Nýtt myndband um sjálfselsku

Hér er myndband með upptöku af ræðu dr. Yarons Brooks, sem hann flutti, þegar skáldsagan Kíra Argúnova eftir Ayn Rand kom út á íslensku 1. nóvember 2013. Þar færir hann rök fyrir því, að menn eigi að elska sjálfa sig, og svarar mjög vel erfiðum spurningum, sem beint var að honum. Enginn hinna fjölmörgu vinstri manna, sem deilt hafa á kenningar Ayns Rands, sá sér fært að koma, þótt ég hefði tekið frá sæti fyrir þá á fremsta bekk.

 


Hrollvekjur tuttugustu aldar

Evrópa tuttugustu aldar er full af hrollvekjum. Hún var full af fórnarlömbum. Nasistar myrtu um eða yfir 20 milljónir manna, að því er talið er, þar af sex milljónir gyðinga. (Þegar átt er við þjóðflokkinn eða trúflokkinn, á að skrifa nafnið með litlum staf, en með stórum, þegar rætt er um þjóðina.) Kommúnistar myrtu um eða yfir 100 milljónir manna, eins og kemur fram í Svartbók kommúnismans, sem ég ritstýrði og þýddi á íslensku 2009. Stéphane Courtois prófessor var ritstjóri frönsku frumútgáfunnar, og hann var einn af ræðumönnum á fundi Evrópuvettvangs um minningu og samvisku, sem ég sótti í Haag 12.–13. nóvember 2013. Á meðal annarra ræðumanna var Vytautas Landsbergis, fyrsti forseti Litháens, eftir að hernámi Rússa lauk 1991. (Íslendingar viðurkenndu aldrei innlimun Litháens og annarra Eystrasaltsríkja í Ráðstjórnarríkin 1940 og urðu fyrstir þjóða til að endurnýja hina gömlu viðurkenningu sína á sjálfstæði þeirra í ágúst 1991.)

Ég sagði á ráðstefnunni frá samstarfsverkefni RNH (Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt) og AECR (Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna) um „Evrópu fórnarlambanna“, en fjöldi fræðimanna og rithöfunda í fremstu röð hafa heimsótt Ísland í tengslum við það verkefni: dr. Bent Jensen prófessor, einn fremsti sérfræðingur Dana um kommúnisma, dr. Niels Erik Rosenfeldt prófessor, sem skrifað hefur tveggja binda verk um leynilega starfsemi Kominterns, dr. Øystein Sørensen prófessor, einn helsti sérfræðingur Norðmanna um alræðisstefnur, Stéphane Courtois sjálfur, Anna Funder, höfundur verðlaunabókarinnar Stasiland, Pawel Ukielski, forstöðumaður safnsins um uppreisnina í Varsjá 1944, dr. Mart Nuut, sagnfræðingur og þingmaður á eistneska þinginu, og Andreja Zver, forstöðumaður stofnunar um sátt við söguna í Slóveníu.

Einnig sagði ég frá tveimur erindum mínum í tengslum við verkefnið. Annað var haldið í nóvember 2012 til varnar Jung Chang og Jon Halliday, höfundum stórfróðlegrar ævisögu Maós, en starfsmaður og styrkþegi kínversku stjórnarinnar hafði skrifað langa árásargrein á þau í Sögu, tímarit Hins íslenska sögufélags. Hitt erindið var haldið í október 2013 um „Ólíkar þjóðir deila minningum“, þar sem ég bar saman hlutskipti Íslands og Eystrasaltslandanna á tuttugustu öld: Öll fengu ríkin sjálfstæði 1918, öll voru þau hernumin vorið 1940, í öllum leysti nýr hernámsaðili annan af hólmi 1941, og öll urðu þau lýðveldi 1944, þegar Ísland sleit sambandið við Dani, en Eystrasaltsríkin urðu „ráðstjórnarlýðveldi“ gegn vilja sínum.

Að kvöldi 12. nóvember var fundur í samkomuhúsi kaþólsku kirkjunnar í Haag um rætur alræðisstefnunnar. Stéphane Courtois benti á, að Lenín hefði fyrstur fylgt fram hugmyndinni um fullkomna umsköpun skipulagsins og nýjan mann að henni lokinni. Í rauninni hefðu Stalín og Hitler og jafnvel Mússólíni verið lærisveinar hans. Ég spurði Courtois, hvað hann segði um ýmis lönd, þar sem ríkisvaldið hefði verið nánast altækt, svo sem ríki Inkanna í Perú og Kínaveldi undir stjórn Ming-keisaranna. Hefðu þau verið alræðisríki? Courtois svaraði því til, að þetta hefðu verið ríki forræðissinna (authoritarians), en ekki alræðissinna (totalitarians), því að frumhugmyndina um fullkomna umsköpun skipulagsins og nýjan mann hefði vantað.

Courtois er lágvaxinn maður með alskegg, brosmildur, iðandi af lífi og fjöri. Við spjölluðum margt saman. Hann sagði mér, að franska frumútgáfan hefði komið í bókabúðir 7. nóvember 1997, réttum sjötíu árum eftir byltingu bolsévíka í Rússlandi. Dóttir sín hefði komið blaðskellandi inn rétt eftir morgunmat og sagði, að bókin væri komin í bókabúðina á horninu rétt hjá íbúð þeirra og þegar hefðu selst tvö eintök. Síðan hefði fjölmiðlaathyglin skollið á þeim eins og stormur. Courtois sagði líka frá ágreiningnum á meðal höfunda bókarinnar, sem nú hefði verið jafnaður, til dæmis við Nicolas Werth, sem skrifaði kaflann um Rússland. Hann sagði, að Svartbókin ætti sér sjálf langa og merkilega sögu.


Myndbönd um Kolkrabbann og Baugsklíkuna

Ég flutti erindi á málstofu í Viðskiptadeild þriðjudaginn 5. nóvember 2013 um það, hvort Kolkrabbi hefði löngum ráðið íslensku atvinnulífi ásamt „fjölskyldunum fjórtán“, eins og dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir hefur haldið fram. Einnig ræddi ég um þá kenningu hennar, að Eimreiðarhópurinn hefði síðan tekið við sem valdaklíka, og vísaði ég þvi á bug með ýmsum rökum. Enn fremur gerði ég að umtalsefni árin 2004–2008, þegar Jón Ásgeir Jóhannesson hafði hér mestöll völd og Baugspennarnir fóru mikinn. Ég benti á það, að Ísland naut þá mikils lánstrausts vegna hinnar skynsamlegu stefnu, sem fylgt var árin 1991–2004, þegar verðbólga hjaðnaði niður í hið sama og í grannlöndunum, andvirði seldra ríkisfyrirtækja var notað til að greiða upp skuldir ríkissjóðs, skilvirkt og arðbært fiskveiðistjórnunarkerfi var fest í sessi, sjálfbært og traust lífeyrissjóðakerfi fékk að myndast, skattar voru lækkaðir og réttindi einstaklinga aukin með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum.

Ég sýndi línurit, sem ég sótti í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, um skuldasöfnun viðskiptasamstæðnanna þriggja, sem mest kvað að upp úr 2000, Baugsklíkunnar, Exista-hópsins og Björgólfsfeðga. Þar kemur fram, að Baugsklíkan var í sérflokki um skuldasöfnun. Í samanburði við hana fóru hinir hóparnir tveir gætilega. Baugsklíkan var líka í sérflokki um það, að hún var mjög virk í stjórnmálabaráttunni. Hún keypti upp einkamiðlana og sigaði þeim miskunnarlaust á þá, sem hún taldi sér ekki hliðholla. Sú er kaldhæðni örlaganna, að Jón Ásgeir nýtti hið mikla lánstraust, sem Davíð Oddsson hafði skapað erlendis, til þess að berjast gegn Davíð af öllu afli. Má ef til vill hafa sömu orð um það og gert var, þegar Tryggvi Þórhallsson fór í framboð gegn Jónasi Jónssyni frá Hriflu: Sjaldan launar skepnan skaparanum. Illt er einnig til þess að vita, að margt duglegt og gott fólk í bönkum og útrásarfyrirtæki skuli hafa fengið á sig óorð vegna einnar klíku. Ekki á að fordæma allt viðskiptalífið fyrir bankahrun vegna þess, sem Baugsklíkan gerði ein.

Hér er viðtal, sem netsjónvarp Morgunblaðsins tók við mig eftir málstofuna:

Hér sést, í hvað eitthvað af því mikla fé, sem Baugsklíkan tók út úr bönkunum, rann::

Bloggfærslur 16. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband