Um Verslunarmannahelgi

Um verslunarmannahelgina fer vel á því að rifja upp gildi verslunar. Jón biskup Vídalín segir í prédikun tíunda sunnudag eftir Trinitatis: „Það er víst, að ekki getur veröld þessi staðist án kauphöndlunar. Mismun hefur hinn alvísi skapari gjört bæði landanna og mannanna, en engum hefur hann gefið allt.“

Um svipað leyti og Vídalín mælir þessi orð, skrifar enska skáldið Addison í tímaritið Spectator 1711: „Nytsamlegri menn eru ekki til en kaupmenn. Þeir binda mannkyn saman í gagnkvæmum samskiptum góðra verka, dreifa gjöfum náttúrunnar, veita fátæklingum atvinnu, bæta við auð hinna ríku og vegsemd hinna miklu. Hinn enski kaupmaður vor breytir tini í eigin landi í gull og skiptir ull fyrir rúbína. Fylgismenn Múhameðs spámanns klæðast breskum fatnaði, og íbúar hinna nístingsköldu Norðurslóða skýla sér í gærum af sauðum vorum.“ Addison bætir við: „Án þess að viðskiptin hafi bætt neinum löndum við ríki Bretakonungs, hafa þau fært oss eins konar viðbótarveldi. Þau hafa margfaldað tölu efnamanna, aukið stórkostlega verðmæti jarða vorra og bætt við aðgangi að öðrum jörðum jafnverðmætum.“Þetta er í svipuðum anda og Jón Sigurðsson, sem var eindreginn frjálshyggjumaður, segir í Nýjum félagsritum 1843: „Ekkert land í veröldinni er sjálfu sér einhlítt, þó heimska mannanna hafi ætlað að koma sér svo við, að það mætti verða, en ekkert er heldur svo, að það sé ekki veitanda í einhverju og geti fyrir það fengið það, sem það þarfnast. En þegar það getur fengið það, og það veitir einmitt verslanin, þá er það eins og það hefði sjálft þessi gæði. Þegar nú verslanin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hefir aflögu, þangað sem hún getur fengið það, sem hún girnist.“

Einnig mætti minna á það, sem Halldór Kiljan Laxness leggur í munn söguhetju sinnar í Íslandsklukkunni, Arnæi: „En það voru ekki mjölbætur sem ég æskti þessu mínu fólki, og ekki hallæriskorn, heldur betri verslun.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. ágúst 2013.)

Hver var Kolkrabbinn?

Undanfarið hef ég verið að lesa erlendar bækur um bankahrunið íslenska 2008. Ein þeirra heitir „Meltdown Iceland“ og er eftir Roger Boyes, fréttaritara Lundúnablaðsins Times í Berlín. Þótt hún sé skemmtileg aflestrar, er hún afar óáreiðanleg, full af kjaftasögum, sumum tilhæfulausum, en flytur einnig ýmsar hæpnar kenningar. Ein er, að „kolkrabbinn“ hafi í samráði við „fjölskyldurnar fjórtán“ löngum stjórnað íslensku atvinnulífi. Ég hef áður bent á, að „fjölskyldurnar fjórtán“ er blaðamannamál, sem notað var um helstu landeigendur í El Salvador, en umdæmi þess lands eru fjórtán. Fyrst var það heimfært upp á Ísland, svo að ég hafi séð, 1987.

Kolkrabbinn er líka gamalt og útslitið vígorð. Það var oft notað í Bandaríkjunum fram undir 1900 um einokunarkapítalisma. Bandaríski rithöfundurinn Frank Norris skrifaði jafnvel skáldsögu undir hinu enska heiti, Octopus, árið 1901, um átök bænda og járnbrautareigenda. Fyrsta dæmið um staðfærslu þessa hugtaks, sem ég hef rekist á, er í kvikmyndagagnrýni í Þjóðviljanum 8. desember 1949: „Þá var kolkrabbinn í íslensku stjórnmála- og atvinnulífi, Thorsættin, ekki farinn að teygja arma sína yfir höfin til þess að þrýsta hendur verkalýðsböðla eins og Francos.“ Orðið var nokkrum sinnum notað næstu áratugina, ýmist til að tákna ofvöxt ríkisins, sem teygði anga sína í allar áttir, eða veldi Sjálfstæðisflokksins á vettvangi stjórnmálanna. Kolkrabbi í yfirfærðri merkingu kemur líka fyrir í skáldlegri heimsádeilu frá 1957, Jónsmessunæturmartröð á Fjallinu helga, eftir Loft Guðmundsson, blaðamann, rithöfund og hagyrðing.

Árin 1986–1987 sýndi Sjónvarpið þrjá leikna framhaldsþætti um ítölsku mafíuna, og nefndust þeir „Kolkrabbinn“. Þaðan hefur Friðrik Þór Guðmundsson blaðamaður sennilega haft líkinguna, þegar hann skrifaði fréttaskýringuna „Kolkrabbinn á gullkistunni“ í Pressuna 2. september 1988, en hún var um Íslenska aðalverktaka. Í mars 1990 birtist síðan fréttaskýring eftir blaðamennina Óskar Guðmundsson og Pál Vilhjálmsson í tímaritinu Þjóðlífi, „Kolkrabbi eða kjölfesta. Íslenska fyrirtækjaveldið. Átök og ítök.“ En þjóðþekkt varð hugtakið þó ekki, fyrr en Örnólfur Árnason rithöfundur gaf út metsölubókina Á slóð kolkrabbans haustið 1991. Þar hélt hann því fram, að fámennur hópur kaupsýslumanna réði íslensku atvinnulífi og sæti yfir hlut annarra, og væri Halldór H. Jónsson húsateiknari helsti forvígismaður hans. Gagnrýnendur sögðu, að Örnólfur gerði of mikið úr einum hópi á kostnað annarra, til dæmis þeirra kaupsýslumanna, sem ótengdir væru vinahópi Halldórs H. Jónssonar, að ógleymdri samvinnuhreyfingunni, sem var mjög öflug á Íslandi allt frá 1920 til 1990. En hvað sem öllum ýkjum líður, hvarf þessi „kolkrabbi“ úr sögunni á síðasta áratug tuttugustu aldar, þótt hann gangi nú aftur í bók Boyes.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. júlí 2013.)


Dæmi um heift vinstri manna

Ég skal játa, að ég varð hissa, þegar ég fékk tölvuskeyti frá Gunnari Gunnarssyni fréttamanni föstudagsmorguninn 22. nóvember 2013 um það, hvort ég gæti komið í Spegilinn þá síðdegis til að ræða um morðið á Kennedy Bandaríkjaforseta að liðinni hálfri öld. Samkennarar mínir í stjórnmálafræði hafa síðustu fimm árin verið tíðir gestir í Speglinum, en aldrei verið leitað til mín þar. Það hefur að vísu ekki haldið fyrir mér vöku, enda finnst mér satt að segja nóg framboð af mér í fjölmiðlum. Mín hugmynd um gott líf er að grúska á daginn og grilla á kvöldin, en ekki að láta móðann mása opinberlega. Ég kvað þó já við að koma, enda hef ég kennt námskeiðið Bandarísk stjórnmál í stjórnmálafræðideild og dvalist langdvölum í Bandaríkjunum, meðal annars sem gistifræðimaður í Stanford-háskóla, Kaliforníuháskóla í Los Angeles (UCLA) og George Mason-háskóla í Virginíu, tvisvar sem Fulbright-fræðimaður. Viðtalið gekk bærilega, og Gunnar var hinn alúðlegasti.

En annað undrunarefni tók síðan við. Ég las ummæli vinstri manna á Snjáldru (Facebook) um viðtalið. Það var eins og orðið hefði héraðsbrestur! Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi alþingismaður, skrifaði færslu: „Af hverju er Hannes Hólmsteinn í útvarpinu mínu?“ Síðan var röð af athugasemdum. Helga R. Óskarsdóttir skrifaði til dæmis: „Vantar ekki bara síðu á viðtækið þitt?“ Róbert Gíslason skrifaði: „Vírus?“ Vilhelm G. Kristinsson sagði: „Hann ætti fyrir löngu að hafa sagt sitt síðasta orð.“

Við þessa færslu Margrétar Tryggvadóttur höfðu 20 merkt velþóknun, þau Hans Kristján Árnason, Samúel Jóhannsson, Sigrún Hallsdóttir, Sigurður H. Magnússon, Margrét Rún, Þórunn Hreggviðsdóttir, Einar Sandoz, Helgi Jónsson, Erling Ingvason, Ingólfur Hermannsson, Birna Guðmundsdóttir, Sigurður Einarsson, Hans Júlíus Þórðarson, Guðrún Ágústa Ágústsdóttir, Siggi Hólm, Hólmfríður Sólveig Haraldsdóttir, Örnólfur Hall, Helga Dröfn Högnadóttir, Gunnar Steinn Gunnarsson og Bjarnheiður Bjarnadóttir.

En hvenær varð Ríkisútvarpið þinglýst eign vinstri manna? Var ég skyndilega boðflenna í útvarpinu þeirra? Ég var að vísu feginn, að Margrét úrskurðaði mig ekki geðveikan, eins og gerst hefur í dæmi annarra. En ekki veit ég, hver útfærslan yrði á þeirri skoðun Vilhelms G. Kristinssonar (fyrrverandi fréttamanns), að ég hefði fyrir löngu átt að hafa sagt mitt síðasta orð.

Og Jón Þórisson, fyrrverandi aðstoðarmaður Evu Jolie, skrifaði færslu: „Heyrðuð þið Hannes Hólmstein í Speglinum um JFK? Ég veit ekki hvernig ykkur varð við en ég hringdi í fréttastofu RUV og kvartaði.“

Fjöldi athugasemda fylgdi þessari færslu, sumar eftir nafnkunna menn. Til dæmis sagði Þór Saari, hinn greinargóði heimildarmaður rannsóknarnefndarinnar um Íbúðalánasjóð: „Þetta var einhver hlægilegasta umfjöllun sem ég hef heyrt. Þvílíkt bull og þvæla.“ Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur skrifaði: „Það má heita algilt lögmál að í hvert sinn sem Sjálfstæðismenn hafa Menntamálaráðuneytið fer Hannes Hólmsteinn að ríða húsum í Ríkisútvarpinu.“ Eini tölvuvinur Jóns Þórissonar, sem virtist vera í jafnvægi, var Egill Helgason, sem skrifaði: „Fólk getur verið ósammála Hannesi, en hann hlýtur nú að mega tala í útvarpið.“

Við þessa færslu Jóns Þórissonar höfðu 37 menn merkt velþóknun, þau Andri Sigurðsson, Matthildur Torfadóttir, Ásdís Thoroddsen, Þórunn Hreggviðsdóttir, Viðar Ingvason, Birna Guðmundsdóttir, Vala Friðriksdóttir, Einar Ólafsson, Júlíus Guðmundsson, Þráinn Bertelsson, Örnólfur Hall, Lára Hanna Einarsdóttir, Sigrún Helgadóttir, Jacob Thor Haraldsson, Björn Þorsteinsson, Arna Mosdal, Margrét Auðuns, Einar Þór Jörgensen, Hjördís Guðbjörnsdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir, Hjálmtýr Heiðdal, Jón Kristófer Arnarson, Hildur Rúna Hauksdóttir, Máni Ragnar Sveinsson, Regína Stefnisdóttir, Sigurður Hauksson, Morten Lange, Anna Þórisdóttir, Katrín Hilmarsdóttir, Ragnheiður Gestsdóttir, Einar Steingrímsson, Hlynur Hallsson, Kristín I. Pálsdóttir, Andrea Þormar, Elísabet Ronaldsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Björg Sveinsdóttir. Þetta eru ekki allt dulnefni. Á bak við sum þessi nöfn stendur raunverulegt fólk, jafnvel tveir fyrrverandi alþingismenn.

Og Jón Þórisson kvartaði! Eftir öll viðtöl Spegilsins við þá Þórólf Matthíasson (sem vorið 2012 voru orðin 32 frá bankahruni) og sálufélaga hans, eins og rakið er hér í Viðskiptablaðinu.

Það er ótrúleg heift í þessu fólki. Hefur það ekkert merkilegra að gera en að hata mig? Ég er svo sannarlega ekki maður að þess skapi. En því miður get ég ekki bent því á að fara sér til hughreystingar á leikritið eftir Braga Ólafsson, sem sett var upp mér til háðungar í Þjóðleikhúsinu, því að sýningum á því hefur verið hætt vegna dræmrar aðsóknar.


Bloggfærslur 18. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband