Þjóðsögur um bankahrunið (3)

Ég hef síðustu mánuði reynt að lesa allar þær bækur og ritgerðir, sem komið hafa út á ensku um bankahrunið. Þar hef ég rekist á fjöldann allan af ónákvæmum staðhæfingum. Til dæmis kom 2011 út bók hjá stofnun, sem kennd er við minn gamla lærimeistara (þótt ég hitti hann raunar aldrei), austurríska hagfræðinginn Ludwig von Mises, og hefur hún bækistöðvar í Alabama í Bandaríkjunum. Bókin nefnist Deep Freeze: Iceland’s Economic Collapse og er eftir tvo unga hagfræðinga, Philipp Bagus og David Howden. Þeir rekja bankahrunið til rangrar stefnu Seðlabankans, sem hafi skapað þenslu.

Eflaust má gagnrýna stefnu Seðlabankans í ýmsum málum, en gagnrýni þeirra Bagusar og Howdens missir marks vegna vanþekkingar þeirra á íslenskum aðstæðum. Þeir segja til dæmis á bls. 12–13, að seðlabankinn hafi minnkað bindiskyldu úr 4% í 2% árið 2003. „Ólíkt starfsbræðrum sínum í öðrum seðlabönkum minnkaði Davíð Oddsson (áður forsætisráðherra) bindiskylduna, sem átti að knýja banka til að hafa varasjóði, þegar að kreppti.“ En Davíð var í fyrsta lagi ekki seðlabankastjóri árið 2003. Í öðru lagi var bindiskyldan þá færð að kröfu bankanna sjálfra niður í hið sama og í grannríkjunum, svo að þeir gætu keppt við sömu skilyrði. Í þriðja lagi var leyft síðar, vorið 2008, að bindiskyldan næði ekki til innstæðna í erlendum útbúum eða dótturfélögum bankanna, enda hnigu þau rök að því, að þeir peningar væru geymdir erlendis og gætu því ekki valdið þenslu á Íslandi. Beitti Yngvi Örn Kristinsson, þá hagfræðingur í Landsbankanum, sér sérstaklega fyrir þessum rýmkuðu reglum um bindiskyldu.

Spakvitringar og spámenn kaffihúsanna og spjallþáttanna hafa hins vegar tuggið það hver eftir öðrum, að ein ástæðan til bankahrunsins hafi verið lækkun bindiskyldu hér á landi. Hún hafði nákvæmlega engin áhrif á bankahrunið. Orsakir þess voru aðrar. Það er einkennilegt, að þessir tveir ungu hagfræðingar á vegum Ludwig von Mises-stofnunarinnar hafi ráðist í að skrifa heila bók um íslenska bankahrunið án þess að kynna sér að ráði aðstæður á Íslandi. Þess í stað segja þeir þjóðsögur um bankahrunið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. ágúst 2013.)


Þjóðsögur um bankahrunið (2)

Margar þjóðsögur hafa komist á kreik um bankahrunið íslenska 2008. Við því hefði þó mátt búast, að þær yrðu ekki margar í safni greina, sem samdar voru fyrir hrun, en það kom út í Lundúnum 2011 undir heitinu Preludes to the Icelandic Financial Crisis. En annar ritstjórinn, Gylfi Zoëga, skrifar í formála (24. bls.): „Einnig er ófyrirgefanlegt, að ríkisstjórnin og Seðlabankinn skyldu ekki gera neyðaráætlun, sem framkvæma mætti, ef einn eða fleiri bankar hryndu.“

Ég sat í bankaráði Seðlabankans frá 2001 til 2009, og þó að menn töluðu varlega, jafnt á fundum ráðsins og opinberlega, segir Gylfi hér þjóðsögu um bankann. Davíð Oddsson seðlabankastjóri varaði margsinnis við óhóflegri skuldasöfnun bankanna, til dæmis í ræðu á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007, sem lesa má á Netinu. Hann gekk líka að minnsta kosti þrisvar á fund ráðherra til að vara við í aðdraganda bankahrunsins, eins og rakið er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (7. bindi, 21. kafla), til dæmis 7. febrúar, 1. apríl og 8. júlí 2008. Ég veit af samtölum við hann á þessum tíma, að hann var svo sannarlega myrkur í máli.

Jafnframt undirbjó Seðlabankinn í kyrrþey neyðaráætlun, sem var tiltölulega einföld og Davíð lýsti í aðalatriðum í Kastljósi 7. október 2008. Hún var, ef illa færi, að ríkið þjóðnýtti þá hinn íslenska hluta bankakerfisins, en léti hinn erlenda sigla sinn sjó, eignir og skuldir. Þessi leið hefur stundum verið kennd við Washington Mutual og er alþekkt í fjármálafræðum. Hún er fólgin í að skipta banka upp í „góðan“ banka og „vondan“, reka áfram góða bankann og gera upp hinn vonda. Þessi neyðaráætlun var gerð í samráði við fjármálafyrirtækið J. P. Morgan, og stjórnaði Michael Ridley, afburðasnjall maður, því verkefni af þess hálfu. (Össur Skarphéðinsson sagði við Rannsóknarnefnd Alþingis, að Ridley hefði verið prúðbúinn og vel mæltur yfirstéttar Breti, en ég get upplýst, að hann braust úr fátækt til bjargálna, þótt hann tali prýðilega ensku.) Davíð lýsti þegar í ágúst 2008 þessari Washington Mutual-leið fyrir mér, en vitanlega bar mér að gæta trúnaðar. Allir góðgjarnir menn vonuðu síðan auðvitað í lengstu lög, að ekki þyrfti að grípa til neinnar slíkrar áætlunar, og sennilega hefur fátt verið skjalfest um hana. Þess vegna er það ómaklegt um Seðlabankann, sem Gylfi Zoëga segir, að hann hafi ekki gert neyðaráætlun. Gylfi á að birta þjóðsögur sínar í þjóðsagnasöfnum, ekki fræðiritum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. ágúst 2013.)


Þjóðsögur um bankahrunið (1)

Liðin eru fimm ár frá bankahruni. Ég hef síðustu vikur verið að grúska í þeim ritverkum, sem komið hafa út um það, og eru þau misjöfn að gæðum. Ég tek hins vegar eftir því, að kviknað hafa ýmsar þjóðsögur um bankahrunið, sem ganga síðan aftur í hverri bókinni af annarri. Mér til nokkurrar undrunar rakst á ég á eina slíka í greinasafni, sem ég hélt fyrir, að væri fræðilegasta ritið um hrunið, sem enn væri völ á. Það heitir Preludes to the Icelandic Financial Crisis. Gaf Palgrave Macmillan það út 2011, og voru ritstjórar Robert Aliber, sem sagði einmitt margt skynsamlegt um aðstæður á Íslandi, og Gylfi Zoëga. Flestar greinarnar voru skrifaðar fyrir bankahrun. Ein var þó samin eftir það og er eftir Þröst Sigurjónsson, og er hún eins konar yfirlit um atburðarásina. Þar segir Þröstur (33. bls.): „Íslenski seðlabankinn lét frá sér fara ummæli, sem skilin voru á þann veg, að Íslendingar myndu ekki standa við skuldbindingar sínar gagnvart breskum innstæðueigendum. Viðbrögð bresku ríkisstjórnarinnar voru að leggja hald á breskar eignir allra íslensku bankanna í krafti laga gegn hryðjuverkasamtökum.“

Þröstur vísar hér bersýnilega til viðtals í Kastljósi Sjónvarpsins að kvöldi 7. október 2008 við Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabankans, þar sem hann kvað skattgreiðendur ekki eiga að greiða skuldir óreiðumanna. En beiting hryðjuverkalaganna gegn Landsbankanum morguninn eftir stóð ekki í neinu sambandi við ummæli Davíðs, enda nefndi enginn breskur ráðamaður þau heldur. Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, vitnaði opinberlega í samtal sitt við Árna Mathiesen fjármálaráðherra, sem hafði farið fram að morgni 7. október, og staðfesti Darling fyrir þingnefnd, að hann hefði átt við samtal sitt við Árna. Er þetta rakið nákvæmlega í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, 7. bindi, 20. kafla, 149. bls., sem kom út ári áður en Þröstur Sigurjónsson birti grein sína. Afskrift af samtali þeirra Árna og Darlings leiðir að vísu í ljós, að Darling vitnaði rangt í það. Líklegast er því, eins og Árni hefur varpað fram, að Bretar hafi ákveðið með einhverjum lengri fyrirvara að beita Íslendinga hörku. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er bent á (s. r., 248. bls.), að Darling hefði orðið fyrir vonbrigðum með fund sinn 2. september 2008 með Björgvin G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra og Jóni Sigurðssyni, stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins. Er sennilega þar að leita einnar ástæðunnar til tortryggni breskra stjórnvalda í garð Íslendinga.

Þjóðsögur eiga hins vegar heima í þjóðsagnasöfnum, ekki í vönduðum fræðiritum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2013.)


Huldumaðurinn fundinn

Í för til Galápagos-eyja síðast liðinn júní varð ég þess áskynja, að Íslendingur hefði búið þar frá 1931 og borið beinin vorið 1945. Kallaði hann sig Walter Finsen, og hitti íslenskur sjómaður á norsku skipi hann vorið 1944. Vildi hann þá ekki segja full deili á sér. Einnig birtist löng grein um hann í Morgunblaðinu 1967 eftir þýska blaðakonu, sem þekkti vel til á Íslandi, var þá nýkomin frá Galápagos-eyjum og hafði hitt gamla granna Íslendingsins. Kom fram í þessum heimildum, að hann hefði stundað ýmis störf víða í Vesturheimi, meðal annars í Mexíkó og Venesúela. Í nokkrum gögnum á ensku er einnig á hann minnst. Velti ég fyrir mér hér fyrir skömmu, hver maðurinn væri. Hálfdan Helgason, tæknifræðingur og ættfræðingur, varpar fram í Morgunblaðinu 3. ágúst langlíklegustu ráðningu gátunnar.

Maður var nefndur Valdimar Friðfinnsson, bóndasonur frá Hvammi í Hjaltadal, fæddur 9. desember 1876. Hann flosnaði 1896 upp úr Lærða skólanum í Reykjavík og virðist þá hafa reynt að flytjast til Vesturheims, en var snúið við í Leith í Skotlandi. Í manntali 1901 er hann skráður háseti á skonnortu Ørum & Wulff-verslunarfélagsins, sem var umsvifamikið á Norðausturlandi. Síðan eru til um hann fjórar heimildir, sem Hálfdan bendir á, smáfréttir úr blöðum Vestur-Íslendinga. Fór hann ásamt Jóhannesi Jóhannessyni og norskum manni í leiðangur til Bólivíu 1912, og leituðu þeir félagar að gulli, olíu og verðmætum steinum. Þeim tókst bersýnilega ekki ætlunarverk sitt, og er Jóhannes kominn til Kaliforníu og Valdimar til Tampico í Mexíkó sumarið 1914. (Jóhannesi bregður fyrir í bók minni um Jón Þorláksson forsætisráðherra, en þeir voru bekkjarbræður í Lærða skólanum.)

Ég tel einsætt, að Valdimar sé Íslendingurinn á Galápagos-eyjum. Ástæðan er ekki aðeins, að allt kemur heim og saman um feril hans, eins og hann sagði Íslendingnum frá 1944 og grannar hans einnig þýsku blaðakonunni 1967. Hún er líka, að Valdimar er á ljósmynd af nemendum Lærða skólans frá vorinu 1896, og til eru ljósmyndir af Íslendingnum Finsen á Galapagos-eyjum, og er sterkur svipur með þeim. Walter Finsen var því mjög líklega Valdimar Friðfinnsson. Hann á þá ættingja á Íslandi, en hann var föðurbróðir Magnúsar Gamalíelssonar útgerðarmanns og ömmubróðir Herdísar Egilsdóttur, kennara og rithöfundar. Rek ég örlög hans nánar í síðasta hefti Þjóðmála. Raunar gerðist svo margt sögulegt á árum Valdimars á Galápagos-eyjum, að franski rithöfundurinn Georges Simenon notar það sem uppistöðu í einni skáldsögu sinni, sem sjónvarpsmynd hefur verið gerð eftir.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2013.)


Bloggfærslur 19. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband