. Þeir höfðu engan aðgang að innviðum Seðlabankans. En slíkan aðgang þurfti ekki heldur, því að allar upplýsingar voru tiltækar á vef bankans. Saga Wades og Sigurbjargar er þjóðsaga. 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. september 2013.)


Þjóðsögur um bankahrunið (5)

Margar þjóðsögur hafa komist á kreik um bankahrunið íslenska árið 2008, enda spruttu þá óprúttnir náungar út úr öllum skúmaskotum og sögðu, að sinn tími væri kominn. Ein þjóðsagan hefur meira að segja verið kynnt í erlendum blöðum. Þau Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir sögðu í breska marxistatímaritinu New Left Review 2010 um árin fyrir bankahrunið: „Hagstofa Íslands, sem sá um að safna gögnum, var kúguð, svo að eftirtekt vakti, til að stinga undir stól upplýsingum um síaukinn ójöfnuð tekna og eigna, og áræddi hún vart að vekja athygli á óhagstæðri þróun.“ Þau endurtóku þessa alvarlegu aðdróttun í Huffington Post sama ár.

Þegar Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands auglýsti fund með Robert Wade 6. september 2013, notaði ég tækifærið til að inna hann eftir því, hvað hann hefði til síns máls, enda átti fyrirlestur hans að vera um tekjudreifingu. Wade sagði enda margt um tekjudreifingu á Íslandi, vitnaði til Stefáns Ólafssonar prófessors og sýndi línurit frá honum. Þegar fyrirlestrinum lauk, stóð ég á fætur og spurði Wade: „Þú hefur skrifað í New Left Review og Huffington Post, að íslenska hagstofan hafi verið kúguð til að stinga undir stól upplýsingum um þróun í átt til ójafnari tekjudreifingar. Hver eru gögn þín fyrir þessari alvarlegu ásökun á hendur hagstofunni, og ef þú getur ekki lagt fram nein gögn, ertu þá reiðubúinn að draga þessa ásökun til baka?“

Wade sagði þá, að þessi spurning varðaði ekki efni fyrirlesturs síns, svo að hann myndi ekki svara henni. Hafði fyrirlesturinn þó verið um tekjudreifingu! En skýringin á því, að Wade varð svara fátt, er auðvitað, að hann hefur engin gögn í höndunum, enda er ásökun þeirra Sigurbjargar fráleit. Á hagstofunni vinna allra flokka menn, sem eiga það eitt sameiginlegt að vera samviskusamir og talnaglöggir. Hagstofan hefur ekki stungið neinum gögnum undir stól, heldur notað sömu reikningsaðferðir um tekjudreifingu og hagstofur annarra landa. Með þeim aðferðum mátti sýna, að tekjudreifingin var árið 2004 ekki ójafnari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum, þótt nokkrir óprúttnir náungar hefðu haldið öðru fram.

Séra Eggert Sigfússon á Vogsósum flokkaði sóknarbörn sín í skúma og lóma. Skúmarnir voru hrokafullir og óheilir, lómarnir hjartahreinir og lítillátir. Ekki þarf að hafa mörg orð um, í hvorri þvögunni þessir þjóðsagnahöfundar eru.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. september 2013.)


Þjóðsögur um bankahrunið (4)

Nokkrar bækur hafa birst á ensku um bankahrunið, og kennir þar margra grasa. Ein er Deep Freeze: Iceland’s Economic Collapse eftir Philipp Bagus og David Howden, sem kom út hjá Ludwig von Mises-stofnuninni í Alabama 2011. Þessum tveimur ungu hagfræðingum er mjög í mun að kenna Seðlabankanum íslenska um bankahrunið 2008. Hann hafi ábyrgst skuldir banka, svo að þeir hafi hegðað sér gáleysislega. Þeir Bagus segja á bls. 95: „Seðlabankinn, sem var undir stjórn Davíðs Oddssonar, sendi 13. nóvember 2001 frá sér fréttatilkynningu, sem fól í sér, að hann yrði þrautavaralánveitandi fjármálakerfisins.“

Í fyrsta lagi var Davíð Oddsson ekki seðlabankastjóri 2001. Í öðru lagi var þessi fréttatilkynning um, að ný lög um Seðlabankann hefðu tekið gildi. Ekki var í lögunum minnst á, að Seðlabankinn yrði þrautavaralánveitandi, heldur honum aðeins veitt heimild til að veita fjármálastofnunum lán. Í fréttatilkynningunni sagði, að samkvæmt lögunum væri Seðlabankanum veitt heimild til að veita þrautavaralán. En slík heimild felur ekki í sér skyldu.

Í þriðja lagi vísaði Davíð sjálfur því beinlínis á bug, að Seðlabankinn þyrfti undir öllum kringumstæðum að gegna slíku hlutverki. Hann sagði á blaðamannafundi í Seðlabankanum 8. maí 2008: „Skyndilega hefur það gerst, þegar fjárþurrð skapast, að þá kemur upp sú kenning, að seðlabankar eigi að vera einhvers konar ábyrgðarsjóður banka, í hvaða stærð sem þeir fara. Þetta hefur maður nú aldrei heyrt um áður, að bankar eigi að stækka eins og þeim hentar og taka þá áhættu, sem þeim hentar, en síðan beri almenningi, fyrir meðalgöngu síns seðlabanka, að vera einhvers konar ábyrgðarsjóður út í það óendanlega fyrir slíka starfsemi.“ Davíð bætti við, að vissulega hlyti Seðlabankinn að reyna að tryggja peningalegan stöðugleika og stuðla að fjármálastöðugleika.

Það er því enn ein þjóðsagan, að Seðlabankinn hafi undir forystu Davíðs Oddssonar ýtt undir ábyrgðarleysi fjármálastofnana.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. september 2013.)


Bloggfærslur 20. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband